Fundargerð Kappadeildar 30. október 2017
Kappa systur komu saman kl. 18.00 til annars fundar vetrarins í Veröld - húsi Vigdísar sem staðsett er við Brynjólfsgötu 1 í vesturbæ Reykjavíkur. Veröld - hús Vigdísar var formlega opnað á sumardaginn fyrsta 20. apríl síðastliðinn.
Ólöf Ingólfsdóttir tók á móti fundarkonum í Vigdísarstofu á jarðhæð byggingarinnar en þar er hægt að fræðast um sögulegt kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands. Ólöf líkti áhrifum forsetakjörsins við gárur í vatni sem enn eru að verki. Íslensk tunga hefur alltaf verið Vigdísi hugleikin en ekki síður að kunna skil á öðrum tungumálum því þannig höfum við samband við umheiminn og annað fólk. Áherslur Vigdísar endurspeglast nú í starfsemi hússins en ekki síður í hönnun þess.
Í húsinu eru tvær stofnanir, Tungumálastofun Háskóla Íslands og Vigdísarstofnun sem er alþjóðleg mistöð tungumála og menningar, starfrækt á grundvelli samkomulags á milli íslenskra stjórnvalda og Menningar- og vísindastofunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Húsið er helgað kennslu, rannsóknum og viðburðum sem tengjast erlendum tungumálum og menningu. Í húsinu er einnig aðstaða fyrir fyrirlestra- og ráðstefnuhald, vinnuaðstaða fyrir erlenda gestafræðimenn og kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum. Fjórtán tungumál eru nú kennd í húsinu og eru nemendur allt frá átta yfir í fjörutíu í því fjölmennasta sem er japanska.
Ólöf gekk síðan með fundarkonur um húsið sem er einstaklega fallegt og ber því glöggt vitni að arkitektar þess leiddu þar saman hugmyndir og störf Vigdísar, allt frá frönskukennaranum til velgjörðarsendiherra UNESCO í tungumálum. Þannig má segja að húsið endurspegli jafnt virðuleika þeirra embætta sem Vigdís hefur gegnt sem alþýðleika hennar og einstaka hæfileika til að tala við hvern sem er. Fyrir neðan svalir á suðurenda húsins er Vigdísartorgið með tré í miðju og vísar þannig bæði til leikhússins og ferða Vigdísar með þjóðhöfðingja að gróðursetja tré. Innanhúss gegnir lerkiviður á handriðum hlutverki „spjallspýta“, stigarnir í miðju húsinu mynda einskonar inngarð sem leiðir alla saman sem fara um húsið rétt eins og tungumálin. Frá miðjunni sest einnig „rauði kassinn“ sem Ólöf nefndi svo en inn í honum er glæsilegur fyrirlestrarsalur.
Á ferð okkar um húsið sagði Ólöf frá ýmsu sem viðkemur tungumálum og talaði þar meðal annars út frá orðlistaverki Lorens Winer um tungumál sem týnast, tungumál sem má bjarga og tungumál minnihlutahópa sem eiga á hættu að verða gleypt af ríkjandi tungumáli. Einnig talaði hún um þær ógnir sem steðja að íslenskunni og varpaði kastljósi á íslenska rappara sem blessunarlega ákváðu að rappa á íslensku og eru þannig málsvarar íslenskunnar.
Ferðin um húsið endaði í sérstöku sýningarrými á jarðhæð þar sem nú stendur yfir sýning á starfsferli Vigdísar en þetta rými er ætlað sýningum um tungumál og menningu. Guðrún Edda Bentsdóttir formaður þakkaði Ólöfu leiðsögnina og afhenti henni rós.
Eftir þessa fróðlegu og skemmtilegu leiðsögn héldu fundarkonur sameinaðar í bílum í austurátt eftir Hringbraut og inn Nauthólfsveg, til að halda áfram hefðbundnum fundarstörfum á veitingastaðnum Satt á Icelandair Hótel Reykjavík Natura.
Guðrún Edda formaður setti þar fundinn og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Því næst tók hún nafnakall og voru fimmtán konur mættar. Guðrún Edda lét félagaskrá ganga og óskaði eftir að allar viðstaddar yfirfæru upplýsingar sínar.
Sólborg Alda Pétursdóttir flutti orð til umhugsunar. Sólborg Alda horfði þar yfir líf sitt en hún hefur gert lífslínu fyrir sjálfa sig og sett ákveðnar vörður á hana. Þessar vörður hafa á einn eða annan hátt verið tímamót í lífinu, varða atvik sem beindu af leið eða á nýja leið. Hver varða hefur því verið þrep í þroska, allt frá æsku til fullorðinsára. Margt af því sem Sólborg Alda nefndi geta Kappa systur samsamað sig með. Auðvelt er að setja sig í spor lítillar stúlku á heimavist fjarri foreldrum og skynja þar heimþrá, grát og kvíða. Eða tíu ára Sólborgar Öldu sem flutti að heiman með sæng og kodda en fór ekki lengra en út á stétt. Eiga svo dýrðardaga í Héraðskólanum í Reykholti, halda til Egilsstaða og ná stúdentsáfanga og standa frammi fyrir spurningunni „hvað svo“? Við taka fullorðinsárin með kennslu, ferðalögum, sambúð, fæðingu dóttur og yfirþyrmandi ábyrgðartilfinningu en skyndilega er frumburðurinn floginn á vit eigin ævintýra. Nýtt hlutverk tekur við þegar foreldrar eldast, veikindi herja á og endaskipti verða á hlutverkum umönnunar og elsku og hversu sárt það er að missa foreldri sitt. Sólborg Alda hvatti fundarkonur til að þakka hvern dag, njóta og lifa, aldrei að bíða. Guðrún Edda formaður þakkaði Sólborgu Öldu þessi orð og afhenti henni rós.
Fundarkonur gæddu sér að því búnu á einstaklega ljúfum mat og veigum en að því loknu var síðasta fundargerð lesin og borin upp til samþykkis. Guðrún Edda fór yfir starfsáætlun vetrarins og sleit fundi kl. 20.30 með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 29. nóv 2017