07. maí 2009
13. fundur Kappadeildar, 07. maí 2009
„Fundur“ haldinn í Hallgrímskirkju, á Skólavörðustígnum og á veitingahúsinu Kryddlegin hjörtu.
Fundarstjóri: Marsíbil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
12 félagar mættir.
Þessi óhefðbundni fundur hófst með því að við hittumst í Hallgrímskirkju upp úr klukkan fjögur. Þar tók listakonan Harpa Árnadóttir á móti okkur. Hún var með sýningu í andyrinu sem hún kallaði Nánd og helguð ömmu hennar og afa, séra Sigurbirni Einarssyni biskupi og Magneu Þorkelsdóttur. Við byrjuðum á að fara með henni inn í kirkjuna þar sem við settumst og hlýddum á hana segja okkur frá tilurð sýningarinnar og frá ýmsum minningarbrotum sem tengdust afa hennar og ömmu. Þýð og mild rödd hennar drukknaði stundum í borhljóðum og hamarshöggum iðnaðarmannanna sem voru að vinna að viðgerð kirkjunnar. Harpa var mjög persónuleg og myndaðist mikil nánd á milli hennar sem gerði stundina ennþá sterkari. Stundin í kirkjunni lauk aðeins fyrr en við hefðum kosið því orgelleikari þurfti að hefja æfingar, en kirkjan hafði óvart verið tvíbókuð þennan dag. Harpa fór þá með okkur fram í andyrið og sagði okkur meira frá verkunum sem samanstóðu af blýantsteikningum og vatnslitamyndum.
Þegar við kvöddum Hörpu klukkan rúmlega fimm héldum við sem leið lá niður Skólavörðustíginn í bruna kulda og norðan garra. Við litum inn í nokkur gallerí og Antikbúðina. Eftir það röltum við í kuldanum niður á Skúlagötu og enduðum á veitingahúsiðnu Kryddlegin hjörtu. Þar var vel tekið á móti okkur af vertinum og stjanað við okkur hátt og lágt. Þar gæddum við okkur á ýmsum tegundum af súpum, fegnum okkur salat af salatbarnum og að lokum pöntuðum við flest allar fisk dagsins sem var langa kryddlegin ýmist í tandori eða kóríander. Allt þetta smakkaðist vel og drukkum við góðar veigar með. Það má segja að nándin hafi verið fullkomnuð þenna dag með nærveru og hlýju viðmóti vertsins.
Af fundarstörfum er það að segja að rætt var um þema næsta vetrar og komu ýmsar uppástungur að þema þ.á.m. vinátta, lífsgildi t.d. endurskoðun lífsgilda á krepputímum, nægjusemi, þakklæti, búhyggindi/slátur og skyr. Rætt var um skipulag funda á næsta ári og komu fram óskir um að hefja starfið í september á svipaðan hátt og við enduðum veturinn, að hittast á góðum stað og spjalla saman. Meira að segja var stungið upp á því að við myndum hefja starfið á því að fara í réttir. Stungið var upp á að hafa bókafund í janúar/febrúar þar sem jólabók/bækur yrðu teknar fyrir. Fyrir utan þessa fundi verður hefðbundinn jólafundur. Stungið var upp í að fara á Mýrarnar um vorið og eitt og annað skemmtilegt flaug fundarkonum í hug.
Af fundarstörfum er það að segja að rætt var um þema næsta vetrar og komu ýmsar uppástungur að þema þ.á.m. vinátta, lífsgildi t.d. endurskoðun lífsgilda á krepputímum, nægjusemi, þakklæti, búhyggindi/slátur og skyr. Rætt var um skipulag funda á næsta ári og komu fram óskir um að hefja starfið í september á svipaðan hátt og við enduðum veturinn, að hittast á góðum stað og spjalla saman. Meira að segja var stungið upp á því að við myndum hefja starfið á því að fara í réttir. Stungið var upp á að hafa bókafund í janúar/febrúar þar sem jólabók/bækur yrðu teknar fyrir. Fyrir utan þessa fundi verður hefðbundinn jólafundur. Stungið var upp í að fara á Mýrarnar um vorið og eitt og annað skemmtilegt flaug fundarkonum í hug.
Eftir skemmtilega kvöldstund fór hver til síns heima og „fundi“ lauk um klukkan átta.
Síðast uppfært 14. maí 2017