Fundargerð 25. maí
7. fundur Kappadeildar starfsárið 2022-2023
Haldinn 25. maí 2023 að Reynihvammi 25
Upphaflega stóð til að fara vorferð í Guðmundarlund en þar sem tímasetning reyndist óhagstæð fyrir margar Kappakonur var fundinum breytt með stuttum fyrirvara. Fallið var frá fyrri plönum um vorferð og ákveðið að halda lágstemdari fund í heimahúsi. Sigrún bauð okkur inn á sitt fallega heimili að Reynihvammi 25.
Kveikt var á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og því næst snæddir ljúffengir réttir a la Sigrún.
Matseðillinn var svohljóðandi:
Í forrétt: Crème Ninon – afar ljúffeng græn súpa bætt með rjóma og kampavíni
Í aðalrétt: Salat með grænmeti kúskús og kjúklingi
Í eftirrétt: Heimagert rabarbarapæ
Miklar og góðar umræður mynduðust við borðhaldið.
Guðrún Edda sagði frá því að á Landsþingi DKG var gengin minningarganga um Gunnhildi Óskarsdóttur Kappasystur okkar sem lést í mars eftir langa og hetjulega baráttu við krabbamein. Gangan var gengin til að minnast Gunnhildar og verka hennar í þágu grunnrannsókna á brjóstakrabbameini og styrkja samtökin Göngum saman. Einnig sagði hún okkur frá því að hún skrifaði grein um samtökin og verkefnið ,,Göngum saman“ sem Gunnhildur stofnaði. Greinin var birt á vef Alþjóðasamtaka DKG.
Eftir matinn las Sigrún fundargerð síðasta fundar sem var samþykkt með minniháttar fíniseringum.
Sossa flutti því næst orð til umhugsunar. Viðfangsefni hennar var ,,Fjölskyldan sem mikilvægasta stofnun samfélagsins“
Hún velti fyrir sér orðinu ,,hyski“ þar sem átt er við kjarna – móðir, faðir, barn – þeir sem búa saman á heimili.
Hún ræddi um fjölskyldustefnu fyrir árin 2017- 2021 þar sem margar mjög jákvæðar áherslur eru í forgrunni. Þar er sett fram opinber stefna um fjölskylduvænt samfélag þar sem börn eru sett í öndvegi stuðlað að því að barnafjölskyldur búi við jöfn tækifæri og öryggi og njóti lögvarinna réttinda. Þar er líka kveðið á um að barnasáttmálinn sé innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmd. Áhersla er á að efla forvarnir og fræðslu fyrir foreldra um hvað felst í foreldrahlutverkinu. Sossa hafði orð á að marg væri vel gert í þessari stefnu og mikilvægt að vinna að því að hún næði fram að ganga.
Fjölskyldan sem fyrirbæri er mikið breytt frá því sem áður var. Mikil fjölbreytni er í samsetningu fjölskyldna og þær hafa mismunandi þarfir. Hún velti fyrir sér hvert hlutverk fjölskyldunnar væri í dag og hvort það væri breytt.
Hún sagði lítils háttar frá sinni æsku og velti fyrir sér hvort samheldni og samstaða væri á undanhaldi í dag. Að hennar mati lærði hún sjálf meira af uppeldinu en situr eftir af tveimur mastersgráðum.
Hún sýndi okkur tvær fjölskyldumyndir frá mismunandi tímum þar sem sú nýrri var af samsettri fjölskyldu sem inniheldur fólk frá Íslandi annars vegar og Hollandi hins vegar, allir hafa farið sína leið í menntakerfinu, ekkert endilega þá sem lá beinast við en eru að blómstra í sínu.
Að hennar mati skiptir mestu að eiga einingu í kring um sig, það hvernig fjölskyldan er saman sett skiptir minna máli. Mesta samfélagsmein samtímans er að hennar mati það að við gerum ekki nægar kröfur til fjölskyldunnar sem stuðningsnets. Það þarf að forgangsraða börnum.
Önnur mál:
Guðrún Edda sagði frá Landsambandsþingi DKG en þangað mættu 55 konur og ný stjórn var kosin:
Guðrún Edda okkar hefur þar af leiðandi skilað keflinu til nýs Landsambandsforseta sem er Árný Elísdóttir úr Gammadeild. Að hennar mati kemur hún inn með nýjar og spennandi hugmyndir.
Auk hennar eru í stjórn;
Steingerður Kristjánsdóttir 1. varaforseti, Lambdadeild
Málfríður Þórarinsdóttir 2. varaforseti, Alfadeild
Vilborg Ása Bjarnadóttir ritari, Iotadeild
Rósa Marta Guðnadóttir meðstjórnandi, Epsilondeild
Evrópuforsetinn sem er frá Hollandi kom í heimsókn og það var gaman að hitta hana.
Guðrún Edda sagði frá Evrópuráðstefnu DKG sem verður haldin í Tampere í Finnlandi í júlí. Þar er flott prógram – m.a. á að heimsækja Múmínsafnið sem ku vera algjörlega frábært. Hún benti á að enn væri hægt að skrá sig á ráðstefnuna.
Hildur Elín tilkynnti að stjórnin mælir með óbreyttu árgjaldi næsta starfsár.
Heildartekjur síðasta árs voru 597000
Gjöld til DKG og kostnaður funda þetta árið var í heildina 598000
Stefnt er á að fara í haustferð í stað vorferðarinnar sem aldrei var farin og rætt að mikilvægt er að passa við skipulag funda næsta vetur að fundi beri ekki upp á stórar útskriftarhelgar og/eða hvítasunnu.
Hildur færði því næst Sossu rós fyrir orð til umhugsunar og Sigrúnu fyrir frábærar móttökur.
Endað var á því að fara hringinn og gefa fundarkonum færi á að segja í stuttu máli frá því sem er framundan hjá þeim í sumar.
Kl. 21:04 var fundi slitið formlega með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi .
Síðast uppfært 28. nóv 2023