28. september 2009, fundur Kappadeildar
Haldinn í boði Sólborgar Öldu í húsnæði landsskrifstofu Rauða kross Íslands að Efstaleiti 9.
Fundarstjóri: Marsíbil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
1. Fundur settur og nafnakall viðhaft
Fundur settur og kveikt á kertunum. 19 félagar mætttir.
2. Fundagerð síðasta fundar lögð fyrir fundinn
Fundargerð samþykkt eftir örfáar athugasemdir.
3. Orð til umhugsunar: Áslaug Ármannsdóttir
Í Valhúsaskóla eru þau „á kafi“ í Uppbyggingarstefnunni og í sumar var farið að tala um lífsvagninn. Út frá því fór hún að spá í lífsvagninn sinn og hverjir sitja á honum, hverjir sitja fremst, hverjir koma næst og svo framvegis.
Hún sagði okkur frá atviki sem hafði rifjast upp fyrir henni þegar hún settist inn í leigubíl um daginn.
Í bílstjórasætinu sat maður sem hún hafði verið með í skóla þegar hún var lítil. Einn daginn hafði hann komið að þeim systrum, tekið töskurnar þeirra og stappað á þeim. Drengurinn var tekinn og skammaður fyrir þessa hegðun, en aldrei var spurt hvort þær systur hefðu gert eitthvað á hlut drengsins. Sannleikurinn var sá að þær höfðu verið að stríða honum daginn áður á því að hann gæti ekki lesið. Kannski varð þetta atvik til þess að hún er nú búin að verja um fjörutíu árum í að kenna öðrum að lesa. Þetta atvik kenndi henni líka að spyrja alltaf engilblíðar stúlkur sem lenda í útistöðum við drengi hvort þær hafi gert eitthvað á hlut þeirra sem verið er að skamma.
Áslaug sagði alltaf jafn gaman að kenna. Að kenna lestur og íslensku er hennar lífstarf en svo á hún mörg áhugamál og þarf alltaf að vera að hreyfa sig. Hún sagði okkur frá því þegar hún lærði að hjóla og var óstöðvandi fram að fermingu. Hún átti svart strákahjól sem kallað var Tíkin. Hún hjólaði svo mikið á aldrinum sjö til átta ára að hún þekkti hverja einustu götu í Reykjavík. Hún hætti að mestu hjóla um fermingu, en byrjaði aftur fyrir um það bil 20 árum og fór þá að hjóla úti á þjóðvegunum. Var hún yfirleitt ávörpuð á ensku í byrjun vegna þess hve fáir Íslendingar hjóluðu á þjóðvegunum á þessum tíma en það hefur breyst. Fáir nenntu að hjóla með henni en nú hjóla bæði ættingjar og vinir með. Núna hjólar hún bæði innanlands og utan.
Hún er líka mikill göngugarpur, dreif sig í Útivist og nú gengur hún vítt og breitt um landið. Árið sem hún varð sextug fór hún í 60 fjallgöngur, þar af 20 sinnum á Esjuna.
Hún er alltaf að gera eitthvað nýtt og spennandi. Í sumar skráði hún sig á Facebook og er búin að endurnýja kynnin við marga gamla nemendur sem hún bætti á lífsvagninn sinn. Hún ætlar að stýra lífsvagninum sínum áfram en þegar hún hættir því kemur Gullvagninn að sækja hana. Og Áslaug endaði pistil sinn með því að spila lagið Gullvagninn með Björgvini Halldórssyni við mikinn fögnuð áheyrenda.
4. Sigríður Hulda varaformaður. Markmið samtakanna og hópefli
Sigríður fór yfir markmiðin og bað okkur um að hugleiða hvað það væri sem hver og ein vill fá út úr þátttöku sinni í félaginu.
Sigríður fór með okkur í smá hugleiðslu þar sem hver og ein hugleiddi styrkleika sína. Hugleiðslunni lauk með því að við tókum í hönd þeirrar konu sem sat hægra megin við okkur, kynntum okkur og sögðum henni frá styrkleika okkar.
Að lokum bað Sigríður okkur að hugleiða með sjálfum okkur hvaða eiginleika hver og ein ætlar að rækta með sér á árinu 2010.
5. Fréttir frá gjaldkera, Marsibil formaður sagði frá
Lagt er til að árgjaldið verði kr. 8.500. Þar af þurfum við að greiða 7.500 kr. til félagsins í Bandaríkjunum. Tillagan var einróma samþykkt.
6. Fréttir frá landsambandsþingi og tillaga borin fram um nýjan félaga. Marsibil formaður
Stjórnin ákvað að hafa þemað í vetur „mannúð og menning“. Þessi ákvörðun var meðal annars byggð á umræðum hópsins á síðasta fundi vetrarins í vor.
Þrjár konur hafa hætt í félaginu en ein ný hefur sótt um inngöngu.
Það er Ragna Ólafsdóttir fyrrverandi skólastjóri Melaskóla.
Samþykkt var einróma að bjóða hana velkomna í Kappa deild.
Nýr félagi verður því tekin formlega inn í samtökin á næsta fundi og mun formaður landsambandsins, Ingibjörg Jónasdóttir koma á fund og stjórna þeim gjörningi.
Marsíbil sagði frá fyrirhugaðri dagskrá vetrarins. Þann 20. október hittumst við í Setbergsskóla og jólafundurinn verður haldinn hjá Sigríði Gunnlaugsdóttur í Hafnarfirðinum þann 26. nóvember. Ekki hefur nánar verið ákveðið með fundi á vorönninni utan lokafundurinn sem haldinn verður í sumarbústað Önnu Kristínar á Mýrunum þann 8. maí.
Þrír meðlimir okkar hafa verið tilnefndir í nefndir á vegum landsambandsins. Hrönn og Guðrún Edda eru í útbreiðslunefnd og Sigríður Johnsen er í menntamálanefnd.
7. Kaffi og meðlæti
Guðný Gerður, Guðrún Edda og Guðlaug komu með dýrindis veitingar.
8. Rauði krossinn
Sólborg sagði frá starfi sínu á landsskrifstofu Rauða krossins en hún starfar á innanlandssviði og er verkefnisstjóri félagslegra verkefna, auk þess að vera tengiliður við deildir og aðstoða sviðsstjórann með eitt og annað.
Hún sagði lítillega frá starfsemi sviðanna í húsinu, innanlandssviðs, alþjóðasviðs, útbreiðslusviðs og fjármálasviðs.
Eftir það sýndi hún stutta mynd um stofnun Rauða krossins og starfssemi á alþjóðavettvangi og á landsvísu.
9. Fundi slitið kl. 22.00
Eftir fundarslit fóru nokkrir félagar í skoðunarferð um húsið undir leiðsögn Sólborgar.
Síðast uppfært 14. maí 2017