Fundargerð 9. desember 2021

Jólafundur.

Hulda Anna formaður bauð fundarkonur velkomnar, kynnti dagskrá jólafundarins, kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og setti fund.

Fram fór nafnakall og voru 18 konur mættar. Linda Helgadóttir las fundargerð frá síðasta fundi og hún samþykkt án athugasemda.

Guðrún Edda vakti athygli á að Ingibjörg Kristleifsdóttir sem var í Kappadeild sé aftur flutt til Reykjavíkur og hugmynd að bjóða henna að koma aftur í deildina, því stefnan sé að bæta við konum í deildina
Hefðbundinn jólamatur hangikjöt og meðlæti, drykkir og dýrindis eftirréttir.

Soffía Vangsdóttir spilaði á píanó og stjórnaði jólasöng.

Leynigestur kvöldsins var Sigrún Helgadóttir líffræðingur. Hún kynnti bók sína Sigurður Þórarinsson -Mynd af manni. Í ævisögunni er dregin upp mynd af fjölhæfum og áhrifamiklum manni í íslensku þjóðfélagi. Sigurður var einn af fremstu vísindamönnum Íslendinga. Hann var nýkominn heim frá námi í jarðfræði þegar stórgos varð í Heklu árið 1947. Hann rannsakaði það og útskýrði og síðan öll önnur eldgos sem á eftir komu hér á landi svo lengi sem hann lifði. Sagt var að hann væri Jarðfræðingurinn með stóru Joði. Askja var uppáhaldsstaður Sigurðar og á bókarkápu má sjá hann þar með hraunmola í hendinni og með rauða húfu sem hann var auðþekktur á og bar á ferðum sínum.
Sigurður hlaut alþjóðlega athygli fyrir vísindastörf sín og ekki síst fyrir að þróa sérstaka fræðigrein, öskulagafræði. Hann fékk mörg gylliboð um atvinnu erlendis en vildi hvergi búa og starfa nema á Íslandi. Hann gjörþekkti landið, eldgosin, jöklana og jarðlögin en líka sögu og menningu og glæddi áhuga og þekkingu þjóðarinnar á náttúru landsins og mikilvægi náttúruverndar. Hann skrifaði fyrstu náttúruverndarlögin á Íslandi. Hann var einnig vinsælt söngvaskáld og margir texta hans eru enn sungnir svo sem, Vorkvöld í Reykjavík eða Þórsmerkurljóð sem Sigurður orti í Grímsvörnum 1958.

Valgerður Magnúsdóttir flutti orð til umhugsunar, hún sagðist hafa farið í marga hringi áður en hún ákvað málefni. Hún fann fyrir miklu traustið í þessum hóp og lét því vaða. ,,Ég heiti Valgerður og ég er umhverfissóði.“ Með þessum orðum vakti hún okkur til umhugsunar og sagði síðan frá ýmsu sem tengist þessu, eins og málstofu sem fjallaði um skórækt gegn loftlagsvá. Að neysluhyggjan væri allt umlykjandi í aðdraganda jólanna, persónulega óskaði hún sér upplifunar eða eitthvað til að njóta. Valgerður hugsaði til uppvaxtarára sinna á eyrinni á Akureyri, fyrsta umhverfisátaksins, litlir plastpelar fyrir skyr, sælgætisbréf og síðan endurvinnsla á flöskum. Eitt sinn heyrði hún sagt að vatn væri gull í framtíðinni og það hefur heldur betur sannast. Einnig sagðist hún gleypa allt í sig frá Gretu Thunberg. Á síðasta ári ákvað hún að kaupa sér engin ný föt og stóð við það. Hún hefur samt aðeins slakað á í þeim efnum svo hún þurfi ekki að ganga um nakin. Hún ákvað að endurvinna fermingarhandklæðið frá ömmu sinni og úr urðu 21 stykki af handklæðum fyrir gesti. Valgerður sagði frá samvinnuverkefni Vistorku, Akureyrarbæjar og Hjálpræðishersins að hvetja veitingaaðila að gefa mat sem selst ekki og draga þannig úr matarsóun og styðja þá sem þurfa á mataraðstoð að halda. Það er margt hægt að gera til að vera umhverfisvæn og lært margt en það þarf ekki að finna upp hjólið. Það er hægt að hugsa jólin upp á nýtt og Valgerður þakkaði Kappasystrum fyrir nýjungar í jólagjöfum. Í lokin sagði Valgerður: ,,Ég vil verða minni umhverfissóði“ og fór svo með Æðruleysisbænina.

Jólagjafaleikur í anda umhverfisvænna jóla, þar sem jólagjafir voru hugsanlega heimagert, eitthvað sem eyðist og hleðst ekki upp.

Engin önnur mál til umræðu.

Næsti fundur er bókafundur þriðjudaginn 25.janúar í umsjón: Gunnlaug Hartmannsdóttur, Sigríðar Huldu Jónsdóttur, Erlu Gunnarsdóttur og Erlu Guðjónsdóttur.

Í lok fundar færði Hulda Anna konum rósir, Sigrúnu Helgadóttur fyrir bókarkynningu, Valgerðar orð til umhugsunar og Ragnheiðar fyrir húsnæðið.

Formaður slekkur á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og slítur fundi kl.22:05.

Fundargerð ritaði Herdís Anna Friðfinnsdóttir


Síðast uppfært 26. jan 2022