22. október 2015

Fyrsti fundur Kappa-deildar starfsárið 2015 – 2016
var haldinn fimmtudaginn 22. október 2015 á heimili Ingibjargar Guðmundsdóttur að Álftalandi 15, Reykjavík. 
Formaður Kappa-deildarinnar, Gunnlaug Hartmannsdóttir, setti fund og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hún bauð gesti fundarins velkomna en það voru þær Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla, og Ragnheiður Axelsdóttir, kennsluráðgjafi í Reykjavík, en þeim hefur báðum verið boðið að ganga til liðs við deildina.

Þá var komið að dagskrárliðnum Fundargerð síðasta fundar. Þar sem ritari deildarinnar var fjarverandi var þessum lið frestað.

Síðan fór fram nafnakall. Guðrún Edda Bentsdóttir, varaformaður Kappa-deildar, tók nafnakall og kom í ljós að á fundinn voru mættar tólf Kappa-systur auk tveggja gesta, eins og áður segir.

Gunnlaug formaður dreifði og kynnti starfsáætlun vetrarins en hún hefur skipulagt starfið í samráði við stjórnina. Stjórnin hefur samþykkt þá tillögu formanns að skipta Kappa-systrum í 3 – 4 manna hópa til að undirbúa fundina í vetur. Á starfsáætluninni koma fram dagsetningar fundanna, hverjar eiga að sjá um hvern fund og hverjar eiga að sjá um veitingar þegar við á. Þær sem hafa umsjón með viðkomandi fundi fá það verkefni að fela einhverri Kappa-systurinni að sjá um orð til umhugsunar til að vekja félagskonur til umhugsunar um þau málefni sem á viðkomandi brennur hverju sinni. Einnig finnur undirbúningshópurinn einhvern til að vera með faglegt innlegg á fundinum. Undirbúningshópurinn sér jafnframt um að finna fundarstað hvort sem er í heimahúsi eða á veitingastað. Lagt er til að tveir fundir verði haldnir í heimahúsum og hafa verið skipaðir sérstakir hópar til að sjá um veitingar á þeim fundum. Sú Kappa-systir sem er efst og með nafn sitt undirstrikað á hverjum lista hefur það hlutverk að stýra vinnunni. Hver hópur hefur samband og samráð við stjórnina vegna undirbúningsins, staðsetningar, dagskrár o.þ.h. Upplýsti Gunnlaug að þessi tillaga væri til komin til að gera Kappa-systur enn virkari í starfinu, til að auka samkenndina og dreifa verkum á félagskonur. 

Stjórnin leggur til að haldnir verði sex hefðbundnir fundir Kappa – deildar á þessu starfsári en hvetur Kappa-systur einnig til að sækja viðburði á vegum landssambandsstjórnarinnar, s.s. hátíðardagskrána 7. nóv. nk. vegna 40 ára afmælis samtakanna og vorþingið sem haldið verður 30. apríl 2016. Nánari upplýsingar um hátíðardagskrána er að finna á heimasíðu DKG http://dkg.muna.is/ en  í ljós kom að aðeins tvær Kappa-systur höfðu þegar skráð sig á hátíðardagskrána og hvatti formaður þær sem hefðu áhuga og tök á að mæta að skrá sig sem fyrst því hér væri bæði um metnaðarfulla og áhugaverða dagskrá að ræða og væri kostnaði stillt mjög í hóf.  Í umræðum um starfsáætlun vetrarins kom fram að sumar Kappa-systur hefðu gjarnan viljað hafa fleiri fundi á vorönninni og lögðu til að á næsta ári yrði reynt að hefja starfið aðeins fyrr að haustinu til að koma fyrir fleiri fundum. 
Gunnlaug formaður lýsti yfir ánægju sinni með að Kappa-systur vildu gjarnan hittast sem oftast og taldi það merki um það systraþel sem hefði myndast í hópnum. En hún minnti einnig á að það væri mikilvægt að mynda tengsl við aðra hópa innan samtakanna og því væri dýrmætt fyrir Kappa-systur að hafa tök á að sækja einnig viðburði á vegum landssambandsstjórnarinnar.

Gunnlaug formaður sagði því næst fréttir frá landssambandsstjórn DKG. Landsfundur með formönnum allra deilda var haldinn í sept. sl. Kappa-deild er með tvo fulltrúa í landssambands-stjórninni, formann og Sigríði Johnsen sem er annar varaforseti landssambandsins. Stjórn landssambandsins er þannig skipuð 2015 – 2017:

Eygló Björnsdóttir forseti, Betadeild 
Kristín Jónsdóttir 1.varaforseti, Gammadeild 
Sigríður Johnsen 2. varaforseti, Kappadeild 
Jónína Eiríksdóttir ritari, Deltadeild 
Inga María Ingvarsdóttir meðstjórnandi, Þetadeild

Með landssambandsstjórninni starfa einnig fráfarandi forseti:,  Guðbjörg M. Sveinsdóttir, Þetadeild ,
Jensína Valdimarsdóttir, Deltadeild sem er gjaldkeri og Auður Torfadóttir, Etadeild sem er lögsögumaður. 

Gunnlaug formaður fór síðan yfir helstu nefndir landssambandsstjórnarinnar en Kappa-deild á tvo fulltrúa í útbreiðslu- og félaganefnd en það eru Erla Guðjónsdóttir og Sólborg Alda Pétursdóttir.  Formaður minnti á Face-book hóps samtakanna þar sem fram koma bæði fréttir og ýmsar áhugaverðar upplýsingar. Gunnlaug fór einnig yfir það helsta sem fram kom í fréttabréfi frá nýjum forseta, Eygló Björnsdóttur, sem er mjög umhugað um að nýta upplýsingatæknina sem best til að gera starfshætti og upplýsingamiðlun á vegum samtakanna sem nútímalegasta. Bent var á að laga þurfi félagatal Kappa-deildarinnar en Gunnlaug, Sólborg Alda og Valgerður hafa tekið það að sér auk þess að fara yfir síðu deildarinnar á heimasíðu DKG. Einkunnarorð næsta starfsárs eru: Verum virkar – styrkjum starfið og hafði Gunnlaug skráð þessi einkunnarorð á skýran hátt á starfsáætlun vetrarins.

Næsti liður á dagskránni og aðalefni fundarins var fyrsti hluti s.k. „Stjörnu-námskeiðs“ sem var þýtt og staðfært af Sigrúnu Jóhannesdóttur en Gunnlaug og Valgerður höfðu aðlagað fyrir Kappa-deildina. Markmiðið með þessu námskeiði  er að leita leiða til að efla starfsemi deildanna, samkennd og samhygð. Námskeiðið fór þannig fram að fundarkonum var skipt í pör eða 3 manna hópa sem unnu saman að þeim verkefnum sem fyrir voru lögð.

Fyrsta verkefnið fjallaði um hvöt (motivation). Hver og ein Kappa-systir svaraði spurningunni: Hvað hvatti þig til að gerast félagi í Kappa-deild?  Síðan ræddu pörin um reynslu sína og skráðu hvað var líkt eða ólíkt með reynslu sinni. Síðan deildu pörin niðurstöðum sínum og í ljós kom að flestar Kappa-systur höfðu haft áhuga á þessum samtökum, vildu stækka faglegt tengslanet sitt og kynnast konum úr öðrum geirum fræðslumálanna.

Annað verkefnið fjallaði um samskipti eða hvernig við getum hvatt og stutt hvor aðra í starfi DKG. Hver  Kappa-systir fékk lista með atriðum sem átti að merkja við á kvarðanum A+ - F þar sem A+ var hæst og F lægst. Síðan átti að bera sinn lista saman við lista sessunautarins og útskýra hvernig og hvers vegna valin atriði hvettu hverja og eina mest. Þegar niðurstöðum úr þessari vinnu var miðlað til alls hópsins kom í ljós að flestum Kappa-systrum fannst jákvæð hugsun, stuðningur frá félögum, ákveðin ögrun í að prófa eitthvað nýtt, hafa skýra sýn og markmið og jákvæðar fyrirmyndir hvað mikilvægust, en síðast en ekki síst, þá yrði líka að hafa gaman að lífinu og þeim verkefnum sem það hefur upp á að bjóða. Gunnlaug þakkaði í lokin fyrir góð og einlæg svör sem hún sagði bera merki um hvað konur í Kappa-deildinni væru góður félagsskapur, konur  með mikinn eldmóð en um leið einlægar og elskulegar.

Síðan var boðið upp á kaffiveitingar sem voru í boði stjórnarinnar að þessu sinni. Þá gafst Kappa-systrum tækifæri til að spjalla óformlega hver við aðra og gestunum gafst færi á að kynnast Kappa-systrum betur og kynna sig fyrir þeim.

Gunnlaug formaður sleit síðar fundi kl. 10:10. Hún ítrekaði hvað vináttan sem hefði skapast í hópnum væri dýmæt og brýndi konur að halda áfram að rækta kærleikann og vináttuna, vera væmnar, bljúgar og góðar… ef það hentar okkur og þegar það á við. Hún þakkaði Ingibjörgu fyrir að hýsa fundinn á sínu fallega heimili í Fossvoginum og færði henni rauða rós í þakklætisskyni. Valgerður fékk einnig rauða rós fyrir að undirbúa „stjörnunámskeiðið“. Gunnlaug upplýsti að hún væri með spilastokk með merki samtakanna til sölu á kr. 1.000.- sem félagskonur gætu keypt til að styrkja samtökin. Hún þakkaði góða og gefandi samveru eins og endranær og slökkti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.


Síðast uppfært 01. jan 1970