09. apríl 2019
Sjötti fundur vetrarins var haldinn á Hótel Eyja (Eyja Guldsmeden) í Reykjavík. Ingibjörg formaður setti fundinn með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Því næst var tekið nafnakall og voru fimmtán konur mættar. Fundargerð síðasta fundar var lesin upp og samþykkt með einni breytingu. Því næst færði Ingibjörg formaður Erlu Guðjónsdóttur rós fyrir leiðsögn hennar á síðasta fundi um Bessastaðakirkju og gat þess að hún hefði fært Nínu Helgadóttur hjá Rauða krossi Íslands rós.
Gestur fundarins Þórdís Sævarsdóttir skólastjóri Uppfinningarskóla INNOENT (https://innoent.is/) var því næst kynnt til leiks. Þórdís sagði fundarkonum frá hugmyndinni á bak við stofnun skólans en áhersla skólans er á menntaþróun í gegnum skapandi kennslu, nýsköpunar- og frumkvöðlafræði. Starfið byggir á hugmyndafærði „eflandi kennslufærði“ og er markmiðið að nemendur nýti eigið hugvit, hæfileika og styrkleika til frekara náms út frá hæfniviðmiðum 21. aldar. Gengið er út frá sköpun og sjálfbærni þar sem raunfærni, siðferði og heilbrigð dómgreind er til grundvallar. Nemendur vinna saman í blönduðum aldurshóp þar sem þeir miðla, aðstoða og veita hver öðrum innblástur með leikgleði og hugdettum sem gripnar eru á lofti og unnar áfram. Þannig er byggt á sjálfsprottnum áhuga nemenda og horft til „hugar, hjarta og handar“ í gegnum samþættingu í sköpun, listum, vísindum, nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Þórdís sagði frá vaxandi pressu menntakerfisins að koma til móts við ungt fólk í dag og alþjóðlega þörf fyrir skapandi hugsun við lausn vandamála. Starf skólans hefur helst verið með sumarnámskeiðum þar sem kennarinn er í hlutverki mentors. Stefnt er að valdeflingu og að nemendur treysti innsæinu; að mistök eru til að læra af. Að loknu erindi Þórdísar svaraði hún spurningum fundarkvenna og síðan þakkaði Ingibjörg formaður henni fyrir kynninguna og afhenti rós.
Valgerður Magnúsdóttir flutti síðan Orð til umhugsunar. Hún lagði þar út frá hamingjunni, að sýna sjálfum sér samkennd jafnt og út á við og mikilvægi þess að standa með sjálfum sér. Valgerður tengdi umfjöllun sína við ferðalag sem hún fór með eiginmanni og vinafólki í tilefni stórafmælis. Þar rættist gamall draumur um að fara til Sikileyjar án þess að skipuleggja of mikið fyrirfram. Á afmælisdaginn hafi „búblað“ upp með freyðivíninu tilfinningin um hamingju, sátt og engar hindranir. Valgerður sagði einnig frá áhugaverðum bókum þar sem gleði, hlátur og þroski verður til þess að fólk kastar frá sér gamalli sjálfsmynd. Nauðsynlegt sé að eldast með smá „fíflagangi“ eða „ósóma“, verða jafnvel sérviskuleg eldri frú. Mitt í erindi Valgerðar var borinn fram matur og því gert hlé en í lokin flutti Valgerður okkur ljóð um þetta efni og endaði með orðunum - „ósigrandi sumar ríkir innra með mér“. Ingibjörg færði síðan Valgerði rós og hamingjuóskir í tilefni afmælisins.
Önnur mál: Ingibjörg formaður minnti á vorþingið 4. maí en skráning er ekki hafin. Vorferð Kappa deildar verður farin 16.maí á Akranes og munu konur úr Delta deild taka á móti Kappakonum, síðan verður borðað á Hótel Glym í Hvalfirði. Ingibjörg formaður þakkaði skipuleggjendum kvöldsins þeim Guðnýju Gerði, Sigríði og Sólveigu. Að því búnu var fundi slitið með því að að slökkva á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 05. jún 2019