Fundargerð 16. febrúar 2011
Fjórði fundur starfsársins 2010 til 2011 í Kappadeild var haldinn í að Eyktarási 14 þann 16. febrúar 2011.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður deildarinnar setti fundinn og þakkaði Valgerði Magnúsdóttur fyrir að bjóða okkur að halda fundinn á heimili sínu. Síðan kveikti hún á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.
Rætt var um inntöku nýrra félaga og eru félagskonur beðnar að senda formann ábendingar fyrir 1. apríl næstkomandi. Stefnt er að því að taka nýjar konur inn í haust.
Erla Guðjónsdóttir viðhafði nafnakall og voru 13 konur mættar.
Borið var undir félagskonur hvort settar yrðu myndir og nöfn þeirra á vefsíðu samtakanna og var það samþykkt. Fundargerð síðasta fundar lesin og samþykkt.
Veitingar voru fram bornar sem Valgerður, Linda Hrönn, Júlíana og Erla sáu um. Bókakynning hófst meðan við vorum að gæða okkur á kræsingunum sem runnu ljúflega niður.
Gerður Guðný, Júlíana og Hrönn höfðu góðfúslega tekið að sér að vera með bókakynningu en Hrönn veiktist og var því fjarri.
Gerður Guðný hóf sitt mál. Ræddi um höfunda og bækur sem höfðu haft áhrif á sig og nefndi Svövu Jakobsdóttur og Doris Lessing. Talaði um að það væri hrífandi við skáldsögur að þær færðu mann svo gjarnan inn í menningarheim annarra og það væri ánægjuleg og góð leið til að kynnast öðrum heimi að sökkva sér í skáldsögur góðra rithöfunda. Guðný sagði okkur í stórum dráttum frá æfi Dorisar og segir bók hennar um Mörtu Quist vera sláandi lík æfi skáldkonunnar. The golden notebook heillaði Guðnýju,enda varð hún Doris Lessing að óvörum mikið notuð af kvennahreyfingunni.
Guðný nefni Margréti Attwood, kanadískan höfund sem hún komst í návígi við þegar hún bjó þar sjálf. Segir Margréti hrífandi og margt skylt með henni og Svövu Jakobsdóttur.
Júlíana kom með ævisögu Gunnars Eyjólfssonar, sagði okkur frá eigin kynnum af honum og hrifningu þegar hún var telpa. Júlíana greip miður í nokkra kafla og las fyrir okkur. Ræddi og undraðist tíðarandann í uppvexti Gunnars sem krafðist þess að það væri ekki talað um að hann ætti annan fóður en þann sem ól hann upp. Las hún fyrir okkur kafla þar sem segir frá því þegar fósturfaðir hans segir honum formlega frá því að hann eigi annan föður. Einnig las hún fyrir okkur sérstaka og hrífandi frásögn um einstaka tilviljun sem Gunnar upplifði eitt sinn á ferð sinni í Róm.
Minnie kom með dásamlega ljóðabók, Bréf til náttúrunnar eftir Kristínu Jónsdóttur í Hlíð í Lóni. Bókin kom fyrst út árið 2009 og hefur verið endurprentuð síðan og er mjög eftirsótt. Sagði Minniee okkur frá skáldkonunni og las nokkur yndisleg ljóð úr bókinni.
Þegar hér var komið sögu var klukkan orðin rúmlega tíu og þakkaði formaður samveruna slökkti á kertunum og sleit fundi. Við héldum til okkar heima ríkari og glaðari í hjarta.
Erla Guðjónsdóttir, ritari
Síðast uppfært 14. maí 2017