15. fundur Kappadeildar, 20. október 2009.
Fundargerð 15. fundar Kappadeildar, 20. október 2009.
Haldinn í boði Hrannar Bergþórsdóttur og Sigríðar Ó. Gunnlaugsdóttur í húsnæði Setbergsskóla í Hafnarfirði
Fundarstjóri: Marsíbil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
1. Fundur settur og nafnakall viðhaft
Marsíbil setti fund og kynnti sérstakan gest fundarins, Ingibjörgu Jónasdóttur landsforseta. 14 félagar mættir.
2. Fundargerð síðasta fundar lögð fyrir fundinn
Fundargerðin borin upp til samþykktar. Fundargerð samþykkt eftir tvær athugasemdir.
3. Orð til umhugsunar: Valgerður Magnúsdóttir, sálfræðingur
Valgerður hafði verið beðin um að fjalla um búhyggindi. Í dag er hún mikil lúxuskona og á hún þetta líf sitt að þakka fjölskyldu sinni sem var mikið búhyggindafólk. Móðurafi og amma héldu stórt heimili í sveit og þurfti oft mikla fyrirhyggju til að eiga nóg að bíta og brenna. Auk þess að búa sótti afi sjóinn. Föðurafi og amma háðu erfiða baráttu á mölinni við atvinnuleysi og kreppu. Foreldra hennar voru ung og blönk þegar þau eignuðust hana en þau lögðu hart að sér til þess að koma undir sig fótunum. Þau þurftu að beita miklum búhyggindum til að eiga til hnífs og skeiðar. Það var saumað, bakað, búið til slátur og ræktað grænmeti. Valgerður rifjaði upp þá stóru stund þegar faðir hennar kom heim með nýtt hjól handa henni þegar hún var sjö ára gömul. Hún er ævinlega þakklát foreldrum sínum fyrir að hafa metnað og næg búhyggindi til að koma sér fyrir á góðum stað á Akureyri þar sem fjölskyldunni leið vel. „Margt smátt gerir eitt stórt“ var eitt af gildunum sem var í hávegum haft heima hjá henni. Hún lærði að bjarga sér og það kom sér vel á námsárum hennar. Hún var orðin þrítug þegar hún settist á skólabekk, kvenfrelsið hélt innreið sína og hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður kom í stað búhyggindanna en sú hagfræði gengur út að eyða ekki meiru en aflað er.
Í dag eru þau hjón í ágætum málum vegna þessarar hagfræði.
Gömlu gildin eru í hávegum höfð hjá henni. Fjölskyldan er í forgangi og getur hún hagað vinnu sinni nánast eins og henni hentar. Henni finnst best þegar hún getur gert eitthvað með fjölskyldu og barnabörnum sem kostar ekki neitt. Hún nýtur þess að hitta vini sína og spá og spekúlera í tilgangi lífsins og einbeitir sér að því að halda ró sinni sama á hverju gengur.
Og Valgerður endaði pistil sinn með því að láta okkur loka augunum og anda inn og út í takt við hafið.
4. Þróunarverkefnið „Læsi og námsvitund“ í Setbergsskóla. Hrönn og Sigríður Ólöf
Hrönn og Sigríður byrjuð á því að kynna skólann lítillega. Skólinn var stofnaður 1989. Hann var byggður fyrir 400 nemendur en á tímabili voru þeir 800. Nú eru þeir um 500. Virðing, vinátta og vinsemd er leiðarljós skólans. Setbergsskóli er forystuskóli í læsi og námsvitund. Unnið er með verkefnið í öllum árgöngum, á öllum skólastigum og í öllum greinum. Þau eru búin með fjögur ár af fimm sem þróunarverkefnið á að taka. Í samvinnu við Háskólann á Akureyri bættu þau öðru þróunarverkefni við sem heitir „Orð af orði“ sem felur í sér vinnu með hugtök.
5. Kaffi og gómsætt meðlæti frá Hrönn, Júlíu og Lindu Hrönn
6. Búhyggindi og starfsemi Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, skólastjóri.
Margrét sagði okkur sögu hússins sem byggt var 1921 en samþykkja þurfti sérstök lög á alþingi til að mega stofna hússtjórnaskóla í Reykjavík. Bandalag kvenna í Reykjavík safnaði fyrir skólanum og keyptu húsnæðið á Sólvallagötunni. Borgin lét gera við húsið og lagði strax mikla upphæð í verkefnið og ríkið kom svo inn í verkið þegar búið var að samþykkja lögin á alþingi. Skólinn tók til starfa árið 1942. Hulda Stefánsdóttir var fyrsti skólastjóri skólans. Heimavistin tók 24 nemendur og þurftu nemendur að hlýða ströngum aga á vistinni. Fram undir 1965 fengu stelpurnar ekki að fara út úr húsi, fengu varla að fara heim til sín í heimsókn. 1997 dró Reykjavíkurborg sig út úr rekstrinum og ríkið tók alfarið við. Þá hafði námið breyst nokkuð mikið og þróast yfir í námskeiðahald. 1988 átti að leggja skólann niður og flytja allt starf til Menntaskólans í Kópavogi. Það gekk ekki eftir vegna samnings við Bandalag kvenna og þá var stofnaður nýr skóli með þessu nafni sem rekinn er sem sjálfseignarstofnun.
Á hverri önn eru teknir inn 24 nemendur og pláss er fyrir 15 á heimavist. Skólastjórinn býr ekki lengur í húsinu eins og forðum. Allir nemendur eru með lykil og frjálsræðið er mun meira en í gamla daga. Mest eru þetta stelpur um tvítugt og eldri. Þá stundar hópur frá Kvennasmiðju velferðarsviðs Reykjavíkurborgar nám hjá þeim hluta úr vetri.
Öll pláss eru alltaf fullnýtt í skólanum og umsóknir eru byrjaðar að berast fyrir næsta haust. Önnin kostar 330 þúsund og allt er innifalið í því nema heimavistargjald. Í umræðum eftir fyrirlestur Margrétar kom fram að þetta er 12. árið hennar sem skólastjóri. Einnig kom fram að það væru bara tveir hússtjórnarskólar eftir á landinu, á Hallormstað og í Reykjavík. Þá kom fram að til þess að verða hússtjórnarskólakennari þarf að fara erlendis í framhaldsnám, til dæmis til Danmerkur. Margrét sagði að munur væri á haustönn og vorönn, farið er m.a. í berjamó og tekið slátur á haustönn en á vorin er m.a. lagst í sultugerð.
Opið hús verður í skólanum þann 5. desember og erum við allar velkomnar.
7. Ingibjörg Jónasdóttir forseti landsambandsins.
Ingibjörg sagði okkur að einkunnarorð félagsins árin 2008-2010 væru „From mission to action“ , eða „Látum hlutina gerast“. Hún hvatti okkur til að nota þessi orð sem hvatningu til að finna góða hluti sem eru að gerast í kringum okkur. Hægt er að veita styrk og hvatningu með því að veita hlutunum athygli og vekja umræðu. Hún sagði okkur frá því að fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði yrði starfræktur gönguhópur Delta Kappa Gamma á höfuðborgarsvæðinu. Margrét frá Gammadeild ætlar að stjórna honum. Mæta skal við Perluna klukkan hálf sex.
Í vetur stendur til að taka upplýsingamálin í gegn og stofnuð verður ný nefnd um vefinn. Reyna á að halda fjarfundi.
Stefnt er að því að félagið eignist konur í alþjóðanefndum og fleiri konur í stjórn. Núna eigum við eina konu í stjórn en það er Sigrún Klara Hannesdóttir sem er annar varaforseti alþjóðasambandsins.
Kappadeildin er ung deild. Hún hvatti okkur til að vera öflugar í starfi innan landsamtakanna og að safna reynslu.
Landsamtökin eru að undirbúa leiðtoganámskeið og ætla að sækja um styrk frá alþjóðasambandinu til þess. Þó styrkurinn fáist ekki er samt ætlunin að halda það. Það er búið að fá vilyrði frá bandarískri konu um að koma og vera með námskeiðið. Að lokum sagi Ingibjörg að systraþelið dragi fram það besta í okkur og það sem fáum út úr þátttökunni væri í samræmi við það sem við leggjum inn.
Eftir að fundi var slitið kl. 22:05 fóru nokkrir félagar í skoðunarferð um skólann í boði gestgjafa.
Síðast uppfært 14. maí 2017