18. janúar 2017

Fundur hófst kl. 20:00.

Guðrún Edda formaður var fjarri góðu gamni vegna veikinda og stýrði varaformaðurinn, Ingibjörg fundi.
Júlíana ritari var líka veik og tók Sólborg Alda að sér fundarritun.

Kveikt var á kertunum og gengið til nafnakalls. Alls voru 14 konur mættar og þar af nýr félagi, Gunnhildur Óskardóttir sem var gestur á vorfundinum okkar og var „sjanghæjuð“ í Kappa – deildina eftir þann fund.

Fyrst á dagskrá var Anna Guðrún sem kynnti bókina „Ljósmóðirin“ eftir Eyrúnu Ingadóttur sagnfræðing. Þessi bók er söguleg skáldsaga og segir sögu Þórdísar Símonardóttur ljósmóður á Eyrarbakka á árunum í kringum aldamótin 1900. Þórdís var kvenskörungur mikill og lét í sér heyra ef þannig stóð á. Hún giftist tvisvar, verður ekkja í fyrra skiptið en skilur í það seinna. Hún eignaðist ekki börn sjálf en ól upp dóttur seinni mannsins, sem hann eignaðist með vinnukonunni. Lífsbaráttan var hörð og ljósmóðurstarfið erfitt. Sannkölluð hetjusaga.

Næst kynnti Herdís Anna barnabókina „Vikkala Sól og hamingjukrúsin“ eftir Krístínu Margréti Kristmannsdóttur og Herdísi Björk Þórðardóttur. Áður en Herdís Anna hóf kynnnguna lét hún okkur skrifa á miða það sem vekur okkur gleði og hamingju og við settum miðana í krús. Sagan af Vikkölu Sól fjallar um hamingjuna, Vikkala Sól er í hamingjuleit og finnur hamingjuna á ýmsum stöðum við ýmsar athafnir og skrifar á miða það sem veitir henni hamingju og setur þá í hamingjukrús. Herdís Anna minnti okkur á hamingjan er allt í kring og að við ættum að horfa á það sem er jákvætt. Lífið verður bjartara og skemmtilegra í gleði.

Næst voru bornar fram dýrindis veitingar sem gestgjafinn Erla, Marsíbil, Sigríður Johnsen og Sigrún Kristín göldruðu fram.

Hulda Anna kynnti þar á eftir bókina „Tvísaga“ eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur. Þetta er fjölskyldusaga Ásdísar Höllu sem ólst upp við ótrúlega erfiðar aðstæður. Auk þess að segja okkur af uppeldi og ævi Ásdísar Höllu og hvernig hún braust út úr þessum aðstæðum skoðaði hún bókina út frá félagslegri arfleið, hversu illa var farið með minnimáttar og konur í mjög svo stéttskiptu samfélagi. Skólinn var bjargvættur Ásdísar Höllu og henni tekst að rjúfa þessa þessa félagslegu arfleið. Þetta er bersögul og hreinskilin frásögn og hvatti Hulda okkur til að kynna okkur sögur formæðra okkar og þær aðstæður sem þær bjuggu við. Hún endaði á því að segja sögu langömmu og ömmu sinnar og við hversu erfiðar aðstæður þær bjuggu og lifðu.

Að lokum kynnti Linda Hrönn bók eftir Andra Snæ Magnason, „Love Star“. Þetta er áhugaverð vísindaskáldsaga sem kom út 2002 og Lindu fannst margt orðið að veruleika sem skrifað var um í bókinni sem þótti framúrstefnulegt þegar hún kom út. Í bókinni er búið að markaðssetja allt og allt er til sölu. Búið er að búa til skemmtigarð í Öxnadal þar sem Hraundrangar eru í aðalhlutverki, Lóuverksmiðja er í Árbænum og svo framvegis. Það er búið að finna formúlu fyrir ástina og fólk er parað saman. Hún sagði okkur frá persónunum Indriða og Sigríði sem létu það sem vind um eyrun þjóta og búa saman af því að þau eru ástfangin. Hún sagði okkur reyndar ekki frá því hvað gerðist eftir að Sigríður fékk bréfið um að það væri búið að finna réttan maka fyrir hana…. Bókin er full af orðaleikjum og „klikkuðum“ setningum og mælir Linda með lestri hennar.

Ingibjörg afhenti rósir og við kvöddumst um 22:30 eftir skemmtilega kvöldstund að vanda.


Síðast uppfært 14. maí 2017