Fundargerð 7. mars 2023
Fundur Kappadeildar 7. mars 2023.
Fimmti fundur Kappadeildar á starfsárinu 2022 – 2023 haldinn í Fræðslusetrinu Starfsmennt þriðjudaginn 7. mars kl. 18:00 – 20:00.
1. Fundur settur, nafnakall, fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar
Formaður setur fund og kveikir á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Formaður þakkar undirbúningshóp fyrir skipulag fundarins, hópinn skipa Dagný Hulda Broddadóttir, Björg Jóna Birgisdóttir, Gunnlaug Hartmannsdóttir, Sólborg Alda Pétursdóttir og Valgerður Magnúsdóttir.
Nafnakall. Áður en nafnakall fór fram tilkynnti formaður að Gunnhildur Óskarsdóttir mæti ekki vegna veikinda sinna og er hún nú komin í líknandi meðferð. Erla Guðjónsdóttir er hætt þátttöku í starfi Kappadeildar vegna persónulegra aðstæðna.
Á fundinn eru mættar 21 kona:
Anna Kristín Sigurðardóttir, Anna Hugadóttir, Björg Jóna Birgisdóttir, Dagný Hulda Broddadóttir, Erla Gunnarsdóttir, Guðný Gerður Guðmundsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Gunnlaug Hartmannsdóttir, Hildur Elín Vignir, Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, Júlíana S. Hilmisdóttir, Linda Hrönn Helgadóttir, Marsibil Ólafsdóttir, Ragnheiður Axelsdóttir, Sigrún Kristín Magnúsdóttir, Sigríður Johnsen, Soffía Vagnsdóttir, Sólborg Alda Pétursdóttir, Sólveig Jakobsdóttir, Svanhildur Svavarsdóttir, Valgerður Magnúsdóttir.
Forföll boðuðu: Anna Sigríður Einarsdóttir, Áslaug Ármannsdóttir, Eyrún Björk Valsdóttir, Herdís Anna Friðfinnsdóttir, Hrafnhildur Tómasdóttir, Hulda Anna Arnljótsdóttir, Sigríður Hulda Jónsdóttir,
Svanhildur Svavarsdóttir les upp fundargerð síðasta fundar sem fram fór 24. Janúar og er fundargerð samþykkt.
2. Orð til umhugsunar
Orð til umhugsunar flytur Sigrún Kristín Magnúsdóttir og gerir hún orðið VON að umhugsunarefni
Þegar ég var ung stúlka og flutti að heiman, hélt til Vínarborgar þar sem ég lagði stund á nám í einsöng við tónlistarháskólann, sendi móðir mín mér Lífsreglur, vísur úr bókinni Hélublóm eftir Erlu en það var skáldanafni Guðfinnu Þorsteinsdóttur (1936). Annað erindið hljómar þannig:
Grafðu jafnan sárar sorgir
sálar þinnar djúpi í.
Þótt þér bregðist besta vonin,
brátt mun lifna önnur ný.
Reyndu svo að henni ‘ að hlynna,
hún þótt svífi djarft og hátt.
Segðu aldrei: „Vonlaus vinna!“
Von um sigur ljær þér mátt.
Hvar býr vonin í okkur manneskjum? Í höfðinu eða í brjóstinu? Eða á allt öðrum stað kannski tengdum þrá? En mig langar til að fullyrða að allt snýst um von. Missi maður vonina er ekkert eftir. Haldi maður hinsvegar í hana – hefur maður upphaf alls í hendi sér. Vonin styrkist þegar eitthvað tekst, þegar hægt er að snúa kringumstæðum og breyta fólki.
Sagt er að þegar okkur finnst við vera hamingjusöm – eigi sér stað efnabreyting í frumum okkar. Þær taka þessa breytingu inn og verða aldrei samar. Kroppurinn kóðar þetta hamingjuástand og hefur tilhneigingu til að þróa með sér sama ástand eða sækjast í efni úr sömu skúffu svo að segja. Frumubreytingar geta eins og flest annað í tilverunni orðið bæði til góðs og slæms. Við vitum að það er náið samband á milli líkamlegs ástands og hins sálræna. En það er styrkur að vita að forsendurnar eru okkur í vil. Við höfum val.
Þegar ég var unglingur fór ég akandi með foreldrum mínum frá Svíþjóð til Austurríkis. Við tókum ferju frá Trelleborg til Sassnitz – fórum semsagt í gegnum Austur-Þýskaland sem þá var. Mér fannst flest sem ég sá óendanlega vonlaust, fjöldi litbrigða af gráu hvort sem um var að ræða hús, vegi eða mat. Við stoppuðum til að fá okkur að borða – kjötbollurnar voru eins og skopparaboltar. Nokkrum árum síðar var ég á ferð sunnar í álfunni nánar tiltekið á Ítalíu. Fátæktin virtist mér álíka mikil – en tilveran var allt önnur, litrík blóm í krukkum, lín á snúrum og vappandi hænur. Ég varð slegin yfir samanburðinum og mér varð ljóst hversu mikilvægu hlutverki vonin gegnir – vonleysi hamlar öllu frumkvæði. AÐ finna að manni tekst eitthvað er mótsögn þess að finna til vanmáttar.
Hugsið tilbaka til skólaáranna, kennaranna sem vekja upp góðu minningarnar, þeirra sem tókst að vekja með okkur eldmóð. Ég á minningar um nokkra slíka. Sú elsta er Unnur Kolbeinsdóttir sem kenndi mér þegar ég byrjaði í Breiðagerðisskóla – hún var vissum að ég gæti meira en það sem ég sýndi í kennslustofunni hennar og ég tók skjótum framförum.
Það æðsta sem hægt er að gera fyrir annað fólk er að laða fram það besta í þeim sjálfum!
Ef dæma á frá því sjónhorni verður að segjast að fjölmiðlunum nútímans hafi mistekist gróflega. Hvort sem um er að ræða fréttir, aðra upplýsingamiðlun og heimildadagskrár (að fáeinum undanskildum) staðfestir flest tilfinningar okkar um vonleysi, við megum okkur lítils gagnvart alvarlegum atburðum eins og við höfum upplifað á síðustu misserum. Og ef vonleysi breytir einhverju í frumum okkar þá er það í þveröfuga átt við það sem ég nefndi hér í upphafi.
Hvert getum við þá leitað – til þess að efla vonina? Ánægjulegri upplifun fylgja gjarnan fleiri. En það er svo merkilegt með okkur mannfólkið að við höfum tilhneigingu til þess að flokka eitthvað sem er alvarlegt sem gott og ærlegt en gleði er eitthvað dáldið verra. Rétt eins og gleðin sé útilokuð frá raunveruleika lífsins. En sé maður ákveðinn í að gera jákvæðu frumubreytingarnar að sínum þá snýst málið um að sækja í meiri gleði. Sumsé að leita þangað sem gleðina er að finna. En þá vandast málið. Því til þess verður maður að gera sér grein fyrir í hverju gleðin felst. Frekar skondið að nú um stundir virðist gleðina helst vera að finna í þeim löndum þar sem ástandið, eftir okkar mælikvarða, er hvað verst. Til þess að byrja einhversstaðar getum við byrjað á hinum endanum. Þar sem hvað ólíklegast er að finna gleðina?
Víðast hvar kemur í ljós að hún er alls ekki til staðar einmitt þar sem flestir ómaka sig. Leggja allt sitt af mörkum. Meðal þess sem einkennir helst efnisleg velferðarsamfélög, er að við spyrjum okkur sjálf sjaldan að því hvernig á að verja öllum ágóðanum?
Aldrei hefur samfélagið sem við búum í t.d. verið jafn auðugt, jafn mikið af peningum í umferð. Og þótt við búum við frið á meðan stríð geisar annarsstaðar í álfunni þá hafa sjaldan verið notuð jafn mörg neikvæð orð þar má nefna atvinnulífið.
Niðurskurður, stress, kulnun. Þar eru orð eins von, gleði, kærleikur, umframorka, lífsvilji og vinnugleði einmitt ekki orðin sem við tengjum við vinnumarkað.
Stjórnandi á námskeiði þar sem ég var einu sinni leiðbeinandi – sagði við mig, Sigrún þú ættir ekki að nota þetta orð von. Ég skal gjarnan finna orð sem stjórnendur skilja betur. Annar sagði mér að stjórnendur fyrirtækja myndu helst ekki nota orðið von því það væri vísbending um skort á stjórn – og það væri síst þau skilaboð sem stjórnendur vilja senda út.
En sem betur fer á það ekki við um alla. Hugsið ykkur ef „þríeikið okkar“ hefði ekki í sífellu stappað í okkur stálinu og reynt að fullvissa okkur um að við myndum ná tökum á ástandinu. Eða ef Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu hætti að koma fram án þess að trúa því staðfastlega og miðla við hvert einasta tækifæri: Voninni um að Úkraínumönnum takist að vinna stríðið til landsmanna sinna og umheimsins. OG að við verðum að taka saman höndum og leggja okkar af mörkum við að hjálpa þeim að ná markmiðum sínum.
Væri ekki gott ef fjölmiðlar tækju upp nýja siði og bæru okkur fregnir af góðum vilja, og glæstum vonum um framtíðina þannig að frumurnar okkar fái tækifæri til að breytast á jákvæðan hátt. Framúrskarandi dæmi um það er auðvitað fundir Kappadeildar!!!
Ég ber þá von í brjósti að við, hver og ein getum átt þátt í að móta framtíðina ekki aðeins bregðast við því sem aðrir ákveða. Ég vona að okkur auðnist að lifa á þann hátt að barnabörnin okkar fái að njóta auðlinda náttúrunnar eins og við.
Þegar ég hugsa um vonir mínar tengdar heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna – þá er mín forgangsröð
1. Engin fátækt
4. Menntun fyrir alla
7. og 11. sem snúa að Sjálfbærri orku og sjálfbærum borgum og samfélögum
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
Í ljósi þess að á morgun er 8. mars, alþjóðlegi kvennadagurinn þá verð ég að hafa markmið nr. 5. með en það snýst um að ná Jafnrétti kynjanna
3. Veitingar
Veitingar á fundinum var dýrindis salat útbúið af matráð Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
4. Kynning á Evrópusamstarfsverkefni
Björg Jóna Birgisdóttir kynnti CENTAUR verkefnið sem er tveggja ára Erasmus+ verkefni Evrópusambandsins. Hún er verkefnastjóri þess fyrir hönd Listaháskóla Íslands og í verkefninu er lögð er áhersla á að efla, hvetja og styðja við listamenn, frumkvöðla og leiðbeinendur í skapandi greinum og fullorðinsfræðslu.
COVID-19 hafði áhrif um allan heim, meðal annars á fagfólk og listamenn sem vinna störf tengd menningu og listum. Margir höfðu þá litla möguleika á að stunda listgrein sína, fagið sitt eða starfsgrein.
CENTAUR verkefnið miðar að því að tengja saman listamenn og aðra sem hafa áhuga á að efla sköpunarkraft sinn og leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu. Ýmsir listamenn þróuðu áhugaverðar leiðir sem geta nýst til að auka þekkingu og færni einstaklinga í fullorðinsfræðslu sem og annars staðar. Um 50 listamenn víðs vegar um Evrópu hafa tekið þátt í verkefninu með því að gefa verkefni sín svo aðrir geti nýtt þau.
Helstu afurðir verkefnisins eru:
Sjálfsmatslisti (SMS) er spurningalisti sem einstaklingar geta svarað til að komast að því hvaða hæfniþættir vekja mestan áhuga hjá þeim. Um leið og búið er að svara spurningalistanum birtast niðurstöður, þ.e. prósentutölur um áhugasvið þeirra.
Æfingasafn sem inniheldur æfingar og verkefni á sviði sköpunar sem listamenn hafa þróað. Nákvæmar leiðbeiningar fylgja um hvernig má framkvæma æfinguna
eða verkefnið. Markmiðið er meðal annars að aðstoða leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu við að nýta æfingar sem samdar eru af sérfræðingum á sviði sköpunar og lista og bjóða sínum markhópum á námskeiðum. Einnig er gert ráð fyrir að listamenn sem og aðrir geti nýtt æfingarnar sér til innblásturs og/eða til að efla hæfni sína.
Á heimasíðu verkefnisins er gagnasvæði sem inniheldur æfingasafnið, sjálfsmatslistann, samskiptasvæði (hub), leiðbeiningar o.fl. Slóðin á vefsíðunnar er http://centaur-project.eu/project/
Eftir kynninguna mynduðust góðar umræður og voru flestir fundarmenn sammála um að afurðir verkefnisins séu hagnýtar, notendavænar og geti nýst í fullorðinsfræðslu. Eins og fram hefur komið er lögð áhersla á það í CENTAUR að efla sköpunarkraft og í lokin skapaðist umræða um það að einnig megi aðlaga afurðirnar og nýta á fleiri skólastigum í framtíðinni.
Formaður afhenti rósir til þeirra sem sáu um dagskrá fundarins þeim Björgu og Sigrúnu Krsitínu auk þess sem Sólborg Alda fékk rós fyrir að hýsa fundinn.
5. Önnur mál
Guðrún Edda segir frá undirbúningi landssambandsþings DKG sem haldið verður 13. Og 14. Maí. Þar segir hún m.a. frá áhugaverðum fyrirlesara frá Finnlandi sem sérhæfir sig í starfsþjálfun kennaranema auk þess verða mörg önnur fróðleg og framsækin erindi. Ráðstefnugjaldið er 13.000 krónur og er hagstæði gisting í boði á Hótel Örk. Hún hvetur Kappasystur til að fjölmenna á þingið. Einnig sagði hún frá Evrópuþinginu sem fram fer í Tempere um miðjan júlí og er undirbúningur í gangi fyrir skemmtilega dagskrá,.
Mæting á fundi í vetur hefur verið mjög góð eða um 70 %.
Næsti fundur er samkvæmt starfsáætlun 17. apríl 2023.
Fundi slitið kl. 19:55 og slökkt á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Síðast uppfært 04. maí 2023