17. janúar 2019

Fjórði fundur vetrarins, bókafundur var haldinn á heimili Guðrúnar Eddu Bentsdóttur. Ingibjörg formaður setti fundinn með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Hún tók því næst nafnakall og voru nítján konur mættar. Lesin var fundargerð jólafundar og var hún samþykkt.

Þrjár Kappakonur sögðu frá bókum og tengdu umfjöllun sína Orðum til umhugsunar og þema vetrarins Konur í fararbroddi.
Sólveig Jakobsdóttir sagði frá áhrifaríkri bók Sally Magnusson „Sagnaseiður“ þar sem fjallað er um atburðina árið 1627 þegar sjóræningjar úr Barbaríinu fóru ránshendi um strendur Íslands og rændu yfir 400 Íslendingum, þar af 250 frá Vestmannaeyjum. Meðal þeirra voru annar presturinn í Heimaey, eiginkona og börn. Í bókinni er dregin upp mynd af örlögum prestfrúarinnar Ástu Þorsteinsdóttur, sem seld var í ánauð í Alsír. Sólveig sagði frá tilviljunum sem urðu upphaf af skemmtilegri atburðarás sem leiddi til kynna hennar við Sally í heimsókn til Íslands. Sólveig keypti bókina á flugvelli í Edinborg og hafði í framhaldi samband við Sally til að segja henni frá texta Jóns Þorsteinssonar píslavotts sem hálfshöggvin var í Tyrkjaráninu og frænka hennar Arnþrúður Lilja Þorbjörnsdóttir útsetti lag við. Kirkjukór Vestmanneyja flutti lagið í heimsókn Sallyjar þangað. Væntanlega hefur Ásta Þorsteinsdóttir, aðalsöguhetjan í bókinni sungið þennan texta sem ung kona í Eyjum en við annað lag. Sólveig leiddi síðan söng okkar í þakklætissálmi Jón Þorsteinssonar.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir fallaði því næst um ævisögu Michelle Obama „Becoming“. Guðný Gerður hlustaði á bókina í þrettán klukkustunda flugi til Buenos Aires. Bókin er þrískipt. Fyrsti hlutinn fjallar um uppvöxt hennar í Suðurhluta Chicago sem einkenndist af fjölskyldugildum og stöðugleika. Hvernig hún byggir upp eigin sjálfsmynd í þessari deiglu lífsins og brýst til mennta. Saga Bandaríkjanna á þessum tíma speglast í sögu Michelle sem er meðvituð um eigin forréttindastöðu og sem fyrirmynd fyrir aðra. Annar hlutinn er ástarsaga þeirra hjóna, fjallar um ólíkan uppruna þeirra og viðhorf. Hvernig hún reynir að standa gegn pólitísku brölti eiginmannsins en ákveður að leyfa honum að prófa að komast á þing þar sem litlar líkur eru á kjöri. Fyrr en varir er Obama kominn á þing og þau orðin meira; forsetahjón Bandaríkjanna þar sem Michelle verður ljóst að hún er sjálf að skrifa söguna. Hefur vettvang með engri starfslýsingu og notar þau tækifæri til að vinna að hag ungs fólks og koma skilaboðum á framfæri.

Að lokinn umfjöllun Guðnýjar Gerðar voru bornar fram veitingar í boði Guðrúnar Eddu, Önnu Kristínar og Valgerðar.

Marsibil Ólafsdóttir endaði síðan bókaumfjöllunina og sagði frá bók Auðar Övu „Ungfrú Ísland“. Sögusvið bókarinnar er Reykjavík árið 1963. Bókin segir frá ungri skáldkonu Heklu sem flytur vestan úr Dölum með handrit í fórum sínu, getur ekki annað en skrifað á tímum þar sem karlmenn fæðast skáld en konur eru eiginkonur, heima yfir börnum og býðst helst að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Marsibil las ýmsar tilvitanir í bókina þar sem fjallað er um sköpunarþrá og leitina að fegurðinni og tengdi við það sem hefur verið í gangi í samfélaginu fyrr og nú. Hún sagði meðal annars frá skáldkonunni Huldu sem vann keppnina um ættjarðarljóð fyrir alþingishátíðina árið 1930 undir dulnefni karlmanns.

Orðin til umhugsunar úr bókum þessara kvenna tengdust meðal annars reynslu kynslóðanna og okkar eigin og mikilvægi tengslanetsins, að láta ekki bugast, takst á við sjálfsefann og stefna að sínum markmiðum.

Önnur mál: Guðrún Edda var tilnefnd til framboðs til stjórnar Landssambandsins. Ingibjörg hvatti konur til að fjölmenna á Alþjóðaráðstefnuna í júlí. Anna Kristín verður þar með eitt af aðalerindunum og margar Kappakonur vinna núna í nefndum við skipulagninguna. Landsambandþingið verður 4. maí nk. en þar mun Áslaug gjaldkeri þurfa að mæta vegna nýrra reglna um innheimtu félagsgjalda. Þá fékkst samþykki félagskvenna til að birta ID númer í félagatali.

Ingibjörg formaður afhenti rósir til þeirra sem kynntu efni bóka og húsráðanda áður en hún sleit fundi með því að slökkva á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir


Síðast uppfært 11. mar 2019