Fundargerð 1. október 2019
Stjórn Kappadeildar boðaði til fyrsta fundar vetrins í Kvennaskólanum í Reykjavík. Ingibjörg formaður bauð fundarkonur velkomnar og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Tekið var nafnakall og voru átján konur mættar. Þessu næst var lesin fundargerð frá 16. maí og hún samþykkt.
Fyrst á dagskrá var samantekt Huldu Önnu Arnljótsdóttur en hún sótti Framkvæmdaráðsfund DKG á Íslandi fyrir hönd Kappadeildar þann14. september. Yfirskrift fundarins var „Verum vakandi og virkar“. Til umræðu var 10 ára framkvæmdaráætlun alþjóðasamtakanna 2015 - 2025 og samsvarandi áætlun fyrir íslensku samtökin 2019 - 2020. Næstu tvö ár verður unnið með félaga- og útbreiðslumál, samskipta- og útgáfumál, fylgst með þróun menntamála með áherslu á þátttöku í umræðum og lagasetningu, þá verður áhersla á fræðslu um miðlalæsi og kynninu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Guðrún Edda Bentsdóttir og Sigríður Johnsen sögðu í stuttu máli frá Alþjóðaráðstefnunni í júlí, en hún hún hlaut óvænt töluverða umfjöllun fjölmiðla sem var mjög ánægjulegt. Um 230 konur sóttu ráðstefnuna.
Ingibjörg bauð þessu næst fundarkonum í efnafræðistofu Kvennaskólans þar sem Elva Björt Pálsdóttir kennari sagði frá áherslubreytingum í efnafræðikennslunni sem hún og stalla hennar hafa unnið að í 15 ár. Markmiðið breytinganna var að nýta tímann í kennslustundum betur, fá nemendur til að bera meiri ábyrgð á eigin námi, fara frá töflunni og hefðbundnu fyrirlestraformi yfir í samtal, verkefna- og paravinnu. Áhersla er á samvinnu nemenda í hópum og að hver hópur vinni á sínum hraða. Elva Björt sagði ávinning breytinganna vera meiri virkni nemenda, aukið sjálfstraust þeirra og jákvæðni. Fyrir kennarann væri miklu skemmtilegra að kenna með þessum hætti þó því fylgdu líka áskoranir. Ingibjörg formaður afhenti Elvu Björt rós að loknu erindi hennar.
Fundarkonur gæddu sér síðan á dýrindis smurbrauði frá Jómfrúnni og að því loknu kynnti formaður tillögu stjórnar að starfsáæltun 2019 - 2020. Áætlunin var samþykkt og þema vetrarins: Miðlalæsi og lýðræði.
Áslaug Ármannsdóttir flutti Orð til umhugsunar og ræddi þar um þriðja æviskeiðið. Hún sagði umræðuna við þau tímamót litast af því að allt eigi að vera svo frábært og skemmtilegt. Áslaug sagði hvert haust á hennar starfsævi hafa verið nýtt upphaf í skólanum. Síðan hún hætti að vinna fyrir fjórum árum hafi hún farið 23 sinnum til útlanda og dvalið samtals í 63 vikur. Í haust tók hún ákvörðun um að fara ekki utan en takast á við breytinguna og skoða hvað væri í boði. Hún vildi ekki fara strax í starf eldri borgara en skoðaði ýmis námskeið og datt að lokum inn á Univesity of theThird Age (http://www.u3a.is/). Áslaug sagði verst að allt er í gangi á kvöldin eða seinni part dags en lítið að morgni, ekki vanti þó ráðlegginar úr öllum áttum til þeirra sem hættir eru að vinna. Best sé að koma sér upp áhugamáli, vera jákvæður og með bros á vör.
Ingibjörg afhenti þessu næst Huldu Önnu og Áslaugu rósir, slökkti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og sleit fundi.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 13. nóv 2019