Fundargerð 24. október 2011

Annar fundur starfsárs Kappadeildar DKG á Íslandi haldinn 24. október 2011 í Kaffitári fyrirtæki Aðalheiðar Héðinsdóttur, Reykjanesbæ klukkan 20:00.

Einkunnarorð vetrarins eru: Látum verkin tala, látum verkin lifa – frumkvöðlar.

Formaður deildarinnar Sigríður Hulda Jónsdóttir, setur fundinn klukkan 20:00og kveikir á kertum okkar sem tákna vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Sigríður býður félagskonur velkomnar og kynnir gestgjafa kvöldsins Aðalheiði Héðinsdóttur, frumkvöðul og stofnanda fyrirtækisins Kaffitárs. 

Þarna vorum við komnar til að njóta samfélagsins hver við aðra og hitta konu sem svo sannarlega hefur skarað fram úr í íslensku samfélagi með dugnaði og krafti – látið verkin tala og lifa.

Nafnakall annaðist Sigríður Johnsen og voru 18 félagskonur mættar.

Fundarritari las fundargerð 1. fundar starfsársins þann 28. september sl.

Gunnlaug Hartmannsdóttir sagði okkur frá því að  DKG  hafi tekið að sér það verkefni að styrkja starfsemi á vegum UNICEF sem heitir Schools for Afrika og eru Kappakonur hvattar til að leggja sitt af mörkum til þessa verkefnis.

Inntaka nýs félaga. Sigríður Hulda Sigurðardóttir formaður, ásamt konum úr stjórn sáu  um inntöku nýs félaga; Önnu Guðrúnu Hugadóttur.

Orð til umhugsunar flutti Guðný Gerður Gunnarsdóttir

Þar sem fundinn ber upp á hina frægu dagsetningu kvennafrídagsins 24.október  tók Guðný þann pól í hæðina í orðum til umhugsunar. Hún rifjar upp fyrsta kvennafrídaginn fyrir 36 árum en hún var þá 21 árs og stödd í Svíþjóð og sá frétt af samtakamætti íslenskra kvenna sem birtist í því að þær tóku sér frí þennan dag og vakti mikla athygli í Svíaríki.  Guðný ræddi um hversu margt hún telji að rekja megi til þessa dags þar sem fræjum var sáð til réttindabaráttu  kvenna.  Fræjum sem urðu til þess að við eignuðumst fyrsta lýðræðiskjörna kvenforseta heimsins, ýmis mál voru tekin til umræðu sem höfðu legið í þagnargildi og svo upphaf Kvennalistans. Guðný lýsir fyrir okkur hvernig grasrótarvinnan hafi einkennst af gleði og trú á því að þarna væri komið afl sem gæti komið góðu til leiðar. Þær vildu gera hlutina öðru vísi og breyta þeim innanfrá.

Að síðustu gerði hún rannsókn sem gerð var um líðan kvenna í sveitarstjórnarmálum, að umtalsefni,  en þar kemur fram að konur endist illa í þeim vegna verklags og vinnutíma sem sé þeim ekki hentugt.

Gestgjafi kvöldsins

Aðalheiður Héðinsdóttir stofnandi og eigandi Kaffitárs sem var stofnað árið 1990 fór með hópinn um verksmiðjuna og sagði okkur frá því hvernig hún þróaði fyrirtækið. Hún hefur ætíð keypt baunir beint frá bændum og lagt rækt við að fá sem best hráefni með því að heimsækja þá og hafa persónulegt samband. Hún rekur fyrirtæki sitt eins og bakarí að því leyti að hún brennir baunir fyrir pantanir sem eiga að fara í verslanir daginn eftir. Við skynjum að saga fyritækisins er stór hluti af henni sjálfri og skemmtilegast er að heyra um þanna hluta þegar hún var í Bandaríkjunum með manni sínum og fékk þennan brennandi kaffiáhuga sem fleytti henni áfram. Hún komst í kynni við kaffihúsaeiganda sem var mikill kaffisérfræðingur og áhugi hennar kviknaði fyrir alvöru. Hún fór á námskeið hjá honum og þá var í raun teningnum kastað. Þau gerðu samkomulag sín á milli, þar sem hún var ekki með græna kortið og mátti ekki vera í launaðri vinnu, að hún myndi vinna kauplaust hjá honum í eitt ár  - þ.e., að hann myndi kenna henni allt sem hann vissi  um kaffi í skiptum fyrir starfskrafta hennar. Þarna lærði hún öll undirstöðuatriði kaffiviðskipta. Það er ljóst að þarna fer kona sem er mikill frumkvöðull og trú sínum markmiðum og lætur stundarhagsmuni ekki glepja sér sýn.  Hún segir okkur frá því hvernig hún menntar starfsfólkið sitt, talar af  mikilli hlýju og virðingu um konuna sem sér um brennsluna hjá henni og fleira og fleira. Hún lýsti því einnig hvernig hún fékk kraftlyftingamenn til að bera baunasekkina (en þeir gerðu það í fjáröflunarskyni fyrir félagið sitt) upp á aðra hæð í húsnæði sem hún hafði til afnota áður en þau réðust í verksmiðjubygginguna. Með elju og nægjusemi byggir hún upp gott og traust fyrirtæki og það er ekki fyrr en 2003 að Kaffitár fluttist eigið húsnæði í Ytri-Njarðvík – nú Reykjanesbæ. Nú starfrækir hún 8 kaffitárshús og hjá fyrirtækinu vinna um 100 manns.

Eftir gönguna um húsið og allan fróðleikinn fengum við okkur hið dásamlega kaffi Aðalheiðar og góðgæti með. Gengum síðan út í kvöldkyrrðina með kaffiilmandi poka í höndum eftir að formaður vor hafði þakkað móttökurnar, slökkt kertunum og slitið fundi klukkan 22:30.

Erla Guðjónsdóttir, ritari.

 

 


Síðast uppfært 01. jan 1970