19. maí 2016

Vorfundur Kappa-deildar (byggt á frásögn Sólborgar Öldu Pétursdóttur á vef Kappa-deildar á dkg.muna.is)
 
Síðasti fundur Kappa-deildar á starfsárinu 2015–2016 var haldinn fimmtudaginn 19. maí sl. á heimili verðandi formanns, Guðrúnar Eddu Bentsdóttur. Við mættum klukkan 18:00 fyrir utan heimili hennar og fórum í góða gönguferð. Þetta var óvissuferð og allt í einu vorum við komnar heim til Ingibjargar Guðmundsdóttur í Fossvoginum þar sem fram voru dregnar gullnar veigar. Þær voru teigaðar og hlátraskölllin glumdu um nágrennið. Um klukkan 19:00 vorum við komnar til baka á heimili Guðrúnar og þá byrjaði formlegur fundur. 
 
Byrjað var á aðal númeri kvöldsins. Það var frásögn Gunnhildar Óskarsdóttur sem stofnaði félagið Göngum saman en helsti tilgangur félagsins er að stuðla að aukinni hreyfingu, bæði til heilsueflingar og sem tæki til að safna fé til rannsókna sem auka skilning á uppruna og eðli krabbameins í brjóstum. Frá stofnun félagsins hefur verið úthlutað rúmlega 60 milljónum í rannsóknarstyrki til íslenskra vísindamanna sem rannsaka eðli og uppruna brjóstakabbameins. Styrkir eru veittir í október ár hvert en sá mánuður er helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini um allan heim. 
 
Gunnhildur sagði á mjög persónulegan hátt frá sjálfri sér og félaginu sem var stofnað 13. september 2007, en upphaf að stofnun félagsins má rekja til kvenna sem tengjast Gunnhildi og ákváðu að taka þátt í Avon göngunni í New York 6. – 7. okt. 2007 og þurftu að safna fé til að taka þátt. Síðan hefur félaginu vaxið fiskur um hrygg og stendur nú fyrir göngum á 16 stöðum um land allt. Síðast var gengið 8. maí sl. og þá tóku á annað þúsund manns þátt á landsvísu.
 
Gunnhildur er ein af þessum hvunndagshetjum sem framkvæma hlutina og marka spor.  
 
Eftir frásögn Gunnhildar var snædd dásamleg sjávarréttasúpa matreidd af húsfreyjunni og þar á eftir fór Gunnlaug Hartmannsdóttir fráfarandi formaður með Orð til umhugsunar. Gunnlaug sagði að stundum þyrfti að hafa hugrekki til að staka stórar ákvarðanir og upplýsti hópinn að nú stæði hún á ákveðnum tímamótum þar sem hún væri að flytja af höfuðborgarsvæðinu og í sveit á Suðurlandi þar sem hún ætlar að sinna helsta áhugamáli sínu, hestamennskunni af enn meiri krafti. Hún ætlar samt að starfa áfram með hópnum.
 
Að lokum voru hefðbundin aðalfundarstörf þar sem meðal annars var kosin ný stjórn. Guðrún Edda Bentsdóttir var kosin formaður og auk hennar voru kosnar í stjórn þær Anna Hugadóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Júlíana Hilmisdóttir. 
 
Konur fóru saddar og sælar heim eftir skemmtilega kvöldstund og bíða spenntar eftir að hittast á ný í haust. 
 

Síðast uppfært 14. maí 2017