31. október 2016

Fundur haldinn í húsnæði Námsflokka Reykjavíkur í boði Iðunnar Antonsdóttur forstöðukonu.

Formaður Guðrún Edda setti fund, bauð fundarkonur velkomnar og kveikti á kertum vináttu – trúmennsku og hjálpsemi.
Gengið til dagskrár.
Nafnakall – Ingibjörg Guðmundsdóttir 15 félagskonur mættar.
Júlíana las fundargerð síðasta fundar sem var samþykkt.
Áslaug sagði frá fyrirkomulagi gjaldanna sem eru 15 þúsund og við bætist 150 kr. vegna bankakostnaðar. 10 þúsund fara í alþjóðasamtökin. Hún afhenti þeim sem búnar eru að greiða spjöldin/skírteinin.
Guðrún Edda upplýsti það að ef einhver ætlar að sækja um styrk til samtakanna þá þarf að framvísa skírteini.

Orð til umhugsunar – Guðrún Edda hljóp í skarðið fyrir Sigríði Huldu sem ætlaði að vera með það innlegg en hún forfallaðist.
Guðrún Edda talaði um hrós í víðum skilningi. Frá snillingunum á facebook “ mont-statusar“ að láta aðra vita af afrekum sínum eða sinna nánustu og ekki stendur á viðbrögðum í formi ýmis konar hróss. Fólk notar orðið snillingur um börn til að hrósa þeim. Slík hrós séu ekki endilega til þess fallin að styrkja sjálfsmynd barna þar sem það leiði jafnvel til þess að börnin fái þau skilaboð að þau séu svo frábær, jafnvel án þess að hafa mikið lagt á sig - til innihaldsríks og merkingarbærs hróss. Guðrún vitnaði í kenningu Carol Dweck „growth and fixed mindsets“ En hún heldur því fram að það sé mikilvægt að hrósa fólki fyrir það sem það hefur gert, en ekki fyrir hvað eða hvernig það er. Með því styrkjum við það sem hún kallar „growth mindset“ eða hugarfar vaxtar.
Niðurlag Guðrúnar var að mikilvægt væri að átta sig á hvað vekur með okkur fastmótað hugarfar og hvað hvetur okkur til að til að líta á þær áskoranir sem lífið færir okkur sem ögrandi viðfangsefni sem gefa okkur tækifæri til að þroskast og vaxa ævilangt sem manneskjur og persónur.

Hlé gert á fundi og veitingar fram bornar sem að þessu sinni voru snittur og konfekt, skemmtileg og notaleg stund – mikið spjallað.

Að loknu hléi kynnti Guðrún Edda næsta lið sem var kynning á Námsflokkum Reykjavíkur en Iðunn Antonsdóttir forstöðukona kynnti ásamt samstarfskonu sinni, náms og starfsráðgjafanum Jódísi Káradóttur. Námsflokkar Reykjavíkur eru elsta fullorðinsfræðsla landsins, hóf starfsemi 1935.
Námsleiðirnar eru Grunnnám – Karlasmiðja – Kvennasmiðja – Námsbrú – Námskraftur – Starfskraftur.
Einn þriðji alls námsins er sjálfsefling einn þriðji list og verkgreinar og einn þriðji bóknám.
Helstu hlutverk eru – Grunnvísar – Náms og starfsráðgjöf og Útgáfa námsvottorða vegna náms allt frá árinu 1939.
Náms og starfsráðgjafar eru starfandi á öllum þjónustumiðstöðvum borgarinnar og líka í Námsflokkunum að Suðurlandsbraut 32.
Iðunn lýsti fyrir okkur hvernig námið færi fram og hvernig það væri tilkomið.

Kvennasmiðja er endurhæfingarverkefni á vegum Velferðasviðs með það að markmiði að auka lífsgæði þátttakenda – fjölbreytt nám í 18. mánuði.
Karlasmiðja – Átaksverkefni ætlað körlum sem hafa verið án atvinnu um nokkurn tíma – Verkefni í 18 mánuði. –Áhersla er lögð á lífsgæði og aukna samfélagsþátttöku.
Þróunarverkefni – þar sem gert er ráð fyrir að 42 nemendur geti verið í verkefnum á hverri önn. 16 -18 ára ungmenni sem ekki eru í námi né vinnu. Fjölbreytt störf og samstarf við marga vinnustaði.
Námskraftur – fjögurra mánaða verkefni í heild alls 84 nemendur á ári. Samstarf við fjölbrautarskólann í Ármúla. Námsgreinar eru Heimspeki, og list og verkgreinar og – félagsstarfsemi. nemendur í Námskrafti eru með margskonar greiningar, margir á einhverfurófi og með hegðunarvandamál. Foreldrar eða forráðamenn koma í foreldraviðtöl. 80% klára námið 2/3 strákar og 1/3 stelpur.Einingar eru gefnar á framhaldsskólastigi eins og um ½ nám væri að ræða.
Svo er átaksverkefnin Starfskraftur – Námskraftur fyrir ungt fólk.

Námsflokkar Reykjavíkur er og þarf að vera í stöðugri þróun. Næst verður unnið að stofnun Bataskóla í samstarfi við Geðhjálp og Velferðarsvið. Þar verður stuðst við Breska hugmyndafræði og stefnt að því að hefja þessa braut haustið 2017. Þetta verður tveggja anna nám. Námsflokkarnir eru í nýju húsnæði með virka gamla og nýja stefnu.

Að lokinni kynningu bauð Iðunn okkur að skoða húsnæðið og sýndi okkur hvern krók og kima sem allir eru vel nýttir. Þarna er mjög notalegt og heimilislegt umhverfi sem hefur örugglega sitt að segja til eflingar fyrir nemendur á sviði list, verk og bóknáms og síðast en ekki síst félagsleg efling.

Guðrún Edda þakkaði Iðunni og Jódísi fyrir frábærar móttökur og fræðslu og færði þeim rós, sleit fundi kl 20:20 og slökkti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.


Síðast uppfært 12. apr 2017