Fundargerð 16. janúar 2024

Fundur í Kappadeild 16. janúar 2024 kl. 20-22.15, haldinn á heimili Huldu Önnu í Beykihlíð 4.

Hildur Elín setur fundinn og eru 17 mættar eða 63% mæting eftir útreikningum hennar. Herdís Anna les fundargerð síðasta fundar og síðan taka við bókakynningar. Marsibil kynnir fyrstu bókina Snjór í Paradís eftir Ólaf Jóhann en sú bók var valin með bestu bókakápuna. Um er að ræða 8 smásögur um parasambönd, trega og fortíð sem sækir að. Textinn er agaður en splundrast síðan. Mjög góð sýnisbók um hvað smásaga er. Það er hvörf í öllum sögum þar sem eitthvað dúkkar upp. Marsibil tengdi smásögurnar líka við Snertingu eftir sama höfund sem nú væri verið að gera kvikmynd um.

Linda Hrönn tók síðan við og kynnti BÓL eftir Steinunni Sigurðardóttur. Bókin er sögð „come-back“ en sumir lesendur voru orðnir leiðar á steríótýpu Steinunnar sem eru oftast konur sem eru töffarar og trega horfna ást og elska um leið Frakkland. Bókin er eins og laukur sem skrælist lag eftir lag. Mjög fallegar setningar og margir orðaleikir. Linda Hrönn las úr tveimur stöðum í bókinni og konur kímdu þegar foreldrar sögukonunnar, Líneikar Hjálmsdóttur, brýndu hnífa í öllum tónbrigðum en sagan lýsir þegar Líneik þessi er á leið í unaðsreit fjölskyldunnar, kenndur við BÓL, sem er á leið undir hraun. Hlutirnir þróast á annan hátt en búist er við og upplýsingar koma óvænt í lögum lauksins. T.d. eins og að sögukona hafi verið að glíma við krabbamein og á að „heita læknuð“ og segir „Til að lifa af þarf manni að detta það sjálfum í hug“.

Að lokum tók Valgerður við og sagði frá Völskunni sem hún var lengi að lesa því þar er svo mikill harmur. Nafna hennar Skaptadóttir er aðalpersónan sem er formóðir skáldkonunnar og höfunar, Nönnu Rögnvaldsdóttur. Valgerður okkar hafði mikinn áhuga á aðferðafræðinni sem höfundur notaði til að skrifa um formóður sína, og þá sérstaklega hvernig finna megi gögn sem liggja ekki í netinu. Nafnið valska á við um girndina eða þá lýsingu að sögukonan var kona mikilla fýsna og átti börn með nokkrum mönnum. En hún var líka með mikla útþrá og sterk kona þar sem hún yfirgaf eiginmann sem barði hana, sá son sinn aldrei aftur og varð að ganga þvert yfir Ísland í móðurharðindunum. Móðir hennar, prestfrúin, var ekki ánægð með að dóttirin kom til baka á þennan hátt en Valskan fer síðan í spunanám til Danmerkur og kemst í tæri við lýðskóla á Fjóni og hittir allskonar skrautlegt fólk og heldur áfram að „falla fyrir myndarlegum karlmönnum“ sem talið var aðalmeinið í hennar lífi.

Sigríður Hulda var með orð til umhugsunar og sagði frá kennslu sem hún er með í náminu sem hún er í samstarfi með Guðfinnu Bjarnadóttur (Magnavita). Fyrirtæki hennar SHJ ráðgjöf verður 10 ára í haust og nú vill hún gera eitthvað geggjað á hverju ári. Hún er að fjalla um og pæla í 3ja æviskeiðinu og var nýlega að kenna hvað hefur áhrif á lífsgæði og þá hefur hún verið að skoða lífsaldur versus lífsgæði – og hvernig við getum látið þetta tvennt haldast í hendur. Bilið þarna á milli getur verið langt hjá íslenskum konum. Við viljum lifa ríkulega sem lengst út okkar lífaldur en oft er 10 ára munur á milli lífsspannarinnar og heilsunnar. Þá skiptir miklu máli félagslega netið og að rjúfa einsemd og ógnandi einmanaleika og að finnast maður ekki tilheyra hópnum. Sigríður kynnti atriði sem búa til lífsgæði (well-being) og dreifði þeirri glæru til Kappasystra eftir fund. Eftirsjáin sem við viljum forðast á efri árum eru: 1) Ég lifði ekki drauma mína, 2) Ég deildi ekki ást minni, 3) Ég fyrirgaf ekki, 4) Ég var oft of áhyggjufull, 5) Ég var tortryggin og treysti hvorki mér né öðrum, 6) Ég tók ekki áhættu s.s. varðandi starf eða ferðalög og 7) Ég hugsaði ekki nógu vel um heilsuna, né ræktaði tengsl og jákvæðar venjur.

Kappakonur fóru síðan í smá hópvinnu þar sem tvær og tvær töluðu saman um „Ég ætla ekki að sjá eftir því að……. Orðið til að taka með áfram er „tilhlökkun“ og hvað ætla ég láta mig hlakka til árið 2024?

Undir liðnum önnur mál var rætt um erfiðar aðstæður í Grindavík og hvort Delta-Kappa- Gamma gæti þar orðið að liði. Þá ræddi Ingibjörg hugmynd sína um að fara í Dalina í lok apríl eða byrjun maí og gista eina nótt og fá leiðsögn um svæðið sem hún þekkir eins og lófann á sér. Ákveðið að stefna á það og ræða betur á næsta fundi.
Formaður færði konum rósir bæði sem sáu um kynningarnar og hýstu fundinn, og sleit fundir.
Fundargerð ritaði Hulda Anna.


Síðast uppfært 22. feb 2024