27. mars 2008
Kappadeildarfundur 27. mars 2008.
Sameiginlegur fundur Gamma- og Kappadeildar. Haldinn í Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Skeifunni 8.
Gestgjafi: Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri FA
Fundarstjórar: Ingibjörg Jónasdóttir frá Gammadeild og Marsibil Ólafsdóttir frá Kappadeild.
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
Fundur hófst kl. 20:00.
1. Setning fundar
Marsibil og Ingibjörg settu fund, kveiktu á kertum og buðu félagskonur velkomnar.
2. Nafnakall
Alls voru mættar 17 Kappakonur af 28 félögum.
3. Orð til umhugsunar
Kristrún Sigurjónsdóttir, félagi í Kappadeild.
Kristrún, sem er deildarstjóri í móttökudeild nýbúa í Lækjarskóla í Hafnarfirði, talaði um fordóma. Hún ræddi um breytinguna á samfélaginu. Samfélagið er orðið fjölmenningarlegra en það var fyrir aðeins fáeinum árum síðan. Ekki er langt síðan fyrsti litaði maðurinn flutti í Hafnarfjörðinn og vakti mikla athygli. Samfélagið var ekki tilbúið fyrir þessar breytingar. Við fluttum inn vinnuafl, en fengum fólk. Fordómarnir í garð innflytjenda eru að þróast á hættu¬legar brautir. Kristrún sagðist finna meira fyrir fordómum innan skólakerfisins hjá nemendum en áður.
Hún lagði áherslu á að við ættum að undirstrika það sem er sameiginlegt með okkur, frekar en það sem aðgreinir okkur. Þannig getum við unnið gegn fordómum. Þar sem við sjáum ógnanir, þar eru líka tækifæri sagði Kristrún að lokum.
4. Áður en veitingar voru veittar sagði Marsibil frá fundinum okkar í HR og sagðist vonast til að Kappadeildin gæti boðið Gammadeildinni á sameiginlegan fund í nýrri byggingu HR í Öskjuhlíðinni fyrr en síðar
Sigríður Þrúður kom einnig upp og afhenti okkur spjald með yfirliti yfir „starfsmannamanngerðir“ sem hún hafði gleymt að láta okkur hafa á síðasta fundi.
Þá vorum við minntar á vorþingið þann 17. maí.
6. Mat á raunfærni
Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) byrjaði á að segja okkur frá tilurð og hlutverki FA. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. var stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í desember 2002. Þjónustusamningur er í gildi við menntamálaráðuneytið sem kemur að öðru leyti ekki að starfseminni.
Hlutverk FA er að vera samstarfsvettvangur stofnaðilanna um fullorðinsfræðslu og starfsmenntun í samstarfi við aðrar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtaka ASÍ og SA. Markhópur FA er fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskóla, en um það bil 40% fólks á vinnumarkaði hefur ekki lokið framhaldsskólanámi. Stefnt er að því að árið 2020 verði þessi tala komin niður í 10%. Einn liður í því að svo megi verða er þróun raunfærnimats. Raunfærni er öll færni sem einstaklingurinn hefur aflað sér í gegnum lífið með ýmsum hætti, jafnt með óformlegum, formlausum eða formlegum hætti. Raunfærnimat byggist á því að meta færni einstaklingsins sem ígildi formlegs náms, þannig að einstaklingurinn þurfi ekki að sækja nám í því sem hann raunverulega kann og geti þannig stytt leið sína í gegnum menntakerfið til að afla sér formlegrar menntunar. Viðkomandi hoppar því inn í námið á réttum stað. FA fékk það hlutverk árið 2003 að aðstoða menntamálaráðuneytið við að móta tillögur um útfærslur á leiðum til að meta raunfærni einstaklinga og hafa tillögur verið sendar til ráðuneytisins.
Ingibjörg fór í gegnum ferlið við matið eins og FA hefur verið að þróa það. Stefnt er að því að Símenntunarmiðstöðvar um land allt meti raunfærni einstaklinga þegar búið er að samþykkja útfærsluna, en ekki eru allir sammála aðferðafræðinni við matið.
Fundi slitið kl. 22:30.
Síðast uppfært 14. maí 2017