Fundargerð 9. nóvember 2023
Fundur í Kappadeild, 9. nóvember 2022 í Golfskála GKG við Víðistaðaveg kl. 18-20.30
Sigrún Kristín Magnúsdóttir setti fund í stað Hildar Elínar sem komst ekki á fundinn og kveikti í kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Fundurinn var skipulagður af Ingibjörgu, Önnu Kristínu, Huldu, Erlu Gunnarsdóttur og Eyrúnu Valsdóttur, og var ákveðið að Hulda ritaði fundargerð. Mættar voru 19 konur en gestafyrirlesari var Kolfinna Jóhannsdóttir, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík. Að öðru leyti var dagskráin eftirfarandi:
1. Fundur settur, nafnakall, fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar
2. Kolfinna Jóhannsdóttir nýr skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík og doktorsnemi í menntavísindum heldur fyrirlestur sem nefnist: Innleiðing nýrra laga um aukið sjálfstæði framhaldsskóla og áhrif þeirra.
3. Orð til umhugsunar. Anna Kristín Sigurðardóttir
4. Önnur mál.
Sigrún Kristín gaf Kolfinnu orðið en hún ætlaði að fjalla um sjálfstæði framhaldsskóla út frá innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla og þeirri meginhugmyndafræði sem þar kemur fram. Tæknin var að stríða fundarkonum svo Kolfinna talaði í kringum glærur sínar en hún hefur lagt stund á doktorsnám þar sem hún hefur verið að rannsaka framhaldsskólastigið og skoðað sérstaklega hvernig þær valddreifingarhugmyndir sem boðaðar eru í lögunum um framhaldsskóla birtast í framkvæmd. Framhaldsskólum er ætlað mikið sjálfstæði til að ákveða hvað kennt er og hver sérstaða skólanna er t.d. miðað við svæðisbundnar áherslur. Þannig skrifa skólarnir sjálfir námsbrautalýsingar, út frá aðalnámskrá, en það hefur m.a. leitt til þess að fjölbreytni og fjöldi námsleiða hefur aukist. Það hefur einnig leitt til þess að erfitt getur reynst að meta nám nemenda milli námsbrauta þegar t.d. skipt er um skóla – sem er ekki óvanalegt. Þá velja flestir nemendur svipað nám t.d. bóknámsbrautir og opnar brautir og sömu iðngreinar eru vinsælasta ár frá ári. Fjölbreytileikinn í raunverulegu námsvali er því ekki svo ýkja mikill. Þá veigra skólar sér stundum við námskrárskrifum þar sem samþykktarferillinn er þungur. Kolfinna sagði einnig frá misræmi í útreikningum á einingum til stúdentsprófs sem er oft að lágmarki 200 einingar, en einingar á önn eru oftast um 30. Að ná þeim einingafjölda á þremur árum þarfnast því einhverra lagfæringa og útsjónarsemi. Frelsið væri því ýmsum annmörkum háð og kannski ekki iðkað sem skyldi. Kolfinna talaði líka um stöðumat og próf og hvort þau ættu að vera samræmd að einhverju leyti t.d. eins og sveinsprófin eru ákveðinn mælikvarði. Einnig um símat þar sem hefðbundnum prófum er sleppt. Þá ræddi hún um stefnuna og tengsl hennar við kjarasamninga kennara og vinnumat. Nemendur eiga auðvitað að vera alfa og omega skólastarfsins og þar með hagur þeirra. Hins vegar er umræðan oft út frá hagsmunum og fjárhagslegum áskorunum til að ná markmiðunum. Talað væri um faglega forystu sem væri mjög mikilvæg og þróa þyrfti gagnlegar aðferðir til virkrar breytingastjórnunar og aukins samtals skóla og fagfólks um breytingar.
Að loknu erindi Kolfinnu var kvöldmatur borinn fram og eftir það var Anna Kristín með orð til umhugsunar. Hún tók fyrir sjónvarpsþáttaröð sem sýnd hefur verið á RÚV í nokkrar vikur og fjallaði m.a. um læsi og margskonar gagnrýni og umbótahugmyndir um íslenska skólakerfið. Hún lagði áherslu á að kynna ætti gagnreyndar aðferðir á sviði menntavísinda en ekki ræða skólastarf í slagorðastíl. Sjónvarpið væri öflugur miðill og þáttaröðin lituð af ákveðnum boðskap sem menntasamfélagið væri ekki endilega sammála. Umræðan gæti því orðið of neikvæð og ósanngjörn gagnvart því góða starfi sem unnið er í skólunum. Fundarkonur ræddu álitamálin og m.a. hugmyndir um læsiskennslu í kjölfarið.
Undir liðnum önnur mál sagði Guðrún Edda frá því að fyrirhugað væri að halda vorþing 13.-14. maí.
Sigrún færði Kolfinnu og Önnur Kristínu rósir fyrir sín erindi og sleit fundi með því að slökkva á kertum.
Fundargerð ritaði HAA.
Síðast uppfært 12. des 2022