22. maí 2014

Áttundi  fundur Kappadeildar starfsárið 2013 – 2014. Haldinn 22. maí klukkan 19:00 Hjarðarbóli í Ölfusi.

Rúta sótti Kappakonur á bensínstöð í Árúnsbrekku klukkan 18. Ferð okkar var heitið að Hjarðarbóli í Ölfusi á vorfund deildarinnar. Stoppað var við Skíðaskálann í Hveradölum, farið í hressilega leiki og boðin hressilegur drykkur.

Haldið var áfram sem leið lá austur og komið að Hjarðarbóli um klukkan 19.  Okkur er boðið í betri stofu þar sem innanstokksmunir eiga sér sögu og andrúmsloftið er hlýlegt. Á borðum eru útsaumaðir dúkar sem leiða hugann að hagleikskonum fyrri tíma sem setið hafa við að búa til fallega hluti sem við fáum svo að njóta nú.

Formaður deildarinnar, Sigríður Johnsen, setur fundinn klukkan 19.15 og kveikir á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og býður Kappasystur velkomnar.

Sigríður Helga Sveinsdóttir bústýra staðarins kemur til stofu og ávarpar hópinn og býður okkur velkomnar. Helga er mjókurfræðingur að mennt og segist vera ástríðukokkur. Hjónin keyptu staðinn fyrir tveimur árum og þarna eru 25 gistiherbergi og samkomutjald fyrir stærri hópa. Fyrri eigendur hafi plantað miklu af trjám og komið upp góðu skjólbelti sem þau fái nú að njóta. Hún segir mjög ánægjulegt að reka staðinn og hún njóti þess að hitta ólíka og spennandi einstaklinga sem sæki þau heim. Nefndi dæmi um Grikkja sem er sítrónuræktandi, hann hafi komið með fullan bakpoka af sítrónum og óskað eftir því að fá fisk í allar aðalmátíðir sínar sem væri kryddaður með sítrónum hans.

Eftir þennan inngang var nafnakall sem Gunnlaug Hartmannsdóttir annaðist og voru 15 konur mættar

Ritari las fundargerð sjöunda fundar starfsársins sem var 29. apríl.

Veitingar voru  bornar fram; Thailenskir réttir og kaffi og konfekt á eftir.

Gestur kvöldsins er Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði. Hún segist hafa flutt ársgömul til bæjarins en foreldrar hennar verið frá Selfossi og austan úr Holtum. Faðir hennar stofnaði fyrirtækið Kjörís þegar hún var 5 ára og fjölskyldan hafi ávallt unnið þrotlaust í fyrirtækinu og það hafi verið ákveðinn lífstíll að vinna saman að vexti þess. Fór í MA og var í heimavist þar í fjögur ár, það hafi verið lærdómsríkt og hún hafi eignast vini þar fyrir lífstíð. Hún fór til Noregs og lærði stjórnun og síðan kerfisfræði í Danmörku. Hún var í ICT og það hafi gagnast henni mjög vel. Faðir hennar dó skyndilega og systkinin tóku fyrirtækið yfir en þau búa öll í Heragerði.  Við fyritækið vinna 50 starfsmenn, mikil velta og Kjörís hafi 60% markaðshlutdeild.

Hún segist hafa farið fyrst í framboð til bæjarstjórnar árið 1996 og hafnað í 5. sæti. Allir nema efsti maður hafi verið nýliðar og það hafi ekki verið farsælt að hafa samsetningu hópsins þannig.  Samstarfið rofnaði og allir nema efsti maður hafi verið reknir úr Sjálfstæðisfélaginu. Þau hafi stofnað nýtt félag og hafið blaðaútgáfu og haft opið hús hvern laugardag. Í kosningum 1998 hafi hinir brottreknu fengið meirihluta, þeim hafi tekist að sameina bæjarbúa úr ýmsum stjórnmálaflokkum um þennan hóp og þau fengu fjóra fulltrúa kjörna. Árið 2002 hafi hópurinn sameinast Sjálfstæðisfélaginu aftur. Hún sjái það nú af þeirri reynslu sem hún hefur öðlast, að það sé lykilatriðið að vinna stöðugt að því að halda sínum hópi saman. Hún varð bæjarstjóri árið 2006 og fyrsta konan sem gegni því embætti.  Hlutverk bæjarstjóra sé að vera leiðtogi allra, vera sú sem sýnir væntumþykju í garð íbúa og bæjarstjóri sé einnig mikilvægur vinnuveitandi. Erfiðar ákvarðanir þurfi hún oftast að takast á við ein. Verkefnin snúist um að vanda sig og vinna þannig að sem flestir séu ánægðir og gæta þess að hafa rökin fyrir ákvörðunum sínum alltaf á hreinu. Gera það sem gagnast fyrst og fremst bæjarbúum, sjálf stefna fokksins verði að koma á eftir. Verkefnið í komandi kosningum sé að halda meirihlutanum.

Að lokum þakkaði Aldís fyrir að hafa fengið tækifæri til að hitta okkur og hélt á vit félaga sinni í kosningaverkefni.

Formaður þakkaði Aldísi fyrir komuna og afhenti henni rósina rauðu í þakklætisskyni.

Nú var komið að því að Anna Kristín Sigurðardóttir segði okkur sögu af myndun byggðar á þessu svæði sem við vorum staddar á. Sú saga er merkileg og örugglega ekki margir sem þekkja til hennar. Hverfið gangi undir nafninu Nýbúahverfið og það hafi verið hugmynd stjórnvalda upp úr 1950 að lokka ungt fólk til að fara að búa í sveit. Það hafi verið stór áform um þetta víða um land en ekki orðið að veruleika nema á þessu svæði. Fóki var gefin kostur á að sækja um 12 hektara lands sem það gat fengið mjög ódýrt. Foreldrar Önnu Kristínar hafi komið um 1958, faðir hennar hafi handmokað fyrir grunni hússins en jarðvegurinn er mýri og húsið hafi sigið smám saman. Samfélagið hafi einkennst af hjálpsemi þar sem kunnátta á sveitaverkum var ekki mikil. Faðir hennar var smiður og menn höfðu verkaskipti eftir því sem kunnáttan gaf tilefni til. Hann hafi bundið vélar aftan í Willisjeppann sinn við heyskapinn. Þau hafi haft 4 kýr, nokkrar kindur, 1 hest, svín og hænur. Smám saman þróaðist búskapurinn þannig að móðir hennar sá fyrst og fremst um búskapinn og pabbi hennar fór í smíðavinnu og þau fluttu svo til Hveragerðis. Tvö af þesum býlum eru enn með búskap.

Að loknum orðum Önnu Kristínar þakkaði formaður henni fyrir að leiða okkur á þennan yndislega stað berskuslóða hennar og kynna hann og söguna fyrir okkur. Anna Kristín fékk síðan rauða rós í þakklætisskyni.

Næst á dagskrá voru stjórnarskipti. Sólborg Alda Pétursdóttir hafði orð fyrir uppstillingarnefnd en hana skipuðu auk hennar Júlíana Hilmisdóttir og Arndís Harpa Einarsdóttir.

Tillaga uppstillingarnefndar er að formaður verði Gunnlaug Hartmannsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir varaformaður, Anna Kristín Sigurðardóttir ritari og Valgerður Magnúsdóttir meðstjórnandi. Tillaga uppstillingarnefndar var samþykkt með lófataki. Stjórnin velur sér síðan gjaldkera í stað Erlu Gunnarsdóttur sem gefur ekki kost á sér áfram í það starf.

Sigríði Johnsen fráfarandi formanni var færður rósavöndur og hafði Erla Gunnarsdóttir orð fyrir hópnum í þakkarávarpi.

Sigríður segist afar þakklátt fyrir þessi ár sem formaður og það hafi verið gefandi að vinna að gildum okkar í samstarfi við hópinn. Það einkenni hann hversu auðvelt að leita til félaga og allar tilbúnar taka ábyrgð. Samveran þessi ár sem deildin hefur starfað hafi aukin kynni og Kappasystur ávallt að tengjast nánari böndum. Sigríði var þakkað með lófataki er hún hafði lokið máli sínu.

Nýi formaðurinn Gunnlaug Hartmannsdóttir tók til máls og þakkaði fyrir traustið. Hún sagði frá samtali sem hún átti við yngri konu sem hafði það á orði hversu rík hún væri að eiga þennan flotta félagahóp og góða tengslanet, það væri ómetanlegt. Henni hafi fundist það svo gott að heyra þetta.

Sigríður kallaði á Helgu gestgjafa kvöldsins og þakkaði henni fyrir móttökurnar og færði henni rós. Hún sleit fundi klukkan 21.30, slökkti á ljósunum okkar sem eru tákn um trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og haldið var af stað til höfuðborgarinnar á ný eftir afar ánægjulega samveru í sveitinni.

Erla Guðjónsdóttir, fundarritari.


Síðast uppfært 18. okt 2014