21. mars 2013
Fimmti fundur Kappadeildar starfsárið 2012 til 2013. Haldinn 21. mars 2013 klukkan 18:00 í Kvennaskólanum í Reykjavík.
Kappasystur komu saman í Miðbæjarskólanum Fríkirkjuvegi 1. Bygging Miðbæjarskólans og starfsemi hans markaði var stórt framfaraskref í fræðslumálum Reykjavíkur en skólinn var settur í fyrsta sinn í október 1898. Nú hýsir Miðbæjarskólinn starfsemi Kvennaskólans í Reykjavík og Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari tók á móti okkur og sagði frá því hvernig skólinn hennar hefur hreiðrað um sig í þessu fallega gamla húsi. Allnokkrar breytingar þurfti að gera á húsakynnum til að sem best færi um Kvennaskólann þar. Ingibjörg fór með okkur um húsið og sýndi okkur kennslustofur, vinnurými kennara og ýmsar aðrar vistarverur. Eftir að hafa gengið um húsið fórum við að hinu upprunalega húsi Kvennaskólans að Fríkirkjuvegi 9.
Þegar þangað var komið skoðuðum við glæsilega skrifstofu skólameistara og stásstofu sem á sér sögu frá þeim konum sem áður stýrðu Kvennaskólanum. Við komum okkur fyrir í matsal skólans og þar setti formaður, Sigríður Johnsen fundinn bauð okkur velkomnar og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.
Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 13 félagskonur mættar.
Lesin var fundargerð fjórða fundar starfsársins og hún samþykkt.
Orð til umhugsunar flutti Arndís Harpa Einarsdóttir undir yfirskriftinni ,,Konur vilja“ Harpa segir okkur frá því að hún hafi nýlega skipt um starf, hún hafi verið á námskeiði sem ber yfirskriftina; þora, vilja, geta. Þar hlustaði hún á konur sem hafa farið út fyrir þægindahringinn sinn og hafa ekki látið hindranir stöðva sig en gæta þurfi þess að hindranir eru oft svo ósýnilegar og hreiðri gjarnan um sig innra með okkur. Við búum í karllægu samfélagi þar sem þeir fái 70% af tíma fjölmiðla og mikilvægt að konur skorist ekki undan þegar til þeirra er leitað t.d. sem álitsgjafa um hin ýmsu málefni. Við þurfum m.a. að rísa upp og mótmæla launamisrétti. Varðandi samstöðu og að við gerum okkur sýnilegar sé vilji allt sem þurfi til og Harpa brýnir okkur til að standa saman og upphefja verk kvenna.
DKG séu samtök sem gefa okkur tækifæri til þess að styrkja okkur, sameina og mynda tenglsanet okkar sem kvennahóps.
Eftir hvatningarorð Arndísar Hörpu var borinn fram steiktur þorskur ásamt meðlæti sem kokkur skólans eldaði fyrir hópinn og smakkaðist hann afar vel.
Ingibjörg skólameistari fór síðan yfir sögu skólans, hvernig hann þróaðist úr því að vera gagnfræðaskóli í það að verða menntaskóli. Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður 1874 og í byrjun voru nemendur aðeins 10 og fyrstu öldina voru þar einungis stúlkur. Skólanum var breytt í framhaldsskóla árið 1979 og fyrstu stúdentarnir voru útskrifaðir 1982. Nú eru um 650 nemendur í skólanum og hann er í þremur húsum eins og áður hefur komið fram; að Fríkirkjuvegi 1 og 9 og í Þingholtsstræti 37. Ingibjörg sagði okkur frá stefnumótun og þróunarstarfi sem hefur verið unnið að og er enn í vinnslu við mótun skólastarfsins og sýnar til framtíðar. Í skólanum er bekkjarkerfi og fjölbreyttar bóknámsbrautir í boði til stúdentsprófs og eru auknir möguleikar þeirra nemenda sem vilja ljúka námi á þremur árum. Hún segir útlit fyrir að tveir þriðju nemenda ljúki námi til stúdentsprófs á þremur árum og meðalnámstíminn styttist um 0,5 til 0,7 ár.
Í lokin fór Ingibjörg yfir nokkur lykilatriði við stjórn á innleiðingu breytinganna sem unnið er að: Að skólameistari sjái til lands og treysti sínu fólki, að allir innan skólans taki þátt í þróunarstarfinu, hafa réttu verkefnastjóranna, upplýsingar séu aðgenginlegar fyrir alla og kynning á framvindu sé öflug, stuðningur ráðamanna og stéttarfélags. Síðast en ekki síst, að halda upp á sigrana og missa ekki móðinn.
Við lok fundar ávarpaði Sigríður Johnsen Ingibjörgu skólameistara og þakkaði henni fyrir höfðinglegar móttökur.
Hún sleit svo fundi klukkan 21:15, þakkaði Kappasystrum fundarsetuna og slökkti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu
Erla Guðjónsdóttir, ritari
Síðast uppfært 14. maí 2017