Fundargerð 27. september 2018

Fyrsti fundur starfsársins var haldinn í Breiðfirðingabúð. Ingibjörg S. Guðmundsdóttir nýr formaður kappadeildar setti fundinn með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Hún bauð Dagnýju Huldu Broddadóttur og Soffíu Vagnsdóttur velkomnar en þær voru gestir fundarins. Ingibjörg tók síðan nafnakall og voru ellefu konur mættar. Ingibjörg sagði frá því að tvær konur eru hættar í deildinni. Ingibjörg Kristleifsdóttir er flutt í Reykholt með fjölskyldu sinni og Júlíana Hilmisdóttir sem býr fyrir austan fjall hefur tekið þá ákvörðun að hætta. Lesnar voru tvær síðustu fundargerðir frá 16. apríl og 17. maí og voru þær samþykktar.

Ingibjörg kynnti síðan vefsíðu Delta-Kappa-Gamma og hvatti fundarkonur til að kynna sér vel það efni sem þar er að finna. Inn á vefsíðunni er aðgangur að síðu Kappadeildar. Sólborg Alda sér um að setja þar inn efni frá deildinni. Þar er að finna starfsáætlun fyrir veturinn, myndir, fundargerðir og félagatal. Kappadeild hefur fengið vottun á síðuna en uppfæra þarf félagatalið.  Allar félagskonur eru hvattar til að senda Sólborgu Öldu mynd af sér til birtingar í félagatali á solborgalda@gmail.com eða solborg@smennt.is.  Ingibjörg sagði mikilvægt að hafa síðuna lifandi og með nýjustu upplýsingum á hverjum tíma. Þá var rætt um að auglýsa fundi inn á fésbókarsíðu Kappadeildar. DKG Ísland er einnig með fésbókarsíðu sem gott er að fylgjast með.

Landssambandsþing verður haldið í Reykjavík laugardaginn 4. maí en Kappa og Alfa deildir sjá um undirbúning. Evrópuráðstefna samtakanna verður haldin á Íslandi dagana 25.- 27. júlí í sumar. Guðrún Edda hvatti konur til að sækja um styrk hjá stéttarfélögum sínum til að sækja Evrópuráðstefnuna.

Að þessu loknu fór Ingibjörg yfir starfsáætlun 2018-2019. Þema vetrarins er Konur í fararbroddi. Áhersla DKG á Íslandi er inn á við og að láta starfið blómstra.

Hulda Anna flutti kappakonum orð til umhugsunar. Hún fjallaði um þá lífsreynslu sína að greinast með krabbamein og hvernig hún hefði að lokinni meðferð staðið frammi fyrir ákveðinni endursköpun, bæði líkamlega og andlega. Hún fór meðal annars að velta fyrir sér „daðri“ sínu og vinkvenna sinna við listir um ævina og hvernig þær sinna skapandi þörf sinni með margvíslegum hætti. Sú spuring leitaði á hana hvers vegna hún og vinkonur hennar höfðu ekki hugrekki til að velja skapandi eða listrænar brautir sem starfsvettang í lífinu?  Hulda Anna hefur verið að skoða hvernig þessum málum er háttað í framhaldsskólum og hvað námskrár segja um listir og sköpun. Niðurstaða hennar er að nauðsynlegt sé að virkja listir og sköpun þvert á allt skólastarf sem tæki til jöfnunar, virkja sköpunarkraft nemenda og ná þannig til þeirra nemenda sem hafa sig lítt í frammi.

Hulda Anna benti fundarkonum á þátt frá BBC um skóla í Bradford, en þar stórbatnaði námsárangur nemenda með áherslubreytingum á námskrá þar sem lögð var áhersla á tónlistariðkun.

Ingibjörg færði Huldu Önnu rós og þakkir. Að því loknu var fundi slitið kl. 19.40 með því að slökkva á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Fundarkonur héldu síðan á Gló og áttu þar góða stund yfir dásamlegum mat.

Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir

 


Síðast uppfært 26. okt 2018