20. nóvember 2008
Kappadeildarfundur 20. nóvember 2008. Haldinn hjá Sigríði Johnsen í Mosfellsbæ
Fundarstjóri: Sigríður Hulda Jónsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
1. Fundur settur og nafnakall viðhaft.
19 félagar mættir
2. Fundagerð síðasta fundar lögð fyrir fundinn.
Sólborg las upp og lagði fyrir fundargerð síðasta fundar. Fundargerðin var samþykkt einróma.
3. Orð til umhugsunar. Guðrún Edda Bentsdóttir.
Guðrún sagði okkur meðal annars frá því þegar hún, aðeins tvítug að aldri, fór til náms í Bandaríkjunum fyrir tilstilli styrks frá systursamtökum Delta Kappa Gamma, Alfa Kappa Gamma. Hún sagði okkur frá samskiptum sínum við tilsjónarkonur sínar og kynni sína af fjölskyldum þeirra. Hún sagði okkur frá jólahaldi með fjölskyldu einnar tilsjónarkonunnar þegar hún í fyrsta skipti dvaldi fjarri fjölskyldu sinni á Íslandi. Umhyggjan frá fjölskyldu tilsjónarkonunnar gerði henni auðveldara að upplifa ánægjuleg jól fjarri fjölskyldu sinni.
Enn þann dag í dag er hún að nota uppskrift af „Snjóbolta“, sem eru jólakökur sem fjölkyldan í Ameríku bakaði fyrir hver jól. Hún sagði okkur líka frá upplifun sinni af jólaútsölunum í Bandaríkjunum sem hefjast nánast á aðfangadag. Eftir eitt ár færði hún sig til New York og fékk nýjar tilsjónarkonur sem umvöfðu hana með góðvild og hlýju. Á þessum tíma lærði hún að meta það hversu mikils virði er að hafa gott fólk og ekki síst sína nánustu hjá sér á jólunum. Hún minnti okkur á það hversu mikilvægt það er að hlúa að sínum nánustu og njóta samvista við þá. Hún hvatti okkur til að huga að því hvað hægt er að gera með fjölskyldum okkar yfir jólahátíðina á þess að það kosti neitt. Hún minnit okkur á að hægt er að gefa hluti sem kosta ekki mikið eða jafnvel ekkert. Gjafir sem maður býr til sjálfur eru oft bestu gjafirnar.
Guðrún kom inn á mikilvægi hefða, að gera aftur sömu hlutina ár eftir ár með fjölskyldunni er mikils virði. Mikilvægt er að allir hjálpast að við að láta hlutina ganga og við megum ekki gleyma okkur í þrifum eða öðru amstri fyrir jólin þannig að við getum ekki notið þeirra, með bólgnar hendur af sápuþvotti. Maður er manns gaman og þannig á að njóta jólanna, hafa gaman saman.
4. Kaffi og léttar veitingar.
5. Leynigestur
Leynigesturinn birtist í górillubúning og upphófust getgátur og spurningar sem gesturinn svaraði með jái eða neii. Að lokum komumst við að því að það var engin önnur en Diddú sem leyndist inni í górillunni.
Diddú sagði okkur frá ævintýri sínu með rússnesku hljómsveitinni Tarem sem hún komst í kynni við fyrir þremur árum. Hún hafði ætlað sér að hætta að syngja þegar hún yrði fimmtug en með kynnum sínum af „drengjunum“ í Tarem hófst nýr kafli í hennar lífi og hún syngur með þeim út um allan heim. Hún er meira að segja búin að syngja í Kreml sem fáir hafa aðgang að. Lýsti hún því hversu agaðir og fagmannlegir meðlimir Tarem eru. Sagði hún að Rússar væru heillaðir af íslenskum sönglögum. Þau gáfu nýverið út geisladisk með íslenskum og erlendum lögum. Hún stefnir að því að halda áfram að syngja með þeim.
Diddú rakti síðan ævi sína og hvernig hún leiddist út í söngnám. Hún sagði að persónuleiki og skapgerð söngvara skipti miklu máli, en hún telur sig hafa erft gott geðslag frá móður sinni. Hún sagði okkur frá ýmsum eftirminnilegum atvikum í lífi sínu eins og að fá tækifæri til að syngja með góðu fólki sem gefur mikið af sér. Nefndi hún t.d. Jose Carreas. Ekkert er eins örvandi eins og að syngja með góðu fólki..
Að lokum seldi hún okkur ógrynni af geisladiskumog kláruðust birgðirnar. Teknar voru niður pantanir sem hún ætlaði að koma til okkar síðar.
Fundi var slitið 22:45
/SAP
Síðast uppfært 14. maí 2017