Fundargerð Kappadeildar 16. apríl 2018

Sjötti fundur starfsársins var haldinn á heimili Herdísar Önnu Friðfinnsdóttur í Mosfellsbæ.

Ingibjörg S. Guðmundsdóttir setti fundinn í fjarveru Guðrúnar Eddu formanns og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Ingibjörg tók síðan nafnakall og voru sextán konur mættar.


Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir markþjálfi flutti erindi á fundinum. Áhugi hennar á markþjálfun hófst út frá persónulegri reynslu sem seinna leiddi til þess að hún hóf markþjálfanám. Ásta Guðrún sagði markþjálfun vera verkfæri til að hjálpa manneskjum til að vaxa og skoða lífsgildi sín. Markþjálfasamtal snýst um traust og að þjálfarinn sé hlutlaus í samtalinu, fái viðmælandann til að skoða hvert hann vill stefna. Lykilatriði í markþjálfun er að viðkomandi einstaklingur komi á eigin forsendum en sé aldrei þvingaður eða sendur af öðrum.

Ásta Guðrún brennur fyrir því að koma aðferðum markþjálfunar inn í menntakerfið og hefur unnið að því að koma á fót faghópi markþjálfa fyrir börn og unglinga. Hún hefur náð samstarfi við ýmsa skóla; meðal annars fimm skóla á Suðurnesjum, Álftanesskóla og grunnskólann NÚ í Hafnarfirði. Foreldrum nemenda í 8.-10.bekk var sent bréf þar sem boðið var upp á þetta tækifæri fyrir barnið. Skólaverkefnin hafa m.a. falist í markþjálfasamtali þar sem gengið er út frá útganspunkti nemandans. Í Álftanesskóla hefur verið unnið með verkefni sem kallast „Sterkari ég“. Verkefnið er unnið út frá námsskrá í lífsleikni en kennarar fá ákveðna þjálfun og verkfæri til að nota í lífsleiknikennslunni. Ásta Guðrún sagði ýmsar hugmyndir uppi hvernig hægt er að nýta markþjálfun í skólastarfi. Hún telur að markþjálfun gagnist bæði kennurum og nemendum.

Fundarkonum lék forvitni á að vita hvað gerðist ef ekkert kæmi frá nemanda í markþjálfunar samtali? Ásta Guðrún sagði það ekki algengt þar sem einstalingur kemur alltaf að eigin frumkvæði. Markþjálfinn býr auk þess yfir aðferðum til að leiða samtal. Ásta Guðrún nefndi sem dæmi um slíkt að láta viðkomandi teikna sól og út frá því ýmsa geisla sólarinnar sem eru hlutverk viðkomandi í lífinu. Út frá því væri síðan haldið áfram. Að lokum sýndi Ásta Guðrún ýmis eyðublöð og bæklinga sem hún og aðrir markþjálfar hafa gefið út til kynningar.
Ingibjörg þakkaði Ástu Guðrúnu áhugavert erindi og færði henni rós. Þá var komið að veitingum en að því búnu las undirrituð fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.

Húsráðandi, Herdís Anna, flutti orð til umhugsunar og fjallaði þar um þá gleði sem allir geta fundið með því að eiga sér áhugamál. Hver og einn tæki „hænuskref nær hamingjusólinni“ með því að eiga sér fjölbreytt áhugamál. Áhugamál væru ákveðin tengsl við lífið og virkjuðu hugann og nú væri akkúrat lífsskeiðið til að bæta í áhugamálin. Áhugamál væru hluti sjálfsþekkingar; með þeim væri hægt að víkka út, grúska, nema, læra og njóta. Áhugamál væru eflandi og heilsusamleg og hefðu þannig jákvæð áhrif á lífið. Herdís Anna beindi máli sínu til fundarkvenna og spurði hver áhugamál þeirra væru? Hún taldi því næsta upp langan lista áhugmála og fundarkonur réttu ítrekað upp hönd við hin ýmsu áhugamál og gengust þannig við áhugasviðum sínum. Að lokum hvatti Herdís Anna fundarkonur til að skoða huga sinn og gefa sér þá gjöf að gefa áhugamálum meira rými.

Eftir þessi hvetjandi orð færði Ingibjörg Herdísi Önnu þakkir og rós. Ingibjörg minnti að lokum á vorþingið 5. maí næstkomandi. Fundi var slitið kl. 20.00 með því að slökkva á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.

Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir


Síðast uppfært 29. okt 2018