7. nóvember 2012

Annar fundur Kappadeildar starfsárið 2012 til 2013 var haldinn í Öldutúnsskóla 7. nóvember 2012 klukkan 20.

Einkunnarorð starfsársins eru KONUR Í MENNINGU OG LISTUM.

Sigríður Johnsen formaður deildarinnar bauð alla velkomna, setti fundinn og kveikti á kertum  trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.

Sigríður tilkynnti að Hólmfríður Gréta Konráðsdóttir hafi óskað eftir leyfi í vetur.

Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 13 konur mættar. Ritari las fundargerð 1. fundar starfsársins.

Orð til umhugsunar flutti Gunnlaug Hartmannsdóttir um starfsþróun en það efni er henni hugleikið þar sem hún er að vinna mastersverkefni um starfsþróun kvenna sem eru 50 ára og eldri og eru í þjónustu hins opinbera. Enn fremur sagði hún frá því hvernig hennar eigin starfsferlill hefði þróast frá því að hún lauk BA prófi sínu.

Ljúffengar veitingar voru bornar fram en þær voru í umsjón Guðrúnar Eddu Bentsdóttur, Huldu  Önnu Arnljótsdóttur og Guðnýjar Gerðar Gunnarsdóttur.

Fyrirlesari kvöldsins var doktorÞórdís Þórðardóttir lektor í uppeldis- og menntunarfræðum á Menntavísindasviði HÍ. Þórdís sagði okkur frá efni doktorsritgerðar sinnar þar semgreint er frá rannsókn á menningarlæsi fjögurra til fimm ára leikskólabarna í tveimur leikskólum í Reykjavík. Menningarlæsi er sú þekking á barnaefni sem gagnaðist börnunum sem tóku þátt í rannsókninni til virkar þátttöku í samræðum, leik og skapandi starfi í leikskólunum og færði þeim jafnframt virðingarsess í jafningjahópnum.

  • Þekking barnanna virtist dýpri eða þéttari eftir því sem aðgengi þeirra að miðlum var fjölbreyttari. Sígilt barnaefni, að þjóðsögum meðtöldum, virtist skapa tækifæri til að öðlast skilning á gildum og siðum.
  • Fjölþjóðlegt afþreyingarefni fyrir börn er uppspretta staðalmynda sem börnin notuðu til að skipa einstaklingum í flokka sem birtist meðal annars í því að börn af íslenskum uppruna útilokuðu börn af erlendum uppruna í samræðum um íslenskar þjóðsögur og þekking barna af erlendum uppruna virtist þögguð.
  • Skrafhreifnu börnin fengu yfirleitt lengri tíma til að tjá sig í leikskólunum en hlédrægu börnin.
  • Notkun heimilanna á barnaefni virtist helst ráðast af kyni barna því að foreldrar drengja hneigðust helst til að velja teiknimyndir og ofurhetjusögur en foreldrar telpna prinsessuævintýri.
  • Þekking á barnaefni sem staðfest var af jafningjahópnum færði börnunum sem yfir henni réðu virðingarsess þeirra.
  • Gagnlegasta þekkingin sem börnin beittu í leik virtist tengjast aðgengi þeirra að afþreyingarefni heima fyrir og möguleikum sem sköpuðust til að vinna úr henni í leikskólunum.
  • Beiting þekkingarinnar virtist lituð af staðalmynduðum væntingum barnanna um hegðun kynjanna en þær virtust ráða hvernig þau flokkuðu barnaefni í telpu- og drengjaefni. Þekking telpnanna virtist helst mótast af staðalmyndum um tengsl og kvenleika en þekking drengjanna af staðalmyndum um hetjuskap og karlmennsku.
  • Kennararnir virtust sjaldan ræða jafnrétti og mismunun við börnin en niðurstöðurnar benda til þess að sá hluti barnanna sem bjó yfir góðri þekkingu á barnaefni hafi verið fær um að ræða það.
  • Niðurstöður gefa vísbendingar um hvernig ólíkt aðgengi að barnaefni á heimilum og mismunandi möguleikar barna til að tjá sig um það í leikskólum eiga þátt í að skapa menningarlæsi leikskólabarna.

Að loknu erindi Þórdísar voru umræður og fyrirspurnir.  

Fundi var síðan slitið klukkan 22:00 og slökkt á ljósum okkar sem eru tákn umtrúmennsku, hjálpsemi og vináttu

Erla Guðjónsdóttir, ritari


Síðast uppfært 14. maí 2017