25. nóvember 2010
Þriðji fundur starfsársins 2010 til 2011 í Kappadeild var haldinn að Miðleiti 4, 3. hæð þann 25. nóvember 2010.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður deildarinnar setti fundinn og þakkaði Guðrúnu Eddu Bentsdóttur fyrir að bjóða okkur að halda jólafundinn á heimili sínu. Síðan kveikti hún á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Sigríður Hulda, formaður dreifði nafnaskrá með myndum af þeim sem starfa í Kappadeildinni vetur. Nokkrar félagskonur hafa horfið af vettvangi og ræddi formaður um að við tækjum nýjar félagskonur inn seinna í vetur eftir ábendingum.
Formaður las síðan kveðju frá Hertu. Í bréfinu hvetur hún Kappasystur til öflugra starfa og segir síðan frá ráðstefnu sem hún fór í höfuðstöðvum samtakanna í Bandaríkjunum í haust. Hún minnir okkur á að taka þátt í Landsambandsþingi DKG sem haldið verður í Reykjanesbæi í maí 2011. Enn fremur óskar hún okkur alls góðs og býður fram aðstoð sína í starfinu okkar.
Sigríður Johnsen viðhafði nafnakall og voru 17 konur mættar.
Fundargerð síðasta fundar lesin og samþykkt.
Við sungum nokkur jólalög saman til að gleðja sálir okkar við harmonikkuleik Viktors Guðlaugssonar, eiginmanns Guðrúnar Eddu gestgjafans.
Veitingar voru að vanda góðar en þær voru að þessu sinni í umsjá, Brynhildar Auðbjargardóttur, Erlu Gunnarsdóttur , Erlu Guðjónsdóttur og Guðrúnar Eddu Bentsdóttur.
Þegar við höfðum fengið okkur af kræsingunum var tilkynnt koma leynigests kvöldsins sem var spurður spjörum úr áður en rétta nafn hennar kom fram en það var Guðrún Ögmundsdóttir, fv. alþingiskona og félagsráðgjafi. Guðrún las valda kafla úr nýútkominni ævisögu sinni og á eftir var spjallað og spurt. Guðrún bætti um betur við sögu sína og sagði okkur fleiri, m.a. af fyrstu árum hennar í réttindabaraáttu kvenna. Hún kvaddi okkur með þeim orðum að við skyldum halda áfram að segja hver annarri sögur sem við auðvitað gerðum og skemmtum okkur vel við það.
Loks var yndisleg gjafstund, en allar höfðu komið með litla gjöf til að skiptast á.
Rúmlega tíu þakkaði formaður samveruna slökkti á kertunum og sleit fundi.
Erla Guðjónsdóttir, ritari
Síðast uppfært 14. maí 2017