Fundargerð 16. fundar Kappadeildar, 26. nóvember 2009

Haldinn í boði Sigríðar Ó. Gunnlaugsdóttur
Fundarstjóri: Sigríður Hulda Jónsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
1. Fundur settur og nafnakall viðhaft

Marsíbil setti fund. 20 félagar mættir.
Boðið upp á léttar veitingar í upphafi fundar
Sigríður Hulda tók við stjórn fundarins og kynnti dagskrá kvöldsins.

2. Fundargerð síðasta fundar lögð fyrir fundinn

Fundargerðin borin upp til samþykktar. Fundargerð samþykkt eftir eina athugasemd.
Hertha, lærimeistarinn okkar fékk orðið og þakkaði fyrir boðið á fundinn. Hún hrósaði okkur fyrir öflugt starf og minnti á að við getum borið nælurnar hvenær sem er, ekki eingöngu á fundum. Hún hvatti okkur áfram og til að taka þátt í starfi landsamtakanna. Hún óskaði deildinni alls góðs í framtíðinni. 

3. Orð til umhugsunar: Linda Hrönn Helgadóttir

Linda Hrönn sagði aðventuna vera töfrandi tíma.  Birtan, tónlistin og jólaljósin gefa aðventunni mikla sérstöðu í hennar huga. Þetta er tími fjölskyldunnar og þakklætis. Hún minntist afa síns og ömmu en hún ólst upp í saman húsi og þau til 9 ára aldurs. Hún minntist alls þess sem afi hennar kenndi henni í sambandi við listsköpun og um ævintýraheima. Það var ekki fyrr en hún hlustaði á fyrirlestur hjá Þorvaldi Þorsteinssyni í Kennaraháskólanum að hún gerði sér ljóst hversu mikilvægt það var sem afi hennar kenndi henni. Þorvaldur talaði um þá lykla sem við ættum og hvernig við getum notað þá til að miðla því sem við kunnum til annarra. Þarna uppgötvaði hún að afi hennar hefði gefið henni lykil sem opnaði dyr lista og menningar fyrir henni.  Hún vonar að hún geti miðlað sínum lyklum og notað þá til að opna dyr fyrir aðra.  Hún mælti með því að við gæfum lykla í jólagjöf.  Að lokum fékk hún Brynhildi til að leika undir jólalög með okkur og sungin voru nokkur jólalög.  Er ekki loku fyrir það skotið að þarna hafið orðið til kór Kappasystra.

4. Gómsætt meðlæti í boði Sigríðar gestgjafa, Elínar og Kristrúnar

5. Leynigestur

Sigríður Hulda lét konur geta hver leynigesturinn væri og upphófust miklar getgátur sem að lokum leiddu til Seinunnar Sigurðardóttur rithöfundar.
Steinunn sagði okkur aðeins frá lífi sínu en hún byrjaði að skrifa 13 ára og gaf út sína fyrst bók þegar hún var 19 ára.  Hana dreymdi aldrei um að verða rithöfundur, ætlaði sér að verða leikari.  Hún tók síðan sálfræði í háskóla. Það eru  40 ár núna síðan fyrsta bók hennar kom út.
Bækur hennar fóru að koma út erlendis í kring um 1990. Sagði hún það tilviljun að hún  kynntist kvenútgefanda sem tók hana upp á sína arma.  Þá hafi kvenútgefendur á Norðurlöndum einnig tekið hana upp á arma sína.  Tímaþjófurinn gekk vel í Frakklandi og braut ísinn fyrir aðra íslenska höfunda þar.
Hún sagði okkur aðeins frá tilurð bókarinnar  „Góði elskhuginn“ .  Hún las síðan upp úr bókinni sem fjallar um Karl Ástuson og sambandi hans við konur ekki síst móður sína.
Hún ræddi síðan við okkur um bókina og svaraði fyrirspurnum bæði um bókina og einkalíf sitt.
Hún er mjög heilluð af sambandi mæðra og sona og sköpuðust heilmiklar umræður um það og  hugtökin „að mæðra“ og „mæðrasynir“. 
Fundi lauk kl. 22:20


Síðast uppfært 14. maí 2017