16. janúar 2020
Fjórði fundur starfsársins, bókafundur, var haldinn í Fræðslusetri Starfsmenntar í Skipholti. Umsjónarkonur fundarins voru Sigrún Kristín Magnúsdóttir, Sólborg Alda Pétursdóttir og Gunnlaug Hartmannsdóttir. Fyrir fundinn höfðu Kappakonur fengið hvatningu frá undirbúningshópnum um að lesa bókina „Kviku“ eftir Þóru Hjörleifsdóttur, kynna sér Svikaskáldin og nýjustu ljóðabók þeirra „Nú sker ég netin mín“.
Ingibjörg formaður setti fundinn og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Hún minntist jafnframt á að langt væri frá síðasta fundi þar sem fella þurfti niður jólafundinn í desember vegna veðurs. Tekið var nafnakall og voru sextán konur mættar. Fundargerð frá 16. nóvember var lesin upp og samþykkt.
Herdís Anna Friðfinnsdóttir flutti því næst Orð til umhugsunar. Hún ræddi þar um mikilvægi þess að líta til jákvæðra þátt í lífinu. Nýta huga og orku til að ferðast um lífið með athygli og vera meðvituð um hvað við erum að velja með athöfnum okkar og hugsunum á hverjum degi og á hverju andartaki. Herdís Anna tengdi þessa umfjöllun bók Ránar Flygenring um Vigdísi fyrsta konuforsetann og mikilvægi sterkra fyrirmynda og að hafa hugrekki til að velja það sem hugurinn stendur til. Herdís Anna sagði frá leið Vigdísar forseta að þeirri ákvörðun að fara í forsetaframboð. Lokaákvörðun tók hún nefnilega eftir áskorun frá sjómönnum. Ákveðin tenging er þar á milli æskudraums Vigdísar sem langaði að verða skipstjóri en hafði fengið þau skilaboð ung að stúlkur gætu ekki orðið skipstjórar.
Gestur kvöldsins Þóra Hjörleifsdóttir var síðan kynnt til leiks. Hún sagði fundarkonum frá leið sinni að því takmarki að verða rithöfundur og þætti móður sinnar í því með því t.d. að gefa henni námskeið í skapandi skrifum sem seinna leiddi hana í ritlistarnám til meistaragráðu. Þóra hefur skrifað eina skáldsögu „Kviku“ og verið þátttakandi í þremur ljóðabókum gefnum út af Svikaskáldunum. Skemmtileg tenging var á milli umfjöllunar Herdísar Önnu og Þóru. Þannig háttar til að Rán höfundur bókarinnar um Vigdísi og Þóra voru skólasystur og vinkonur og dreymdi báðar um að verða listakonur þegar þær voru í menntaskóla. Þóra sjálf sagðist ekki hafa haft hugrekki sem þurfti til fyrr en mörgum árum seinna. Á leiðinni að því markmiði hafi hún ítrekað byrjað nýtt ár sem árið sem hún ætlaði að láta vaða og skrifa bók. Ekkert hafi þó orði úr fyrr en hún fór að skoða í hvað hún nýtti orkuna sína, tók rútínu dagsins föstum tökum, fór að vakna kl. 6 alla morgnana, setjast niður og skrifa. Afraksturinn var „Kvika“ sem skrifuð var með blýandi og síðan hreinskrifuð, suma daga kom eitthvað merkilegt og aðra daga minna. Bókin er byggð upp á stuttum köflum sem Þóra sagði afleiðingu umhverfisins sem hún bjó við á ritunartímanum. Bókin fjallar um unga konu sem hverfur inn í óheilbrigt ástarsamband, til verður einskonar spírall þar sem persónan leysist á ákveðinn hátt upp eftir því sem sögunni vindur fram. Textinn verður þannig ljóðrænn en sagan sjálf myrk og óþægileg. Grunnur sögunnar er því miður, að sögn Þóru, samansafn kjaftasagna og raunverulegra samtala.
Margt hefur gerst í umræðu um andlegt og kynferðislegt ofbeldi frá því bókin var skrifuð. Í dag er búið að opna á þessa umræðu og fólk hefur fleiri orð til að ræða saman um þetta málefni en fyrir áratug. Með ritun bókarinnar vildi Þóra stinga á kýlum án þess þó að sjokkera eða vera að klæmast, markmið hennar var að skapa vettvang til umræðu. Ekki gekk þó vel að fá bókina útgefna á sínum tíma fyrr en Forlagið hafði loks samband við hana.
Mikil umræða skapaðist um efni bókarinnar, stúlkuna í sögunni og tilfinningar þeirra sem hafa þegar lesið bókina og komu upp við lesturinn og áhrif umræðunnar á undanförnum árum. Í lokin sagði Þóra frá samstarfi hóps kvenna sem kalla sig Svikaskáldin. Hvernig þær settu á sig pressu til að hella sér út í skrifin og afraksturinn hefur orðið þrjár ljóðabækur.
Hlé var gert á fundinum og borin fram fiskisúpa með tilheyrandi og súkkulaðikaka í eftirrétt a la Sigrún Kristín.
Hildur Elín Vignir og Gunnlaug Hartmannsdóttir kynntu síðan bækur í seinni hluta bókafundar. Hildur Elín byrjaði og fjallaði um bókina „Tilfinningabyltingin“ eftir Auði Jónsdóttur. Bókin er byggð á reynslu Auðar sjálfrar af skilnaði eftir átján ára hjónaband. Sagan fjallar um skilnaðinn sjálfan og hvað tekur við í lífi söguhetjunnar en einnig um árin þar á undan þegar þau voru ennþá hjón. Hildur Elín sagði bókina lýsa vel þeim rússíbana sem skilnaður óhjákvæmilega er. Margir sem hafi gengið í gengum skilnað geti samsamað sig frásögninni sem einkennist af mörgum örsögum. Auður sé góður penni og bókin frábærlega skrifuð. Hildur las síðan tvo stutta kafla úr bókinni, um hvernig hlutirnir geta breyst og framandi nýjan heim við skilnað.
Þegar kom að Gunnlaugu að kynna sína bók kom í ljós að hún hafði valdið sömu bók til að fjalla um. Gunnlaug sagði textann hispurslausan en það sem hún tæki helst út úr bókinni væri það sem snéri að samskiptum fólks. Hvað það er sem mótar fólk sem fullorðna einstaklinga. Gunnlaug valdi kafla til að lesa upp um samskipti hjónanna og hversdaginn. Mikil og góð umræða var um bókina sem margar höfðu lesið. Meðal annars var rætt um meðvirkni og stíl rithöfundarins og voru skoðanir skiptar.
Ingibjörg formaður færði síðan Herdísi Önnu, Þóru, Hildi Elínu og Gunnlaugu rós og þakkir fyrir þeirra framlag á fundinum.
Undir liðnum önnur mál varð Valgerður Magnúsdóttir við áskorun fundarkvenna um að segja frá bókinni „Engin sóun” eftir Beu Johnson. Bókin hefur nýlega verið þýdd og fjallar um að minnka umfang fjölskyldu í víðasta skilning þess orða. Afþakka, minnka, endurnýta, endurvinna og jarðgera. Bea hélt nýverið fyrirlestur í Húsi Vigdísar og sýndi þar 1 kg. krukku sem í var árs rusl fjölskyldu hennar. Kappakonur eru mjög áhugsamar um umhverfismál, sóun og endurvinnslu og bar umræðan um bókina þess glöggt vitni.
Í lok fundar deildi Gunnhildur Óskarsdóttir með Kappakonum stöðu mála varðandi krabbamein sem hún hefur glímt við um árabil. Kappakonur þökkuðu Gunnhildi fyrir hreinskipti hennar.
Ingibjörg formaður þakkaði að því búnu undirbúningsnefndinni. Slökkti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og sleit fundi.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 06. mar 2020