Fundargerð 6. október 2020

Stjórn Kappadeildar boðaði til fyrsta fundar vetrarins á vefnum með Teams, ástandið í samfélaginu gefur ekki færi á að hittast á hefðbundinn hátt. Hulda Anna formaður bauð fundarkonur velkomnar. Eftir aðstoð tæknistjóra Hildar Elínar kveikti formaður á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og setti fund. Nafnakall var tekið, 21 kona mætt. Þá var lesin fundargerð frá vorfundi og hún samþykkt.

Fyrst á dagskrá voru fréttir frá framkvæmdaráði DKG sem Hulda Anna Arnljótsdóttir flutti. Hún hafði ásamt Guðrúnu Eddu sótt fund 3. okt. sl. Farið var yfir starfsáætlun, þema síðasta árs verður áfram það sama: Miðlalæsi og lýðræði. Slagorðið hefur verið: verið vakandi og virkar, starf DKG á að vera áhugavert. Framkvæmdaáætlun var yfirfarin en vegna ástandsins hefur hún ekki verið uppfærð. Fundum hefur verið frestað, sem og stefnumótunarvinnu en væntanlega verður þráðurinn tekinn upp á næstunni. Farið var yfir fjármálin, DKG á Íslandi stendur mjög vel.

Guðrún Edda bætti við nokkrum atriðum: Félagakort, litlu miðarnir sem Áslaug dreifir til okkar eru mikilvægir, á þeim eru félaganúmerin, ID sem þarf til þess að komast inn á vef alþjóðasamtakanna. Flestar félagskvenna í DKG eru í USA aðeins 2,5% eru utan Bandaríkjanna. Mikil gróska er hér á Íslandi, kannski vegna þess að menntamálin eru í brennidepli. Sumt þarf að nútímavæða– okkar starf er í fullu samræmi við áherslur og það sem stendur á bak við setningarorðin okkar. Sigrún Klara Hannesdóttir sagði frá reynslu sinni af alþjóðastarfi á fundinum, en hún er sú sem hefur notið mesta framgangs félagskvenna á Íslandi, verið sæmd International Achievement Award.

Samtökin hér standa mjög vel, það hefur safnast inn á reikningana. Ekki var talið æskilegt að eiga digra sjóði. Samþykkt var að nota þessa fjármuni í leiðtogafræðslu fyrir konurnar. Guðrún Edda hafði stungið upp á Sigríði Huldu sem fyrirlesara.
Rætt var í hópum um framtíðaráætlanir, meðal þess er þörfin fyrir að yngja upp í samtökunum. Í elstu deildunum eru konur á tíræðis aldri sem enn eru virkar. Ýmsar hugmyndir komu fram.


Á vorráðstefnu sem aflýst var áttu Elva Ýr Gylfadóttir og Sigríður Hagalín að vera með erindi. Þau voru tekin upp og annað er komið inn á heimasíðu DKG. Hildur Elín – deildi krækju í erindin https://www.dkg.is/is/thing-og-namskeid/vorthing/vorthing-2020/fyrirlestrar-2020 og hvatti konur til að hlusta.
Hulda Anna hvatti konur til að fara inn á vef samtakanna og skoða efnið, kynna sér framboð á styrkjum og miðla dæmum um góða framkvæmd.

Því næst lagði Hulda Anna starfsáætlun Kappadeildar 2020-2021 fram til umræðu og afgreiðslu. Áætlunin hafði verið send með fundarboði. Áfram verður unnið með lýðræði og miðlalæsi. Undirtitill að skapa heim og hafa áhrif. Hulda hafði farið yfir hver hefur stýrt fundum hingað til og uppfært nöfn ábyrgðakvenna á komandi starfsári. Hún fylgist að sjálfsögðu með og verður til aðstoðar ef þörf er fyrir. Hún bauð konum að gera athugasemdir og hafa skoðun á starfsáætluninni.
Á áætlun fyrir þennan fyrsta fund var að fá Hrafnhildi Tómasdóttur til að tala um atvinnuleysi og menntun. Því erindi var frestað. Hildi Elínu finnst spennandi að heyra hvernig VMST ætlar að bregðast við ástandinu og ef konur eru ekki á móti því þá væri flott að fá hana á næsta fund.
Sigríður Johnsen biður um að áætlunin verði sett inná FB síðuna hún verður líka inn á heimasíðunni okkar – undir starfsáætlun.
Sólveig Jakobsdóttir og Ragnheiður Axelsdóttir stungu upp á að hafa næsta fund á ZOOM. Stjórn hefur áform um að reyna að finna staði þar sem við getum hist. En ástandið er svo ótryggt að við getum ekki ákveðið mikið um framtíðina. Sólveig minnir á að það þarf ekki að hafa annað hvort eða, sumar sem vilja geti mætt og afgangurinn í fjarfundi.

Orð til umhugsunar flutti Ragnheiður Axelsdóttir. Hún ræddi um seiglu. Þegar hún skrifaði þetta um helgina þá var fyrirsögnin þegar heimurinn stoppar. Ragnheiður hefur dálæti á orðinu seigla – svo stórt, seigfljótandi. Seiglumeistari í lífi Ragnheiðar er móðirin sem hefur tekist á við aragrúa áskorana. Fékk á unga aldri berkla og lá lengi á stofnunum, átti þess ekki kost að fá kennslu en fullorðnir sjúklingar á sömu stofnunum kenndu henni að lesa, skrifa og reikna. Mamma hennar kom sjaldan í heimsókn. Þetta var á tímum heimstyrjaldarinnar og hún á enn glerperlur sem komu í gjafakassa á jólunum. Afleiðingar berklanna voru að hún hefur mátt búa við fötlun. Hún hefur oft orðið fyrir ýmiskonar vanvirðingu sem t.d. birtist í því að iðulega er talað til þeirra sem með henni eru en ekki við hana sjálfa. Miklar breytingar urðu á högum hennar árið 2019 sem leiddu til þess að hún þurfti að flytja úr eigin húsnæði. Fjórar stofnanir voru heimsóttar, í þremur var talað við börnin hennar um hana en í þeirri fjórðu aðeins við hana sjálfa. Hún valdi að bíða í marga mánuði eftir að komast að þar.
- Mamma er sjálfstæð og dugleg kona. Hún lærði á nýjan hjólastól, fékk sér snjallsíma, stofnaði aðgang að FB og heldur sambandi við fjölskylduna með aðstoð tækninnar. Hún fylgist vel með því sem efst er á baugi hverju sinni og hefur skoðanir á því. Ég dáist að jákvæðninni og seiglunni og er þakklát fyrir að hafa átt hana sem fyrirmynd, sagði Ragnheiður.

Engin önnur mál. Hulda sagði fundinn hafa verið mjög lærdómsríkan. Þetta snýst bara um þjálfun eins og svo margt annað. Þið sem eigið að stýra næsta fundi ákveðið hvernig þið viljið hafa þetta. Að lokum sýndi hún okkur rós sem Ragnheiður fær á næstunni. Slökkti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu og sleit fundi.

Tæknistjóri Hildur Elín Vignir
Fundarritari Sigrún Kristín Magnúsdóttir


Síðast uppfært 16. nóv 2020