Bókafundur 18. janúar 2021
Bókafundur.
Boðað var til fjórða fundar vetrarins á vefnum með Zoom. Umsjón með fundinum höfðu: Linda Hrönn Helgadóttir, Erla Guðjónsdóttir, Anna Sigríður Einarsdóttir og Valgerður Magnúsdóttir.
Hulda Anna formaður bauð fundarkonur velkomnar. Hulda formaður kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og setti fund.
Nafnakall var tekið, 17 konur mættar.
Þá var lesin fundargerð frá síðasta fundi og hún samþykkt án athugasemda.
Hulda Anna hóf kynningu á bókinni Aldrei nema kona, eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttir. Hulda hélt að hún hefði unnið með henni, en í ljós kom að það var systir Sveinbjargar. Í bókinni er fjallað um þrjá ættliði í Skagafirði, kjör kvenna á átjándu og nítjándu öld, þróun samfélagsins mikil stétta-skipting. Hörð lög sem virtust miða einna helst að því að ganga frá fólki, allt tóm harðneskja. EN það er alltaf einhver sem rétti hjálpandi hönd.. Bókin fjallar líka um hvernig er að komast af, en konunum tókst það. Það er líka margt fallegt í bókinni. Lestur í baðstofunni ylur og ró þótt veður séu mikil fyrir utan.
Hulda Anna dró fram stutt ágrip um ævi hverra konu: 1711 Ragnhildur eignast sitt fyrsta barn 48 ára eftir að ungum manni var holað niður í rúmið hjá henni. Hún fékk ekki að halda barninu það fór með föðurnum. 1759 Guðrún eignaðist 9 börn og loks 1807 Steinunn var yngsta barn Guðrúnar en faðir hennar eignaðist mörg fleiri með ýmsum konum. Steinunn átti 8 börn með fjórum mönnum. Feðraði eitt barnið með manni sem var samkynhneigður. Þetta er náttúrulega tabú – og mátti ekki ræða á þeim tíma. Frásagnarhátturinn er þannig að í fyrstu þremur köflunum eru konurnar kynntar og þar er einnig landakort þar sem helstu staðir eru merktir. Höfundur styðst við kirkjubækur, dómagögn og fleira. Fléttar inn í frásögnina sögulega viðburði út í heimi, eldgos, útgáfu rita og ritverka. Bókin er gríðarlega mikil heimild – orð og orðfæri, siðir og venjur sem varpa ljósi á líf formæðra okkar. Hulda las tvo stutt kafla með lýsandi dæmum sem einkenna hvernig bókin er skrifuð.
Herdís Anna, bauð gleðilegt ár. Bókin sem hún kynnti heitir Raddir – Annir og efri ár ritstjórar voru Jón Hjartarson og Kristín Aðalsteinsdóttir sem er mentor Herdísar Önnu.
14 karlar og jafn margar konur frá ólíkum landshlutum, stéttum, segja frá aðstæðum sem hafa mótað líf þeirra. Herdís Anna valdi eina frásögn, Gullveigar Teresu um barnalán, eignast tvö börn en missir stúlkuna sem deyr úr krabbameini. Þetta kenndi henni að þakka allt það góða sem hún hafði mætt í lífinu. Við fáum ýmis verkefni og það er okkar hvernig við vinnum úr því, segir Gullveig. Hún var kennari að mennt en bætti við sig háskólanámi og að því loknu var henni boðið að vera ritstjóri Nýs lífs, staða sem hún gegndi í 25 ár. En sagði upp vegna þess að hún var ekki sátt við nýja stefnu.
Á Íslandi er 44.000 heldri borgarar. Eftirspurn eftir skoðunum og viðhorfum þessa fólks er ekki mikil. Frekar talað um þau en við þau. Einn af þeim sem viðtal var við í bókinni var Ellert Schram– Hvenær varðstu gamall? Hann sagði söguna af því þegar hann fór að hugsa um eldri borgara en það var þegar hann var beðinn um að koma í stjórn félags eldri borgara. „Ellin mín er ennþá í fjarlægð en það er alltaf leið til að láta til sín taka. Hagið ykkur eins og ykkur sjálf langar. Ekki hræðast aldur og dauða.
Óskar Hafsteinn úr Mýrdalnum, maður þarf margt til að njóta gæfu og gleði. Efri árin geta orðið hamingjuríkasta tímabilið í lífinu. Heilsa, hafa nóg fyrir stafni, gott fólk í kring um sig og hreyfa sig mikið. Ekki má gleyma hve hollt er að lesa góðar bækur.
Soffía Vagnsdóttir kynnti Eldarnir ástin og aðrar hamfarir, eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, en Soffía telur hana dæmi um konu sem lætur drauma sína rætast.
Sigríður hefur alla tíð haft ástríðu fyrir hamförum. Eldarnir, ástin og aðrar hamfarir fjalla um konu sem er á svipuðum aldri og höfundurinn. Er um konuna og fjölskyldu hennar, eiginmann til 20 ára og tvö börn. Persónusköpunin er afar góð, kveikjan að lýsingu á látnum föður var að sögn höfundar ljósmynd af gamalli mynd. Önnur aðalpersóna sem er ungur ljósmyndari hann er örlagavaldur í sögunni, mjög ólíkur aðalsögupersónunni.
Mikil spenna og ástríða fer ekki á milli mála hvað höfundurinn brennur fyrir umfjöllunarefninu. Sagan er flettuð saman úr fræðum og framvindu, er afar raunveruleg og sannfærandi. Umfjöllunarefnið er stórt og ógnandi mikill háski. Ólgandi eldur bæði undir yfirborði jarðar og í sinni aðalpersónunnar.
Soffía les kafla sem er lýsandi fyrir framvinduna.
Sigrún kynnir ljóðabók eftir Ragnheiði Lárusdóttur 1900 og eitthvað, en fyrir hana hlaut Ragnheiður Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2020 fyrir handrit sitt að henni. Bókin, er fyrsta bók höfundar og var gefin út af bókaforlaginu Bjarti. Ljóðin geyma minningar og það er í þessum minningum sem lífið gerist. Ragnheiður segir frá uppvextinum til dæmis hvernig var að vera prestdóttir. Hún segir frá torfærnum leiðum fyrir vestan og eins á lífsins leið.
Áður en Ragnheiður gaf út þessa ljóðabók hafði hún birt ljóð á ýmsum stöðum og hún hefur lengi fengist við að skrifa ljóð en of lengi fyrir skúffuna. Ragnheiður hvetur fólk til að láta drauma sinna rætast. Sigrún Kristín las upp nokkur ljóð; Sýn, 1971, Sumarbúðir heima í Holti og Á tímamótum.
Anna Sigríður segir frá uppástungu fjögurra systra að bókum sem hún ætti að lesa, hér má nefna Eldur, Guðrúnarkviða, Snerting, Dýralíf, Spegill fyrri skuggabaldur, sögur handa Kára og að lokum Hansdætur sem minnir um margt á Aðeins bara kona eftir Benný Sif Ísleifsdóttur.
Undir liðnum önnur mál, kynnti Guðrún Edda að deildirnar eiga að tilnefna konur í landsstjórn. Guðrún hefur setið eitt tímabil sem er tvö ár. Hún gefur kost á sér aftur, segir starfið afar lærdómsríkt og konur samþykktu tilnefningu hennar einróma.
Næsti fundur verður haldinn af Júlíönu S. Hilmisdóttur, Gunnhildi Óskarsdóttur, Marsibil Ólafsdóttur og Dagnýju Huldu Broddadóttur
Hulda færir konum rósir – frummælendum og þeim sem skipulögðu fundinn. Hún slekkur á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og slítur fundi.
Síðast uppfært 23. apr 2021