Vorfundur 2011

Vorfundur Kappadeildar haldinn í Kríunesi við Elliðavatn, 26. maí 2011  kl.18:00

Velpakkaðar inn í lopatrefla, ullarhúfur, dúnúlpur og svo regngalla yfir allt, mættu galvaskar Kappasystur  við anddyri  Vatnsendaskóla kl.18:00 á þessu vorkvöldi í Reykjavík.

Það rigndi eldi og brennisteini og gekk á með hvössum vindbyljum. Við létum það ekki á okkur fá, reimuðum skóna og örkuðum  af stað í gönguferð með Elliðavatni undir styrkri leiðsögn  Gunnlaugar Hartmannsdóttur, sem leiddi okkur í allan sannleika um svæðið. Allt var  þetta bæði fróðlegt, hressandi og skemmtilegt  þó ekki væri miklu útsýni fyrir að fara, varla var nema 5 metra skyggni, svona þegar rofaði til. Veðurbarnar og glaðar með gönguna mættum við í Kríunesið, fengum heila hæð til þess að skipta um föt og hengja blauta leppana til þerris. Upp voru dregnar snyrtitöskur og pjattskór og á örskammri stundu breyttumst við úr niðurregndum göngugörpum í  sannkallaðar glæsimeyjar tilbúnar í háalvarleg fundarstörf, hátíðarkvöldverð, rautt og hvítt. 

Að lokinni hefðbundinni fundarsetningu, kertakveikingu og hressilegum hvattningarorðum formannsins okkar um að njóta stundarinnar, flutti Sólborg Alda Pétursdóttir okkur orð til umhugsunar. Sólborg Alda sagði okkur frá bernsku sinni og uppvaxtarárum í Skagafirðinum þar sem ævintýrin biðu við hvert fótmál. Ung  gekk hún í öll verk og ekki var spurt um aldur eða fyrri störf ef grípa þurfti í dráttarvél eða önnur heyvinnutæki þegar mikið var í húfi og allt kapp lagt á að koma heyi í hús. Ekki alveg hættulaust og yrði vart liðið í dag. Sveitaböllin voru sér kapítuli og  settu svip á unglingsárin. Þar sem göróttur landinn flæddi undir borðum og yfir, dansað var fram á morgun og svo óku allir kengfullir heim.  Hún taldi þó að hún hefði sloppið sæmilega ósködduð  frá þessu öllu og eftir stæði góð og verðmæt minning. 

Konur kunnu vel að meta pistilinn og skemmtilegan stílinn.

Maturinn borinn fram; blessað fjallalambið, hæfilega  grillað með öllu tilheyrandi.

Að kvöldverði loknum tók við dagskrárliðurinn” Hver er ég “  í samræmi við Þema vetrarins – “Styrkjum sjálfið – styrkjum vináttuna” Nokkrar Kappasystur sögðu frá lífshlaupi sínu, fjölskyldu, áhugamálum, sigrum, ósigrum, sorgum og gleði. Einstaklega áhugaverðar og áhrifaríkar frásagnar sem snertu strengi og hafa svo sannarlega hjálpað okkur að kynnast betur og styrkja ennfrekar vináttuböndin.

Það var orðið áliðið kvölds þegar formaðurinn okkar Sigríður Hulda, útdeildi rauðum rósum,  þakkaði fyrir veturinn, óskaði okkur sólríks sumar bæði innra sem ytra og  sleit fundi á hefðbundinn hátt.

Þegar við gengum út í vornóttina hafði stytt upp, það sló gyltum bjarma á vatnið, sem gaf fyrirheit um sólríkan morgundaginn. Við kvöddumst vel nærðar á líkama og sál og gengum brosandi út í sumarið.

Fundargerð ritaði

Sigríður Johnsen í forföllum Erlu Guðjónsdóttur, ritara deildar.


Síðast uppfært 14. maí 2017