27. febrúar 2014

Fimmti fundur starfsárs Kappadeildar DKG á Íslandi starfsárið 2013 til 2014 haldinn 27. febrúar í Kaffi Reykjavík klukkan 20:00.

Einkunnarorð starfsársins hjá deildinni er:  ,,Konan í brúnni“

Formaður Kappadeildar Sigríður Johnsen setur fundinn klukkan 20:00 og kveikir á kertum sem tákna vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Sigríður býður Kappasystur velkomnar þakkaði fyrir síðasta fund sem var hinn árlegi bókafundur okkar. Hún sagði frá fréttabréfi forseta DKG sem barst með tölvupósti, kynnti landsþingið sem haldið verður á Ísafirði í maí og hvatti Kappasystur til að mæta þar.

Formaður kynnti einnig nýtt kynningarhefti DKG samtakanna og bað fundarkonur að taka eintak með sér að loknum fundi.

Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 15 félagskonur  á fundinum.

Ritari las fundargerð fjórða fundar starfsársins sem var 29. janúar á heimili Hrannar Bergþórsdóttur.

 

Erla Gunnarsdóttir fór með orð til umhugsunar. Erla sem er íþróttakennari og heilsufræðingur byrjaði á því að kynna sig og feril sinn og þær samfélagslegu viðurkenningar sem hún hefur fengið fyrir störf sín í þágu heilbrigðra lífshátta og hreyfingar.

Hún sagði hreyfingu og heilsa vera sér hugleikin viðfangsefni, en heilbrigði og hamingja væru það sem allir sæktust eftir. Hún fór inn á flóru matarkúra sem flæða yfir og gerðu fólk oft óöruggt þar sem það næði oft ekki þeim árangri og markmiðum sem lagt er upp með í kúrunum. Erla talaði um markmið nýrrar menntastefnu þar sem einn grunnþátta námskrár grunnskóla er heilbrigði og velferð og mikið verkefni þar sem lagt er á herðar skólanna í þágu heilbrgiðis. Hún sagði  okkur frá skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (e . World Health Organization, WHO)  þar sem lögð er áhersla á að heilbrigði snúist ekki bara um baráttu við sjúkdóma og heilsubrest heldur líkamlega, andlega og félagslega líðan, mannréttindi, efnahagsmál og stjórnmál almennt  og að rannsóknir hafi sýnt að ekkert hafi neikvæðari áhrif á almennt heilbrigði en ójöfnuður og fátækt.

Niðurstaða Erlu var, eftir að hafa einnig lýst fyrir okkur nokkrum þáttum sem rannsóknir hafa sýnt um heilbrigða lífshætti: ,,Engar öfgar ekki flókið heldur gamla góða lýsið og hreyfingin.“

Hún sagði einnig: ,,Við vitum alveg hvað er hollur matur og hvað er gott fyrir okkur. Það eru ekki endilega flókin vísindi. Við vitum að það er æskilegt að borða meira grænmeti, minna af gosi og skyndibita, borða hreinan mat, borða reglulega, borða morgunmat og hreyfa okkur.“

Eftir vel valin orð Erlu um heilbrigði og holla lífsætti okkur til umhugsunar, voru veitingar bornar á borð og Margrét Kristmannsdóttir framkvæmdastjóri Pfaff  tók til máls.

Margrét byrjaði á því að þakka fyrir að vera boðin á fund Kappadeildar. Hún stjórnar fjölskyldufyrirtækinu Pfaff sem afi hennar stofnaði og segir frá því að hún hafi ekki ætlað sér í viðskipti þegar hún var að huga að framtíðaráformum sínum, en fjölskyldan var öll í þeim geira. Hún er fædd 1962 og vann við fiskvinnslu, m.a. í Vestmannaeyjum,  á sumrin frá því að hún var 14 til 21 árs. Hún varð síðar ritari framkvæmdastjóra Coca cola og fer í viðskiptafræðinám. Við 29 ára aldur ákveður hún að fara að vinna við fjölskyldufyrirtækið og verður svo framkvæmdastjóri þess árið 1999. Hún gerðist stax virk í Félagi kvenna í atvinnulífinu og hefur verið áhugasöm um að efla þátttöku kvenna í stjórnum á vegum atvinnuveganna sem hún segir vera að ná ágætu jafnvægi nú. Hún hefur verið formaður Samtaka um verslun og þjónustu og hefur einnig getað beitt áhrifum sínum þar. Tengslanet hennar, við karla jafnt sem konur, sé samofið og hún hafi alltaf haft það sem verklag að ná sér í ráð og upplýsingar frá mörgum hliðum og eftir ólíkum leiðum.  Hún er í stjórn Samtaka atvinnulífsins sem eru regnhlífarsamtök margra atvinnuvega og þar hafi hún getað beitt sér og haft áhrif. Hún ræðir um hvernig SA hefur viljað fara nýjar leiðir í verðmætasköpun og í átt að aukinni framleiðni, breyttu kerfi sem auki kaupmátt  og bæti lífskjör, en stjórnmálamenn taki ekki nægilega undir þeirra ábendingar. Framleiðni í verslun og þjónustu sé 8% lægri en OECD löndum og eigi það sér margar orsakir sem menn skorti vilja til að horfast í augu við, s.s.  hvað varðar fjárfestingu í verslunarhúsnæði og opnunartíma verslana. Það vanti samvinnu milli sveitarfélaga um uppbyggingu þannig að jafnvægi skapist.

Síðast segir hún okkur frá eigin fyrirtæki sem hún reki skuldlaust. Hún er ánægð með þann árangur sem náðst hefur hvað varðar þátttöku kvenna í stjórnum atvinnuveganna þar séu nú konur 54% og þyki það orðið sjálfsagt að hafa sem jafnast hlutfall beggja kynja.

Í lokin voru nokkrar fyrirspurnir þar sem tengslanet, breytingar og vangaveltur um hvar við verðum stödd eftir fimm ár, bar á góma.

 

Sigríður formaður þakkað þeim stöllum, Erlu og Margréti, hjartanlega fyrir innlegg þeirra og talaði um að það sé svo gott að vita af þeim fjölmörgu konum, eins og þeim sem hafa vilja, kjark og þor til að breyta heiminum til betri vegar.

Þær fengu fallegar rósir í þakklætisskyni, slökkt var á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og fundi slitið klukkan 22:00

Erla Guðjónsdóttir, ritari.

 

 

 

 

 


Síðast uppfært 01. jan 1970