18. janúar 2016
Þriðji fundur Kappadeildar starfsárið 2015 2016 var haldinn þann 18. janúar 2016 á glæsilegu en vandfundnu heimili Önnu Hugadóttur að Holtsbúð 89 í Garðabæ
Varaformaður Guðrún Edda setti fund í fjarveru formanns, nokkru síðar en til stóð vegna villugirni nokkura fundakvena og bauð konur velkomnar. Hún kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Þá hafði hún nafnakall og voru 18 konur mættar.
Orð til umhugsunar flutti Sigríður Þrúður sem fjallaði um lestur. Ræddi m.a. um stóru upplestrarkeppnina þar sem lesið var úr bókinni Nokkur ljóð eftir Anton Helga Jónsson. Hún las ljóðið um eyrun á Blesa. Þá fjallaði hún um spurninguna hvernig maður verði rithöfundur. Fyrst og fremst með því að vera góður lesandi, sá sem upplifir merkingu orðanna og þess sem liggur á milli þeirra getur orðið rithöfundu. Góð bók talar til manns. Hún endaði mál sitt á því að lesa tvö af sínum uppáhaldsljóðunum í bókinni. Orð Sigríðar Þrúðar voru góður inngangur fyrir bókakynninguna sem var næst á dagskrá.
Bókakynningar
Ingibjörg Kristleifsdóttir reið á vaðið og ræddi um bókina Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur. Bókin fjallar um unga móður sem vaknaði upp af flogakasti og finnur ekki barnið sitt. Hún þurfti fyrst og fremst að finna sjálfa sig eftir þessa reynslu. Þær sem höfðu lesið bókina voru einróma um ágæti hennar og mæltu eindregið með lestri hennar. Ingibjörg ræddi líka um bók Jóns Kalmans Eitthvað á stærð við alheiminn, en henni fannst hann pota óþægilega í lesandann með umfjöllun um móðurtilfinninguna og missinn. Bókin fjallar um Ara sem er að koma heim eftir langa fjarveru og hans fjölskyldu. Viðstaddar höfðu margar lesið bókina og ræddu hana af ákafa.
Nú var gert hlé á fundarhöldum á meðan konur nutu dýrindis veitinga í boði Ingibjargar Kristleifsdóttur og Erlu Gunnarsdóttur.
Þá kynnti Marsibil bókina Stúlka með höfuð eftir Þórunni Jörlu Valdemarsdóttur. Bókin er byggð á hennar eigin sögu, sem er bæði heillandi og skemmtileg. Marsibil las stutta kafla og stiklaði á stóru í söguþræði bókarinnar. Konur hrifust mjög að orðsnilld höfundar, t.d. hvernig hún lýsti því hvernig konur á Hvammstanga gláptu hana eins og naut á viðrinni. Marsibil hafði meðferðis aðrar bækur eftir Þórunni og tvær af bókum Eggerts, manns hennar, sem lést á gamlársdag 2014. Lífið heldur áfram og ég tek þátt í því sagði Þórunn að lokum eftir að hafa sagt frá fyrirhugaðri ferð til Afríku til að dansa.
Þá var komið að Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem sagði frá menningarstarfi sem á sér stað við Breiðafjörð og tímaritinu Breiðfirðingur sem kemur út árlega og inniheldur margvíslegan fróðleik um fólk, dýr og náttúru við fjörðinn. Ingibjörg á alla árganga frá upphafi og nefndi til sögunnar ýmsa merka menn og las bráðsmellna frásögn eftir Steinólf í Fagradal um bílnúmer og þann flokk manna sem þykir eftirsóknarvert að vera með lágt númer á bílnum sínum. Varð af þeim upplestri hin mesta skemmtan.
Þá var komið að lokum og þakkaði varaformaður Önnu Guðrúnu fyrir heimboðið og minnti á næsta fund miðvikudaginn 24. febrúar þar sem við fáum heimsókn Delta deildar af Vesturlandi. Hún þakkaði þeim sem höfðu verið með framlag á fundinum, bæði andlegt og líkamlegt fóður, og viðstöddum fyrir mætinguna. Hún slökkti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og sleit fundi kl 10.10.
Anna Kristín Sigurðardóttir skráði
Síðast uppfært 01. jan 1970