23. september 2008

Kappadeildarfundur 23. september 2008. Haldinn í Árbæjarsafninu .

Gestgjafi: Guðný Gerður Gunnarsdóttir
Fundarstjóri:  Marsibil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir

Fundur hófst kl. 20:00.

Áður en fundurinn var formlega settur var farið út í Landakot (gamla ÍR húsið).  Húsið var upphaflega byggt sem kirkja fyrir kaþólska söfnuðinn árið 1887 en var gefið Íþróttafélagi Reykjavíkur 1930.  Eftir það þjónaði það sem íþróttahús til ársins 2000.  Eftir að það var flutt upp í Árbæjarsafn var það gert upp að mestu í upprunalegri mynd hýsir nú sýningu fyrir börn er nefnist „Komdu að leika“.  Guðný Gerður sagði okkur sögu hússins og við skoðuðum sýninguna sem er um leiki og leikföng barna á 20. öld.  Athygli vakti að á þessari sýningu er ætlast til þess að börn snerti og leiki sér með sýningarmunina.  

Eftir þetta fórum við inn í húsið að Lækjargötu 4

1. Setning fundar

Marsibil setti fund, kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og bauð félagskonur velkomnar.

2. Nafnakall

Alls voru mættar 21 Kappakonur af 27 félögum.

3. Fréttir

Marsibil fór yfir nokkur atriði úr starfi samtakanna og dagsetningar í starfinu framundan

Vorþing okkar verður á Austurlandi líklega á Hallormsstað og hefst á laugardegi og verður fram að hádegi á sunnudegi. Þema: Nýi kennarinn.
Dagana 22.- 26. júlí var alþjóðaþing samtakanna haldið í Chicago. Sigrún Klara Hannesdóttir var kjörin 2. varaforseti alþjóðasamtaka DKG.
Evrópuþingið verður haldið 5.- 8. ágúst í Bislet College Center í Osló.
Alþjóðaþingið árið 2009 verður 20. - 24. júlí í Washington
Árgjald verður 6.500 kr.
Kynning á fundinum með Alfasystrum verður þann 28. febrúar, en næstu fundir okkar verða mánudaginn 20. okt. og fimmtudaginn. 20. nóvember.
Það eru upplýsingar um námsstyrki á heimasíðu samtakanna, bæði innlendar og erlendar upplýsingar.

4. Þema

Sigríður Hulda Jónsdóttir varaformaður kynnti þema vetrarins sem er „ Hið gullna jafnvægi“
Stjórnin vildi finna eitthvað málefni sem stæði hjarta okkar nærri og vekti okkur til umhugsunar um líf okkar. Við ætlum að skoða þetta út frá ýmsum sviðum. Spurningin er hvernig við náum jafnvægi milli allra hlutverka okkar. Við erum mæður, dætur, eiginkonur, fagmenn og svo framvegis.  Hugsum hvað það er sem gleður okkur mest,  í hvernig hlutverki erum við að blómstra og hvað það er sem nærir okkur.   Sigríður talaði um hvernig samfélagið er að breytast.  Atvinnulífið komið fram með ný hugtök; mannauðsstjórnun, starfsmannavelta,  árangursstjórnun  og svo framvegis.  Streita er að aukast og hjónaskilnuðum að fjölga. Það eru auknar kröfur um innihaldsríkt líf í einkalífi og vinnu. 
Sigríður talaði um hvernig fyrirtæki reyna að koma til móts við starfsmenn með sveigjanlegum vinnutíma og ná með því starfsmannatryggð og gera með því fyrirtækin samkeppnishæfari.  En er sveigjanleiki það sem við viljum? Er starfsmaðurinn alltaf í vinnunni og alltaf að vinna þegar sveigjanleiki er í boði? Það getur þróast þannig og þá verður sveigjanleikinn neikvæður fyrir einstaklinginn en jákvæður fyrir fyrirtækið.  Við verðum að stjórna sveigjanleikanum sjálfar. Láta vinnuna ekki vera í fyrsta sæti.  Spurning hvort að karlar séu harðari í að setja mörk.  Verum hugrakkar og tökum okkur þann sveigjnanleika sem við viljum og setjum mörk. Þannig breytum við samfélaginu.

5. Fundargerð

Sólborg las og bar upp fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt einróma.

6. Orð til umhugsunar

Unnur Ingólfsdóttir félagsmálastjóri í Mosfellsbæ flutti orð til umhugsunar.
Unnur minnti okkur á það að Véfréttin í Delfí voru konur.  Útsendarar þeirra voru karlar sem sendir voru til að alfla upplýsinga er vörðuðu fyrirspurnirnar til Véfréttanna.  Þær mátu síðan upplýsingarnar og gáfu svar.
Unnur talaði um að lífsgleði væri ein forsenda þess að halda jafnvægi milli atvinnu og einkalífs.  Hún vitnaði í grein eftir Vilhjálm Árnason heimspeking sem heitir „Lífsgleði njóttu“. Þar fjallar Vilhjálmur um lífsspeki grísku heimspekinganna. Unnur vitnaði  m.a. í það sem Aristotelles sagði um að hugrekkið væri meðalhóf á milli ragmennsku og fífldirfsku, og gjafmildin meðalhóf á milli nísku og eyðslusemi.  Aristóteles telur að ánægja eigi ekki að vera markmið manna  heldur fylgifiskur allra góðra verka. Epikúr segir hins vegar hið góða líf felast í hófsamlegri og heilsusamlegri svölun langana og ræktun skynseminnar.  Menn eigi að  njóta andlegra og líkamlegra nautna í góðra vina hópi. Hann segir að góð melting og maganautn sé undirstaða vellíðunar. Tilbúnar langanir  eins og  eftirsókn eftir auði og frægð, ásamt skemmtanafíkn og valdagræðgi eru ekki einungis ónauðsynlegar, heldur skaða þær heilsu manna og raska sálarró þeirra.   Epikúr segir að í hamingjuleitinni sé vænlegast að einbeita sér að sínum innri manni og reiða sig ekki á veraldargengið. Epikett telur hins vegar að við þurfum að greina á milli þess sem er undir okkur komið og þess sem ekki er á okkar valdi. Við þurfum að temja okkur æðruleysi og hugarró. Ekki að eyða orkunni við að berjast við hið ómögulega. Lítum á björtu hliðarnar dveljum ekki við hugarangist.

7. Veitingar í boði Kristrúnar, Lindu og Minníar

8. Guðný Gerður Gunnarsdóttir sagði frá Minjasafni Reykjavíkur, safnfræðslu í Árbæjarsafni og Landnámssýningunni í Reykjavík 871+/-2.

Guðný Gerður sagði að það væru 30 ár síðan hún byrjaði að vinna á safninu. Minjasafn Reykjavíkur er 50 ára gömul stofnun. Árbæjarsafnið var opnað árið 1957. Býlið sem var á þessum stað hét Árbær og fór það í eyði árið 1948. Reykvíkingafélagið beitti sér fyrir því að bærinn yrði varðveittur.  Fyrir tveimur árum bættist Landnámssýningin í miðbæ Reykjavíkur við.  Í Árbæjarsafninu fara fram skráningar menningarminja og fornleifa.
En til hvers þarf söfn?  Fólk þarf á minningum að halda til að þekkja uppruna sinn og varðveita sjálfsmynd sína og sem vegvísi inn í framtíðina.
Samkvæmt lögum tekur safnið á móti skólahópum. Safnkennarar sinna því en Gerður hóf einmitt störf hér sem safnkennari. Söfnin eru óformlegar menntastofnaðir, hér er frætt og kennt á annan hátt en í skólunum. Einnig er fræðsla fyrir almenning.  Fjölskyldum er boðið upp á leiðsögn og er mikil eftirsókn eftir því. Jólasýning er á safninu í nóvember og desember.  Safnið vill vera staður þar sem fjölskyldan upplifir eitthvað saman.
Aðspurð sagði Gerður að það væri ekki íbúðabraggi í safninu en þeim hefði boðist íbúðabraggi úr Biskupstungum.  Ákveðið hefur verið að þiggja hann og segja þá sögu sem var í kringum braggana, ekki sem stríðsminja heldur sem hluta af byggðasögu Reykjavíkur eftir að stríðinu lauk.  Þá sagði Gerður að margir kæmu til að gifta sig í kirkjunni. Ekki síst frá útlöndum.

Að lokum bauð Gerður okkur allar velkomnar síðar, ekki síst með fjölskyldum okkar.

Fundi slitið kl. 22:00


Síðast uppfært 14. maí 2017