Fundargerð 24. janúar2023
Bókafundur Kappadeildar 24. janúar 2023
Fundurinn var haldinn í Kópavogstúni 3- 5
Hildur Elín setti fundinn með því að kveikja á kertunum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Fundurinn var skipulagður af Önnu Sigríði, Sólveigu, Ragnheiði, Júlíönu og Svanhildi.
Júlíana var með orð til umhugsunar þar sem hún gerði gagnrýna hugsun að umtalsefni. Það að við megum ekki gleypa umhugsunarlaust við öllum auglýsingum. Hún tók sem dæmi markþjálfa en þeir eru hópur fólks sem eru duglegir að segja okkur hvað við eigum ekki að gera. Markaðsöflin ráða hér ríkjum og oft eru markþjálfarar sjálfmenntaðir. Þeir segja okkur að passa okkur á því að verða ekki of feitar og lifa í núinu. Síðan tók hún dæmi um tölvupóst sem markþjálfi hafði sent henni en þar kom fram hvað hún var ómöguleg í öllu og hún þyrfti að gera eitthvað í sínum málum. Viðkomandi hefði gert það enda væri hann orðinn fullkominn í dag. Júlíana minnti okkur á að við þurfum að taka svona pósta með gagnrýnum huga. Þetta fékk hana til að hugsa um fortíðina þegar hún var ung og falleg og borðaði það sem hana langaði í. Skilaboðin frá markþjálfum eru að við þurfum hjálp. Síðan las Júlína upp persónulegt bréf sem hún fékk frá markþjálfa en þar fékk hún að heyra allt það sem hún gerði rangt og ef þetta ætti við um hana þá gæti nú markþjálfinn aldeilis hjálpað henni. En eins og flestar okkar hefur hún átt við ýmsa krankleika og hefur þá getað leitað til heilbrigðiskerfisins og fengið þar góða hjálp.
Í lokinn ræddi Júlíana um umhverfismálin og hvernig þetta hefði verið þegar hún var að alast upp. Þá var mjólkin ekki í fernum heldur var hún send með ílát til að sækja mjólkina í. Það voru ekki bílar og ekki plastpokar. Við þurfum að takast á við vandann þegar hann steðjar að en ekki ýta honum í burtu og tók hún sem dæmi um hræðslu hennar við mýs og hvernig hún leysti það.
Eftir þessi orð las Áslaug Ármansdóttir upp ljóð sem henni fannst tengjast umræðuefninu. Ljóði er eftir Þórarinn Eldjárn og heitir Sjálfsleit.
Síðan fengu fundargestir sér kaffi og snittur.
Valgerður og Ragnheiður voru með bókakynningu. Valgerður kynnti bókina Brimhólar eftir Guðna Elísson aktívista og umhverfissinna. Hún var heilluð af bókinni og las hana í annað sinn þegar hún var að undirbúa kynninguna. Það var margt sem heillaði en erfitt að segja frá án þess að segja of mikið. Það eru fáar persónur í þessari bók, textinn er gullfallegur og fléttan er snilld. Bókin er þroskasaga ungs pilts sem passar hvergi inn. Bókin gerist fyrir vestan þar sem eigast við andstæður pólskra innflytjenda og íslendinga, hún er hápólitísk. Hún segir frá íslenskum strák og pólskri stelpu sem kynnast. Það fer ekkert eins og ætlað er. Valgerður sagði að það hefði verið mjög gaman að lesa bókina í annað sinn því þá hefði hún séð margar vísbendingar í upphafi um það sem koma skal. Eftir að hafa lesið úr bókinni las hún ritdóm Snædísar Björnsdóttur af mbl.is. Bókin fær mann til að hugsa um mannréttindi, innflytjendur og stéttaskiptingu. Bókin er eins og konfektkassi, það þarf að lesa hana hægt.
Ragnheiður fjallaði um bók Petrós Gunnlaugs Garcia, Lunga. Þetta er ættarsaga 20 aldar sem fer alla leið í framtíðina eða til ársins 2089. Lunga fjallar um samskipti föður og dóttur og hvernig þau fjarlægast vegna skoðana sinna á líftækni. Bókin á sér stað víða um heiminn allt frá Hörgárdal til Víetnam. Bókin er löng í blaðsíðum talið og innihaldi en það eru miklar og trúverðugar lýsingar en einnig eru lélegar lýsingar. Ragnheiði fór að leiðast pínulítið um miðja bók þar sem það var langur aðdragandi að leyndarmálinu og þurfti hún því að rembast í gegnum hana á tímabili. Bókin er samt alveg þess virði að lesa og á meðan Ragnheiður var að kynna bókina þá var höfundur á Bessastöðum að taka við íslensku bókmenntaverðlaununum.
Ábendingar frá félagsmönnum um góðar bækur:
Eden – Auður Ava Ólafsdóttir
Þetta rauða er ástin – Ranga Sigurðardóttir
Blinda – Ragnheiður Gestdóttir
Guli kafbáturinn – Jón Kalman Stefánsson
Ég átti flík sem hét klukka – Ragnheiður Jónsdóttir
Síðan var bókahappdrætti en konur komu með bók sem þær voru tilbúnar að skipta út fyrir aðra.
Hildur Elín þakkaði nefndinni fyrir undirbúning og boðaði næsta fund 8. mars en mögulega yrði hann færður til 7. mars.
Undirbúningur næsta fundar er í höndum Dagnýjar, Sólborgar, Gunnlaugar, Valgerðar og Bjargar.
Önnur mál
Hugmynd kom um að skiptast á fötum sem ekki væru lengur í notkun
Hildur Elín sleit fundi kl. 21:40 með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi
Fundargerð skrifaði Svanhildur
Síðast uppfært 10. mar 2023