23. maí 2013
Sjötti fundur Kappadeildar starfsárið 2012 til 2013. Haldinn 23. maí 2013 klukkan 18:00 í Listaseli Erlu Axels við Selvatn á Miðdalsheiði.
Kappasystur komu saman í Listaseli Erlu B. Axelsdóttur sem hún hefur byggt í landi sem foreldrar hennar Sonja Helgason og Axel Helgason keyptu við Selvatn og ræktuðu upp með miklu harðfylgi og myndarbrag. Erla bauð okkur velkomnar og fór með okkur í gönguferð um trjágarðinn við listaselið. Garðurinn er hrífandi og í honum eru listaverk eftir föður Erlu, Axel Helgason, sem lærði höggmyndalist hjá Ásmundi Sveinssyni. Þegar lengra var gengið eftir yndislegum skógarstígum komu í ljós undur skemmtileg verk eftir eiginmann Erlu sem flest eru gerð út frá skemmtilegu og skoplegu sjónarhorni og eiga í sér heilmikinn boðskap. Við sáum og upplifðum m.a. hvernig það er að sitja á hakanum, setjast í helgan stein, dvelja í biðlundi, hvernig farið er að því að þvo peninga og hvernig það er að setjast í dómarasæti.
Eftir þessa hrífandi gönguverð var farið aftur í listaskálann og setti formaður okkar, Sigríður Johnsen, fundinn og bauð Kappasystur velkomnar og þakkaði Erlu Axels listakonu fyrir að taka á móti okkur. Sigríður kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.
Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 15 félagskonur mættar. Erla Guðjónsdóttir ritari las fundargerð fimmta fundar starfsársins og var hún samþykkt.
Næst tók Erla Axels til máls og sagði okkur frá sér og listaferli sínum. Vinnustofuna, sem er sérstaklega vistleg og björt, teiknaði Sverrir Norfjörð. Erla fór yfir þróunina í námi og listaferli sínum. Hún tók fram minnisbók sem hún segist skrifa hugrenningar sína í og fletta þeim síðan upp m.a. þegar hún finnur að hún er ekki tilbúin til að mála. Hún deilir með okkur hugleiðingum sínum og hvetjandi boðskap sem hún hefur skráð. Hún segir að listamaður þurfi að hugsa eins og íþróttamaður sem þarf stöðugt að vera að æfa sig og huga að því að halda sér í þjálfun. Menn verði ekki góðir í viðfangsefninu nema þjálfa sig. Hún segir þrautsegju miðpunktinn í því að geta verið skapandi og gæta þurfi þess að vera ánægður með daginn!!
Á heimasíðu sinni segir hún: “Vellíðanin í náttúrunni á Miðdalsheiði kallar nú fram minningar frá barnæsku. Ófyrirséðar hugdettur koma til mín og leiða mig á nýjar brautir. Gylltu verkin eru tákn þess dýrðarljóma sem bernskuminningin lifir í. Í olíuverkunum leyfi ég birtuupplifunum úr náttúrunni að fléttast við söguna".
Að lokninni kynningu Erlu var dýrindis máltíð að hætti Grillvagnsins var borin fram. Eftirréttur var í boði stjórnar.
Orð til umhugsunar voru í höndum Önnu Kristínar Sigurðardóttur. Anna hefur lagt stund á argentínskan tangó um árabil og deildi hún með okkur þekkingu sinni á dansinum. Hún stillti upp safni af tangóskóm sem hún hefur eignast og notað um tíðina og sagði okkur frá þeim. Hún segir tangó sérstakan menningarheim sem varð til í Buenos Aires og var lengi dans fátæka fólksins. Kringum 1910 fóru ríku strákarnir þar að læra tangó og þegar þeir svo koma til Parísar kenna þeir dansinn þar og þannig verður hann þekktur í Evrópu og vinsæll meðal yfirstéttarinnar. Dansinn var bannaður á tíma herforingjastjórnarinnar í Argentínu og þegar Peron kemur til valda var hann leyfður á ný. Dansinn varð síðan vinsæll um allan heim og eru töluverðar tískusveiflur í útfærslu hans. Anna sýnir okkur spor og segir dansinn snúast um tengslin á milli parsins sem dansar og það sé nauðsynlegt að ,,sleppa takinu“ og leyfa tónlistinni að taka völdin. Dansinn sé ástríðufullur en ekki erotískur. Anna hafði sýnikennslu með hjálp Kappasystra sem greinilega eru efnilegir tangódansarar. Hún leyfir okkur að hlusta á tangótónlist frá mismunandi tímum og útskýrir muninn fyrir okkur.
Eftir að við höfðum notið þessara mögnuðu listisemda ávarpaði Sigríður Johnsen hópinn og þakkaði Erlu fyrir glæsilega móttöku og Önnu Kristínu fyrir skemmtilega framsettan fróðleik um tangóinn.
Um klukkan 22.00 var kominn tími til að ljúka fundi og þakkaði Sigríður Kappasystrum fyrir veturinn og óskaði öllum góðs og ánægjulegs sumars og skálaði fyrir gleðinni. Að því loknu slökkti hún á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og sleit fundi.
Eftir fundarslit voru listaverk Erlu skoðuð undir leiðsögn hennar.
Erla Guðjónsdóttir, ritari
Síðast uppfært 14. maí 2017