Fundargerð 26. febrúar 2020.
Fimmti fundurinn starfsársins var haldinn í Mixtúru- snillismiðju Reykjavíkurborgar í Safamýri.
Umsjónarkonur fundarins voru Soffía Vagnsdóttir, Anna S. Einarsdóttir, Anna G. Hugadóttir og Erla Gunnarsdóttir.
Ingibjörg formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og síðan fór fram nafnakall og voru þrettán konur mættar.
Hulda Anna tók að sér að lesa upp fundargerð síðasta fundar sem hafði verið bókafundur og haldinn 16. janúar.
Fundarkonur fluttu sig síðan um set úr matsal í alrýmissal Mixtúru til að fræðast meira um Margmiðlunarland Reykjavíkurborgar - Mixtúru en Bjarndís Fjóla Jónsdóttir og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir ætluðu að leiða okkur í allan sannleik um hvað þessi forvitnilega smiðja stæði fyrir. Soffía Vagnsdóttir kynnti staðinn og fyrirkomulag fundarins en ætlunin var að segja frá þeim ævintýrum sem búin eru að gerast á þessum stað í vetur. Að hætti Soffíu var fyrst tekið lagið og Söngur villiandarinnar sunginn af mikilli innlifun. Soffía spilaði undir og minnti okkur á margar skírskotanir í textanum um unga fólkið okkar sem fer erlendis og mikilvægi umhverfismála.
Síðan tóku þær stöllur, Bjarndís og Þorbjörg, við og sögðu okkur frá hvernig Mixtúra vinnur með skapandi krafta, tækni og upplifanir gesta. Smiðjan byrjaði upprunalega í Hvassaleitisskóla en fyrsta opna húsið var haldið í október sl. Safamýraskóli var þarna til húsa áður en hann fluttist yfir í Klettaskóla en húsnæðið þótti upplagt undir smiðjuna og það nýbreytnistarf sem þar fer fram. Mixtúra er nýsköpunarsmiðja menntamála borgarinnar og byggir á nýrri menntastefnu til 2030. Svokallaður Búnaðarbanki inniheldur margskonar nýsköpunartæknibúnað sem ferðast á milli skóla. Um tíu manns mynda samstarfsteymi þessara Menntabúða. Menntabúðirnar byggja á óformlegri jafningafræðslu þar sem allir læra, vinna saman og deila þekkingu. Í Menntabúðunum er hægt að efla tengslanet og mynda allskonar sambönd svo fræðslan er bara bónus, eins og þær Bjarndís og Þorbjörg orðuðu það. Hér fá gestir tækifæri til að fikta og prófa sig áfram í margskonar skapandi leikjum, stafrænum kúnstum og fikta sem mest í tækni. Að fikta er frábært hér.
Margskonar sérsniðin fræðsla á sér stað í NýMið um stafræna tækni og einkunnarorð þeirra eru „Látum draumana rætast“- sem er vísun í menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030. Dæmi um fræðslu eru t.d. Menntabúðir um tækni þ.e. að skipuleggja og halda menntabúðir, Kvikmyndaverkefni þar sem stutt er við handritsgerð og kvikmyndaverkefni s.s í stuttmyndakeppni grunnskólanna sem er mjög vinsæl, Tæknikistur leikskóla þar sem kynnt eru verkfæri og öpp sem eiga erindi í leikskólastarf, Skólalausnir Google s.s. Google Classroom og að lokum óvissu- og vísindaferðir. Þá veita kennsluráðgjafar í upplýsingatækni stjórnendum og starfsfólki í skóla- og frístunda starfi, ráðgjöf og margskonar stuðning. Sú uppbygging þekkingar í upplýsingatækni hlýtur að hafa komið til góða í Covid-19 aðstæðunum.
Mixtúra á í margskonar samstarfi t.d. við rannsóknageirann og önnur skapandi námssamfélög eins og Fablaba. Þau hafa verið virk í spjaldtölvuvæðingu og aðstoða við innleiðingu á Google umhverfinu og eflt þannig upplýsingatækni í skólastarfi. Skólarnir hafa þróast mishratt í þá átt en gott aðgengi að ráðgjöf og umræðum um tæknilausnir flýtir örugglega fyrir þeirri þróun.
Í Mixtúru er lögð áhersla á réttindi nemandans til að kynnast tækni og þjálfast í nýsköpunarhugsun óháð getu eða þekkingu kennarans. Þannig er gætt að jafnræði meðal nemenda óháð því hvar nám er stundað eða hversu mikil áhersla er lögð á upplýsingatækni í skólanum. Um er að ræða að kenna kennurunum og „filtra“ margskonar tækninýjungar. Lögð er áhersla á allt sem viðkemur tækni hvort sem það er búnaður, þjónusta, starfsþróun starfsmanna eða framsæknar nýjungar. Þær stöllur tóku okkur fundarkonur svo sannarlega á flug og töluðu um töfra, óvissu og ævintýr sem þeim finnst einkenna sitt starf og það var augljóst hve mikla ástríðu þær höfðu fyrir öllum þessi spennandi verkefnum sem þær voru að fást við.
Þær sögðu okkur frá og síðar sýndu í rýminu, margskonar vinnustöðvar s.s legó keppnisborð, upplifunarsmiðju, rafrásarverkefni, afrakstur vísindaferða, tónlistarmix og komu inn orðinu „viðbættur veruleiki“ (augmented reality) hjá okkur, svo við bættum verulega við tækniorðaforða okkar. Þá prófuðum við þrívíddargleraugu og aðrar skynvillubrellur og skildum margt, en ekki alltaf allt.
Í snillismiðjunni (makers- space) er áhersla lögð á skapandi tækni og hönnunarhugsun. Þar fer fram allskonar þrívíddarprentun og hægt að skera og hanna margar lausnir. Mikil gerjun er í gangi og lærdómssamfélagið hér og vonandi út um allan bæ, í bullandi þróun.
Kappakonur skoðuðu síðan allt rýmið og verkefnastöðvarnar sem boðið eru upp á og að loknum veitingum var Anna Kristín Sigurðardóttir með orð til umhugsunar og lagði þar út frá grein sinni um „Pisa- hvað svo? Nokkur leiðarstef um innleiðingu menntaumbóta“ sem birt var í Netlu 2019.
Megininntakið voru niðurstöður PISA sem gerðar voru opinberar í byrjun desember 2019. Af því tilefni var búist við víðtækri umræðu í samfélaginu um menntamál og um gæði íslenska menntakerfisins. Grein Önnu var ætlað að vera innlegg í þá umræðu og þá einkum um æskileg viðbrögð eða aðgerðir til að bæta menntun íslenskra barna og ungmenna. Anna dró saman nýlega þekkingu um farsælar menntaumbætur og reyndi að varpa ljósi á hvaða hagnýtu þýðingu hún kann að hafa fyrir umbótastarf hér á landi. Á grunni þeirrar þekkingar setti hún fram sjö leiðarstef sem gagnlegt er að hafa til hliðsjónar við innleiðingu umbótastarfs en þau eru: Nám og kennsla í brennidepli; aðstæðubundnar aðgerðir; samstarfsmiðuð nálgun og samvirkni; fagleg forysta, þekking og hæfni; menntarannsóknir; fjölskyldur og samfélag; og jöfnuður á öllum stigum kerfisins. Til nánari útskýringar er sett fram eitt dæmi um umbætur sem byggja á þessum leiðarstefjum.
Ingibjörg formaður færðu Önnu og skipuleggjendum fundarins rós og slökkti síðan á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og sleit fundi.
Fundarritari: Hulda Anna Arnljótsdóttir
Síðast uppfært 05. jún 2020