Fundargerð 18. maí 2022
Aðalfundur Kappadeildar 18. maí 2022
Sjöundi og síðasti fundur starfsársins var haldinn 18. maí 2022 í húsi siglingaklúbbsins Ýmis í Kópavogi.
Hulda Anna setti fund með því að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hún gerði nafnakall og voru 24 Kappa-systur mættar.
Sigrún Kristín las síðustu fundargerð frá heimsókn til Starfsmenntar og var hún samþykkt án breytinga.
Þá fór fram inntaka nýrra félaga. Þær Björg Birgisdóttir, forstöðumaður og námsstjóri í Listaháskóla Íslands, Eyrún Valsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ og sviðstjóri fræðslu og þekkingar, Hrafnhildur Tómasdóttir sviðstjóri ráðgjafar og vinnumiðlunar hjá Vinnumálastofnun og Svanhildur Svavarsdóttir náms- og starfsráðgjafi hjá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ voru mættar og boðnar velkomnar í hópinn. Alexandra Viðar, stærðfræðikennari í Kvennaskólanum hafði orðið fyrir slysi og boðaði forföll verður tekin í hópinn á haustdögum. Formaður og ritari fóru yfir formleg inntökuskilyrði og markmið DKG og afhentu konunum rósir.
Þá var kvöldverður borinn fram og á meðan hans var neytt stýrði Hulda Anna aðalfundarstörfum. Hún flutti ársskýrslu fyrir árin 2019 og 2020, sem voru á margan hátt óvenjuleg sökum Covid 19.
Ársreikningar sömu ára voru lagðar fram af Áslaugu Ármannsdóttur gjaldkera. Hún fór yfir inneign, útgjöld, félagsgjöld og vexti. Staða á reikningi 1. maí er kr. 140.517.
Næstu atriði voru kosning formanns og kosning stjórnar. Hulda Anna gaf Sigríði Johnsen formanni uppstillinganefndar orðið fyrir hönd nefndarinnar. Uppstillinganefnd var að þessu sinni skipuð auk Sigríðar, Gunnlaugu Hartmannsdóttur, Guðrúnu Eddu Bentsdóttur og Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Fram kom í máli Sigríðar að Hulda Anna formaður gengur nú úr stjórn. Uppstillinganefnd gerði tillögu að Hildi Elínu Vigni sem nýjum formanni og var það samþykkt einóma.
Þá þakkaði Sigríður fráfarandi formanni fyrir vel unnin störf, sem hún hefur sinnt framúrskarandi vel á þessum skrítnu tímum. Hún hældi Huldu, sagði hana gædda mikilli útgeislun og óborganlegum húmor og umhyggju. Hópurinn þakkaði Huldu Önnu með lófataki.
Sigríður mælti með Lindu Hrönn sem nýjum fulltrúa í stjórn auk þeirra sem hafa gefið kost á áframhaldandi setu í stjórn en þær eru Herdís Anna Friðfinnsdóttir og Sigrún Kristín Magnúsdóttir var það samþykkt með lófataki. Áslaug Ármannsdóttir gaf áfram kost á sér sem gjaldkeri og var því einnig fagnað.
Ákvörðun félagsgjalda fyrir næsta starfsár. Árgjald kr. 16.000.- var samþykkt einróma.
Hefðbundnum aðalfundastörfum var lokið en næst á dagskrá fundarins voru Orð til umhugsunar sem Hildur Elín Vignir flutti.
Hildur þakkaði traustið og hlakkar til að takast á við að gegna formennsku Kappadeildar. Hildur ræddi um breytingar, þær mestu sem IÐAN hefur gengið í gegn um á þeim 16 árum sem liðin eru síðan samtökunum var komið á laggirnar. Í stefnumótunarferli kom fram ákall um að hætta að haga starfseminni eftir faggreinum. Nú starfar IÐAN í fjórum deildum eftir þáttum starfseminnar. Jafnframt eru miklar breytingar á störfum og á vinnumarkaði. En Hildi hafði verið gefin bók, sem bar heitið Rafsuða útgefin 1937. Eftir lesturinn varð henni ljóst að breytingar hafa ekki einungis átt sér stað á okkar tímum heldur um langt skeið. Bókin Rafsuða fjallar um áhrif þess að elda á rafmagnseldavél – en ekki á hlóðum. Hildur las upp nokkra velvalda kafla og uppskar mikinn hlátur. Að endingu óskaði Hildur Elín konum gleðilegs sumars og hlakkar til fyrsta funda sem verður haldinn hjá IÐUNNI. Hildur fékk að launum rós.
Önnur mál. Sigríður Hulda tók til máls og minnti konur á að nauðsynlegt er fyrir hópinn að viðhalda gleðinni, hafa gaman af því að hittast og sleppa sér hæfilega lausum. Erla Gunnarsdóttir minnti konur á að nálgast má aldurinn á jákvæðan og skemmtilegan hátt, t.d. með því að segja að maður hafi ekki lagt ákveðin atriði á minnið í stað þess að segjast ekki muna það.
Því næst tók Guðrún Edda, landssambandsformaður til máls og sagði frá að víða hefur komið fram hvað Huldu Önnu hafi tekist vel upp að halda hópnum saman á sérstökum tímum, það sé einstakt. Bar henni þakkir og óskaði gleðilegs sumars.
Hulda sleit fundi með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Síðast uppfært 14. okt 2022