Fundargerð 19. febrúar 2024

Fundargerð 5. fundar Kappadeildar á starfsárinu 2023-2024

Fundur haldinn á veitingastaðnum Bliki, Æðarhöfða 36 í Mosfellsbæ mánudaginn 19. febrúar kl. 18-20

Sigrún Kristín Magnúsdóttir stjórnarkona stjórnaði fundinum í forföllum Hildar Elínar formanns.
Sigrún Kristín setti fundinn, kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og gerði nafnakall. 19 konur voru mættar.
Sólborg Alda Pétursdóttir las fundargerð síðasta fundar í forföllum Huldu Önnu Arnljótsdóttur, fundargerðin var samþykkt.
Efni fundarins var í höndum Ragnheiðar Axelsdóttur: ,,Farsældarlögin. Hvað erum við að gera í Mosfellsbæ til að innleiða lögin.
Farsældarlögi tóku gildi 1. janúar 2022, en samtal á milli skólaþjónustu, velferðarsviðs og barnaverndar um aukið samstarf hófst 2019. Lögin gera ráð fyrir mun víðtækari þjónustu við börn í skólum og foreldra þeirra en áður hefur verið og meiri samvinnu þvert á starfsstéttir á skóla- og velferðarsviði. Þessi lög standa ofar öllum öðrum lögum um þjónustu við börn og foreldra þeirra og mikil vinna hefur farið í að rýna lög og reglur og samræma vinnulag við innleiðinguna
Í lögunum felst að:
Öll börn (0-18 ára) og forsjáraðilar þeirra sem þurfa á að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu
við hæfi og án hindrana
Öll sem bera ábyrgð samkvæmt lögum þessum skulu:
Fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu.
Bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og hún vaknar.
Eiga samráð sín á milli með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt í þágu
velferðar og farsældar barna og foreldra.
Gert er ráð fyrir 5 ára innleiðingarferli
Lögin gera ráð fyrir stigskiptri og þrepaskiptri þjónustu, tengiliðum í nærumhverfi barna og málstjórum sem halda utan um samþætta þjónustu.
Áhersla er á að virkja réttasta úrræðið hverju sinni

Farsældarhringur Mosfellsbæjarmiðar miðar að því að móta
og innleiða stigskiptingu og þrepaskiptingu laganna – sú vinna hófst formlega
haustið 2022.
Á fyrsta stigi eru leik- og grunnskólar, á öðru stigi eru skólaþjónusta og félagsþjónusta og á þriðja stigi er barnavernd,.

Öllum stigum er skipt í þrjú þrep og tók Ragnheiður dæmi úr skólaþjónustunni:
Á fyrsta þrepi fer fram fræðsla og ráðgjöf til starfsfólks skóla og námskeið fyrir foreldra og starfsfólk. Þetta á við almennt og er ekki tengt ákveðnum nemanda.
Á öðru þrepi fer fram ráðgjöf til skóla og markviss stuðningur við nemendur sem stríða við vanda í námi eða samskiptum. Þarna eru m.a. stuðningsviðtöl við börn og foreldra.
Á þriðja þrepi er sérhæfður stuðningur, greining vanda, ráðgjöf til foreldra, barns og skóla og handleiðsla fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla í tengslum við flókin mál.
Á öllum stigum og þrepum þarf að: skilgreina vandann - greina hvað veldur - velja íhlutun - meta hvort íhlutunin virkar.
Staðan eftir eitt og hálft ár.
Stýrihópur fundar 1x í mánuði. Bæjarstjóri er formaður hópsins. Góð samvinna er komin á á milli skólaþjónustu, velferðarsviðs og barnaverndar en enn skortir á að tengja heilbrigðiskerfið inn í vinnuna, en samtalið er hafið. Útgefið efni er rýnt til að tryggja að það samræmist lögunum, tæknilegar lausnir kannaðar og fjármál rædd.
Unnið er að skilgreiningu úrræða á 1., 2. og 3. þrepi hjá velferð, skóla- og ráðgjafaþjónustu
og barnavernd.
Skólateymi fundar 1x í viku en flest/öll mál koma þar inn eins og staðan er núna.
Þessari vinnu miðar vel en ljóst er að langt er í land að uppfylla lögin að fullu. Ragnheiður lagði áherslu á mikilvægi samtals og samvinnu í allri þessari vinnu, þar sem börnin geta stundum sjálf fundið lausnina séu þau spurð. Nú þegar tæpur þriðjungur er liðinn af innleiðingartímanum sagði hún að sér liði stundum eins og fólkinu við spilaborðið í gömlum Fóstbræðraþætti þar sem fólk er að spila Damm og allir reyna að útskýra reglurnar hver um annan þveran, en sýndur var bútur úr því skemmtilega myndbandi!

Orð til umhugsunar var í höndum Gunnlaugar Hartmannsdóttur, deildarstjóra skólaþjónustu Árnesþings.
Orð hennar voru í framhaldi af erindi Ragnheiðar og rakti hún vítt og breitt hvernig innleiðing farsældarlaganna kemur henni fyrir sjónir á starfssvæði hennar í Árnesþingi. Tók hún undir orð Ragnheiðar um mikilvægi samtalsins í þessari vinnu. Oft mætti leysa flókið mál með einföldu samtali. Fimm sveitarfélög eru á starfssvæði Gunnlaugar og mikil vinna að samræma vinnubrögð við innleiðingu laganna. Hún sagði að gleymst hefði að hafa kennara með í ráðum við setningu laganna og sums staðar jafnvel skorta skilning á eðli skólastarfs. Þjónustan á að vera fyrir alla á fyrsta stigi en færri og færri nemendur þurfa þjónustu á hærri stigunum. Valdefla þarf kennara og benda þeim á að þeir séu fullfærir til að leysa mál með samtali við nemendur og forráðamenn. Lykilspurningin er hvað get ég lagt gott til málsins? Nýta þarf þekkingu og reynslu sem kennarar hafa þegar í ríkum mæli.
Gunnlaug fór á námskeið í sáttamiðlun sem hún segir hafa nýst sér mjög vel í að hlusta, samræma ólík sjónarmið og leiða fram lausnir í þessari vinnu.
Farsældarlögin eru góð lög en spyrja má hvort þau séu of vandamála miðuð?
Gunnlaug ítrekaði í lokin mikilvægi samvinnu og samtals og sagði þá þætti grundvöllinn fyrir því að vel tækist til í skólastarfinu.
Miklar og fjörugar umræður sköpuðust að loknum þessum erindum og voru fundarkonur greinilega áhugsamar um þetta efni.
Undir liðnum önnur mál nefndi Ingibjörg Guðmundsdóttir hugmynd um vorferð í Dalina en umræðum var frestað til næsta fundar.
Sigrún Kristín fundarstjóri afhenti Ragnheiði og Gunnlaugu rósir og þakkaði fyrir fróðleg erindi, sleit fundi og slökkti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Anna Guðrún Hugadóttir

 


Síðast uppfært 04. apr 2024