Fundargerð Kappadeildar 18. maí 2017

Sjöundi og síðasti fundur starfsársins var haldinn 18. maí 2017 í sumarhúsi Önnu Sigríðar við Böðmóðsstaði í Bláskógabyggð. Kappa – systur söfnuðust saman í langferðabíl og óku sem leið lá í gegnum höfuðborgina, upp í Mosfellsbæ, yfir Mosfellsheiðina og Lyngdalsheiðina að Böðmóðsstöðum.


Anna Sigríður tók á móti okkur, sýndi okkur fallega sumarhúsið sitt og sagði í stuttu máli frá sögu þess og umhverfi.
Guðrún Edda setti fund kl. 18.10 með því að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Ingibjörg sá um nafnakall og voru 16 Kappa-systur mættar.
Guðrún Edda las síðustu fundargerð frá heimsókn í HÍ og var hún samþykkt.


Inntaka nýs félaga. Nýr félagi, Gunnhildur Óskarsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ og stofnandi samtakanna Göngum saman var boðin velkomin í hópinn. Formaður og varaformaður fóru yfir formleg inntökuskilyrði og markmið DKG.
Önnu Sigríði var afhent rós í þakklætisskyni fyrir gott boð í hennar sumarparadís.
Formlegri dagskrá var lokið kl. 19.00


Óformleg dagskrá tók þá við – veitingar og spjall í sumarhúsinu hennar Önnu Sigríðar. Margt var skemmtilegt rætt svo sem músasagan góða mikið hlegið og vináttubörn treyst. Þaðan var farið á Laugarvatn í gamla Húsmæðraskólahúsið þar sem rekinn er fallegur veitingastaður sem ber nafnið Lindin og snæddur þar ljúffengur kvöldverður. Ingibjörg var öllum hnútum kunnug í þessu húsi og sagði okkur margar sögur um húsmæðraskólalífið sem frænka hennar Jensína stýrði í fjölda ára og Ingibjörg bjó hjá henni í skólahúsnæðinu meðan hún stundaði nám á Laugarvatni.


Það voru sælar Kappa-systur sem kvöddu staðinn um kl. 21:30 og lögðu af stað heim á leið með þakklæti í hjarta fyrir samveruna og vináttuböndin sem sífellt styrkjast.


Síðast uppfært 25. jan 2018