24. febrúar 2016
Fjórði fundur Kappadeildar var sameiginlegur með Deltadeild á Vesturlandi
Haldinn þann 24. febrúar 2016 að Hotel Natura í Reykjavík kl. 18.00 -20.00
Formaður Kappadeildar Gunnlaug Hartmannsdóttir setti fund, og bauð gesti velkomna og sérstaklega Eygló Björnsdóttur landssambandsforseta.
Guðrún Edda varaformaður hafði nafnakall fyrir Kappadeild, 14 konur mættar. Delta konur kynntu sig sjálfar - 11 konur mættar.
Ritari las fundargerð síðasta fundar sem var samþykkt athugasemdalaust
Orð til umhugsunar flutti Sigrún Jóhannesdóttir Delta kona, sem ræddi um mál sem brenna á konum um þessar mundir og eru áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Hún nefndi launamun kynjanna fyrr og nú og fannst ótrúlegt að hann væri ennþá til staðar. Hún nefndi einnig bleika skattinn, karla sem eru fjölmennari í aðalhlutverkum í myndum, staðalímyndir sem birtast í auglýsingum og birtist t.d. í ólíkum vinnufatnaði flugliða eftir kynjum, mansal og margt fleira. Hún spurði hvort konur þyrftu að vera í óþægilegum fötum til að teljast gjaldgengar. Hún fræddi konur um stjórnunarnámskeið sem haldið var fyrir konur í Boston sem gekk út á að kenna þeim að kaupa rétta brjósthaldara og lyfta hárinu. Gleðileg undantekning er Angela Merkel sem er ein valdamesta kona heims og góð fyrir mynd hvað varðar klæðaburð. Útlistdýrkum bitnar hvað verst á ungum stúlkum. Þá spurði hún hvort við í samtökum DKG þyrftum að vera virkari í þessum málum, beita okkur að fleiri markmiðum og jafnvel bæta einhverjum við. Rifjaði upp tíma samtakanna frá því að hún varð forseti, þar sem hún flutti orð til umhugsunar árið 1997, og stóð þá á fimmtugu, á hátindi hæfni og þroska. Öfugt við ömmu sína sem var fædd 1846 og upplifði sig sem gamla konu þegar hún var á sama aldri. Sigrún minnti konur á hvað eftirlaunaárin geti veitt mikla hamingju og brýndi okkur í að vera gerendur frekar en viðfangefni í okkar eigin lífi. Sannarlega orð til umhugsunar sem þakkað var fyrir með lófaklappi.
Eygló Björnsdóttir ávarpaði fundinn. Rifjaði upp afmælishátíð samtakanna frá síðasta hausti og sögu samtakanna þegar Alfa deild var stofnuð í nóvember fyrir 40 árum, 1975. Samkvæmt árskýrslum deildanna, virðist starfið hafa verið blómlegt og hvatti Eygló deildir til að vera duglegri að setja inn á vefinn. Nýr vefur alþjóðasambansins er komin í loftið, mikið af lokuðum svæðum og við notum númer á kortunum okkar sem lykilorð og notendanafn er: dkg2014society. Hvatti hún deildir til að búa til eigin prófíl og taka þátt í umræðuhópum. Hún taldi að brýnt væri að hlúa vel að nýjum konum sem eru að koma inn og gæta þess að þær fengju kynningu á starfi og markmiðum samtakanna. Uppstillinganefndir eru af störfum í öllum deildum, en einnig verður óskað eftir konum til setu í erlendum nefndum. Hvatti hún konur til að gefa kost á sér til starfa fyrir samtökin og til fyrirlestrahalds. Minnti á vorþingið sem verður haldið 30. apríl í Setbergsskóla, yfirskrift verður fjölmenning og samtakamáttur. Gerður góður rómur að máli hennar og þakkað hvatningarorð með lófaklappi.
Anh Dao Tran var aðalfyrlesari kvöldsins en hún hefur verið í samtökunum frá 1995. Hún sagði frá doktorsritgerð sinni um óvirkjaða auðlind sem felst í erlendum nemendum í framhaldsskólum. Markmið með rannsókninni var að bæta aðstæður framhaldsskólanema af erlendum uppruna. Byrjaði með 13 krakka af víetnömskum uppruna, í verkefninu og eftir tvö ár voru einungis 11 nemendur eftir (18-25 ára). Niðurstöður leiddu í ljós að ungmennin vantar tengslanet, tala ekki nægilega góða íslensku, þekkja illa íslenska menningu og hverfa þá gjarna frá námi. Verkefnið gekk einnig út á að aðlaga kennsluhætti að þörfum þeirra. Fjölmenningar-menntunarfræði er óháð þjóðerni, kynþætti eða líkamlegu atgervi, er gegnsýrandi menntun sem vísar til heildarinnar. Ræddi mun á jafnrétti og sanngirni. Niðurstöður bentu til að takmörkuð tungumálakunnátta en einnig að fyrri reynsla þeirra og menning voru ekki nýtt sem skyldi. Nemendurnir voru mjög jákvæðir í garð kennaranna, enda sáu einhverjir kennaranna sitt hlutverk að vernda hagsmuni nemendanna. En þetta er bara ekki nóg, það þarf líka að kenna nemendunum og gera til þeirra kröfur. Gjarna mætti setja þeim fyrir meiri heimavinnu að mati nemendanna, til að auðvelda þeim námið m.a. að undirbúa námið næsta dag. Sjö af þessum 13 luku öll stúdentsprófi og eru flest í námi í háskóla. Nefndi dæmi um eina DKG systir sem núna er látinn sem aðstoðaði eina stúlkuna í hópnum í ensku, og spurði hvort þetta væri kannski verkefni fyrir DKG. Miklar umræður urðu um erindið og var henni þakkað fyrir fróðlegt og vekjandi erindi.
Formaður þakkaði fundinn, þeim sem voru með framlag og Delta konum fyrir komuna. Hún færði fyrirlesurum og landssambandsforseta rós að launum og slökkti á kertum trúmennsku vináttu og hjálpsemi.
Anna Kristín Sigurðardóttir ritari skráði
Síðast uppfært 14. apr 2017