Fundargerð 7. október 2021

1. fundur Kappadeildar 7.október 2021
Boðað var til fyrsta fundar vetrarins, IÐAN fræðslusetur Vatnagarðar 20 kl.18:00.
Umsjón með fundinum höfðu stjónarkonur: Áslaug Ármansdóttir, Herdís Anna Friðfinnsdóttir, Hildur Elín Vignir, Hulda Anna Arnljótsdóttir og Sigrún Kristín Magnúsdóttir.
Boðað var til fundarins með eftirfarandi dagskrá:

1. Fundur settur, nafnakall, fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar.
2. Hulda Anna formaður og Guðrún Edda Bentsdóttir nýr forseti landssambandsins flytja fréttir frá framkvæmdastjórn DKG.
3. Starfsáætlun Kappadeildar 2021-2022 lögð fram til umræðu og afgreiðslu.
4. Veitingar í boði stjórnar.
5. Orð til umhugsunar: Herdís Anna Friðfinnsdóttir
6. Önnur mál.
7. Fundi slitið.


Hulda Anna formaður bauð fundarkonur velkomnar og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og setti fund. Fram fór nafnakall og voru 16 konur mættar. Hildur Elín las fundargerð frá síðasta fundi og hún samþykkt án athugasemda.
Formaður sagði frá fjarfundi í framkvæmdaráði landssambandsins, langur en gefandi fundur sem stóð frá kl.17-22. Stoltar að eiga Kappakonu sem forseta landssambandsins. Í dag eru 349 félagskonur í DKG á Íslandi og 13 deildir, hugmynd er að stofna nýja deild á Höfn í Hornafirði. Sigríður Hulda úr Kappadeild hefur farið með námskeið um Seiglu í aðrar deildir. Stefnt er að því að konur í Kappadeild hitti stöllur sínar í öðrum deildum. Ingibjörg Jónasdóttir hélt fyrirlesturinn, hvað einkennir leiðtoga? Þar kom fram nýtt snjónarhorn á leiðtoga sem hefst á sjálfstjórn. Góðir leiðtogar gera aðra að leiðtoga og sýna auðmýkt. Hún velti einnig upp spurningum eins og hvaða mark vilt þú setja á deildina? Hvað er ég ánægð með í deildinni? Hvað getur deildin gert betur? Ingibjörg hvatti konur til að nýta sér alþjóðlegt samstarf betur. Þá var rætt um greiðslu til fyrirlesara og að ekki sé hægt að ætlast til að fá þá ókeypis. Að lokum var lögð áherslu á samstarf og vera „mentor“ fyrir aðra og miðla reynslu.

Guðrún Edda Bentsdóttir nýr forseti landssambandsins flutti fréttir frá framkvæmdastjórn DKG. Fyrst sagði hún frá loforði sem hún var að uppfylla með því að taka að sér forsæti í landssambandi DKG. Hún fékk styrki til að fara í menntaskóla til Flórída og síðar til New York í USA. Þar kynntist hún Odell sem var í DKG og áttu þær í bréfasamskiptum í mörg ár. Odell bað Guðrúnu Eddu að stofna deild á Íslandi en hún taldi sig vanta tíma í verkefnið. Mörgum árum seinna ákvað hún að líta á þetta sem áskorun og tók við embætti forseta landssambandsins. Það hefur kennt henni margt og mikilvægi þess að hafa tengslanet sem og að vera dugleg að nýta sér reynslu úr Kappadeild. Hún sagði frá námskeiði fyrir forseta landssambanda sem haldið var í USA en því miður hún komst ekki en fékk sendar upptökur og hefur verið dugleg að skoðaði þær. Þar kemur fram hvað er hægt að gera til að styrkja starfið í deildunum. Guðrún Edda er sannfærð um að allt er rétt og vel gert í deildum. Alltaf kveikt á kertum, gefnar rósir, setning fundar. Jafnframt er þörfin mikil hjá konum að hittast og sitja áfram þó fundi sé slitið. Starfið hjá okkur á Íslandi er öflugara en hjá deildum í Evrópu. Efla þarf innra starfið og vekja athygli á því sem við erum að gera eins og t.d. menntamál. Jafnframt benti Guðrún Edda á að nýta erlend samskipti, þar eru í boði ótal möguleikar í fræðslu, námskeiðum, styrkjum, samskiptum, ráðstefnur ofl. Hvert land leggur til eitt fræðsluerindi á mánuði, fulltrúar Íslands eru Ingileif Ástvaldsdóttir og Jenný Gunnbjörnsdóttir og munu þær segja frá Menntafléttunni. Fyrsti fræðslufundurinn er 21.október kl. 17:00 og kemur frá Svíþjóð og mun Jeanette Ranger Jacobsson og Margarita Hanschmidt fjalla um ritverk, listasögu og kjóla Söru Danius samhliða vinnu hennar í úthlutunarnefnd Nóbelsverðlaunanna.


Starfsáætlun Kappadeildar 2021-2022 lögð fram til umræðu og afgreiðslu. Formaður kynnti starfsáætlun, þema landsstjórnar er Lærum og leiðum, faglegar og framsæknar. Þema Kappadeildar var ákveðið „Leiðtogar skapa heima og hafa áhrif“. Jafnframt var tekið út þema fyrra árs um lýðræði og miðlalæsi en hvatt til að hafa það samt sem áður í huga, enda kemur það inn á svo mörg svið. Starfsáætlun var samþykkt.

Vorþing DKG verður haldið í Reykjavík 7. maí 2022.

Hildur Elín kom með hugmynd til umhugsunar að ritari sé ein úr hóp þeirra sem sjá um fund hverju sinni.
Til umræðu kom að hafa fastan dag fyrir fundi og það á fimmtudögum, ekkert ákveðið í þeim málum.

Herdís Anna flutti orð til umhugsunar og flétti saman vináttu og þrautsegju. Hún sagði frá upplifun sinni af einstakri vináttu, hlýju og kærleika kappasystra og einlægu trausti sem ríkir hjá deildinni. Einnig sagði hún frá því hvað vinátta hefur haft mikil áhrif á lífssögu hennar í hinum ýmsu myndum. Á dagatali hennar stendur: „Settu á þig gleraugu bjartsýninnar og þú munt sjá heiminn í nýju ljósi, fullan af tækifærum“. Þetta á vel við því leiðarljósið í lífinu hefur ætíð verið bjartsýni og að grípa tækifærið. Góð æska, góðir umhyggjusamir foreldrar og amma sem fyrirmynd er ómetanlegt og gott að eiga í minningunni.
Þegar alvarlegir hlutir koma fyrir eins og bílslys, læknar tíminn ekki heldur kennir manni að lifa með nýrri stöðu og markar mann. Í stöðu sem þessari er lán að eiga góðan maka sem maður treystir og metur mikils. Þá er það samheldni, virðing og skilningur sem bindur þau traustum böndum. Einnig að gera sér grein fyrir því hvað það er sem skiptir máli í lífinu, góð heilsa, góð fjölskylda og ástvinir.
Það að tileikna sér jákvætt lífsviðhorf og þrautseigju getur leitt margt gott af sér, hjálpað mörgum og komið Herdísi Önnu þangað í lífinu þar sem hún er í dag. Mikilvægt er þó að kunna að meta sig sjálfur eins og maður er, styrkja jákvæðu kostina og vinna í þeim veiku og læra að meta þá. Þannig hefur hún tekist á við það sem orðið hefur á veginum í gegnum lífið. Breytingar eru oft erfiðar en fela í sér ný tækifæri og þannig horfir Herdís Anna á málin á jákvæðan hátt í vinnu og námi. Að trúa og treysta á sjálfans sig sem námsmann með lesblindu hefur leitt hana þarnað sem hún er í dag.
Aldrei að gefast upp og hugsa alla daga - það er svo gaman að lifa, taka áskorunum lífsins og verða ritari Kappadeildar!.
Engin önnur mál til umræðu.

Næsti fundur er fimmtudag 11. nóvember og er þá stefnt að því að fara í Listasafnsferðina sem fara átti í mars. Umsjón hafa Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Linda Hrönn Helgadóttir, Valgerður Magnúsdóttir og Marsibil Ólafsdóttir.
Í lok fundar færði Hulda Anna konum rósir, Guðrún Edda fyrir fréttir frá framkvæmdastjórn DKG, Herdís Anna orð til umhugsunar og Hildur Elín sem bauð húsnæði og veitingar.

Formaður slekkur á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og slítur fundi kl.20:00.
Fundargerð ritaði Herdís Anna Friðfinnsdóttir


Síðast uppfært 12. nóv 2021