29. apríl 2008

Kappadeildarfundur 29. apríl 2008. Haldinn að Hverafold 14, Reykjavík

Gestgjafi: Erla Gunnarsdóttir
Fundarstjóri: Marsibil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir

Gönguferð hófst kl. 19:00
Nokkrar félagskonur mættu fyrir kl. 19:00 og fóru í gönguferð um nágrennið undir leiðsögn Erlu.

Fundur hófst kl. 20:00.

1. Setning fundar

Marsibil setti fund, kveikti á kertum og bauð félagskonur velkomnar.

2. Nafnakall

Alls voru mættar 19 af 28 félögum.

3.  Markmið Delta Kappa Gamma.
Sigríður Hulda fór yfir markmið samtakanna.

4. Orð til umhugsunar.  Hrefna Ólafsdóttir félagsráðgjafi.

Hrefna velti fyrir sér hvaða sögu hver og ein kona í félagsskapnum hefði að baki sér.  Hvað varð til þess að við sem erum í þessum félagskap urðum fræðarar?  Hvað varð til þess að við fetuðum þessa braut, hvar varð neisti okkar til?   Hún rifjaði upp sína sögu, hvað varð til þess að kveikja neistann hjá henni, hvað það var sem hvatti hana til að ganga menntaveginn.  Amma hennar og móðir hvöttu hana báðar til að ganga menntaveginn. Neistinn getur komið í gegnum samspil fólks, frá því fólki sem maður starfar með.   Kennarar sem hafa neista og sýna nemendum sínum áhuga geta kveikt neista sem drífur þá áfram.  Hún tók dæmi um drengjabekk sem hún kenndi þegar hún var rúmlega tvítug.  Með því að hafa trú á strákunum kveikti hún neistann hjá þeim og þeir náðu betri árangri en bæði þeir og aðrir höfðu búist við.
En hvað er þessi neisti? Fyrir henni er það kærleikur og áhugi gagnvart fólki.  Það er ekki hægt að sinna fræðara- og uppeldisstörfum án þess að sýna hvoru tveggja.

 5.  Veitingar.

Erla bauð m.a. upp á pastarétt og hvítvín

6. Fundargerðir

Sólborg las upp fundargerðir síðustu tveggja funda og voru þær samþykktar eftir eina athugasemd.

7.  Aðalfundur
a. Kosning fundarstjóra.  Stungið var upp á Sigríði Ólöfu Gunnlaugsdóttur sem fundarstjóra og var það samþykkt einróma.
b. Skýrsla formanns.  Marsíbil Ólafsdóttir formaður sagði frá stofnun deildarinnar og fór yfir vetrarstarfið.
c. Reikningar lagðir fram.  M. Elín Guðmundsdóttir lagði fram reikninga og svaraði fyrirspurnum.  Hún lagði til að árgjaldið yrði það sama eða kr. 6500 fyrir næsta ár.

Skýrsla formanns, reikningar félagsins og upphæð árgjaldsins var samþykkt einróma.

d. Kosning stjórnar.  Erla Guðjónsdóttir, önnur tveggja fulltrúa í uppstillingarnefnd, stakk upp á að núverandi stjórn sæti áfram til tveggja ára enda höfðu allir meðlimir stjórnarinnar gefið kost á sér áfram.
Marsíbil Ólafsdóttir var einróma kjörin formaður.
Meðstjórnendur voru einróma kjörnar; Sigríður Hulda Jónsdóttir, Anna S. Harðardóttir og Sólborg Alda Pétursdóttir.  Stjórnin tilnefndi M. Elínu Guðmundsdóttur sem gjaldkera.
e. Önnur mál.
Hertha bað um orðið og sagði frá aðdraganda stofnunar deildarinnar og lýsti yfir ánægju sinni yfir að hafa fengið að vera mentor okkar fyrsta árið.  Hún sagði eðlilegt að allar konur finndu sig ekki strax í félagsskapnum.  Hún ræddi um þann mikla mannauð sem er innan deildarinnar og að konum veitti ekki af því að mynda gott tengslanet og innan Delta Kappa Gamma væri gott tengslanet.  Hún hvatti okkur til að mæta á þingin, kynnast fleiri konum og virkja tengslanetið.  Eins gætum við haft samband við Delta Kappa Gamma konur erlendis.  Hún hrósaði Marsíbil fyrir formennskuna og færði henni litla gullrós. Þetta var síðasti fundur hennar með okkur, hún þakkaði fyrir sig og kvaddi.
Fyrir hönd deildarinnar færði stjórnin  henni gjöf og þakkaði henni fyrir samfylgdina og góða ráðgjöf.
f. Aðalfundi slitið

8.  Gildi hreyfingar fyrir fólk á öllum aldri

Gestgjafi okkar hún Erla Gunnarsdóttir íþróttakennari sagði okkur frá bakgrunni sínum.  Hún er búin að búa í Grafarvoginum í 20 ár og hefur kennt íþróttir í 24 ár, þar af 17 ár í Hamraskóla.  Fyrir 16 árum stofnaði hún hlaupahóp í Grafarvoginum.  Hún sagði okkur frá rannsókn sem hún gerði í tengslum við framhaldsnám sitt „um tengsl hreyfingar við námsgetu í 4. bekk“.  Hún talaði einnig um lifnaðarhætti fólks í nútíma þjóðfélagi, kyrrsetu og hreyfingarleysi.  Hún sagði að líkaminn þarfnaðist hreyfingar og góðs mataræðis til að viðhalda góðri heilsu.  Hún lýsti því hvað gerist í líkama okkar ef við hreyfum okkur ekki.
Hún lýsti því hvernig lágmarkshreyfing, t.d. hálftíma gönguferð þrisvar í viku í 12 vikur, getur lækkað blóðþrýsting og haft áhrif á hlutfall mittis og mjaðma.  Hún sagði okkur hvað fólk þyrfti að hafa í huga þegar það byrjar að hreyfa sig.  Byrja hægt og rólega.  Velja tegund hreyfingar sem okkur hugnast og á við okkur. Gera hreyfinguna að eðlilegum hluta daglegs lífs. Það er ekki verra að vera í góðum félagskap.  Við hreyfingu hægist á öldrun líkamans og við fáum jákvæðari sjálfsmynd. Góð hreyfing og holt mataræði er besta leiðin til að léttast.  Hreyfing er lífsbót fyrir alla. Erla fór að lokum með kínverskt máltæki sem rammaði vel inn inntakið í pistli hennar.
Hugsið hugsun, uppskerið verknað,
Endurtakið verknaðinn og venja skapast
Fylgið venjunni og öðlist lyndiseinkunn.

Þegar Erla hafði lokið málið sínu var notalegt spjall í lokinn um gildi félagsskaparins okkar.

Fundi lauk kl. 22:30


Síðast uppfært 14. maí 2017