Fundargerð 7. október 2013
Fyrsti fundur Kappadeildar starfsárið 2013 til 2014 var að Brekkulæk 4 Reykjavík þann 7. október 2013 klukkan 19.00.
Formaður deildarinnar Sigríður Johnsen, setur fundinn klukkan 19:00 og kveikir á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi, býður
félagskonur velkomnar og þakkar gestgjafa kvöldsins, Önnu Kristínu Sigurðardóttur, fyrir að bjóða okkur að hafa fundinn á heimili
sínu. Einnig kynnti formaður fyrirlesara kvöldsins sem eru Guðbjörg Sveinsdóttir forseti DKG á Íslandi og Svana Helen Björsdóttir sem er
formaður samtaka iðnaðarins á Íslandi.
Sigríður kynnti þema starfsársins sem er ,,KONAN Í BRÚNNI“ Hún talaði um að allir þekki hugtakið ,,Karlinn í brúnni“ Oftast er þá átt við skipstjórann sem stóð vaktina í brú skips, stjórnaði aðgerðum, tók ákvarðanir sem gátu skipt sköpum um aflabrögð og afkomu og jafnvel skilið á milli lífs og dauða. Í vetur ætlum við að horfa á ,,Konuna í Brúnni ". Horfa til kvenna sem hafa látið til sín taka, eru frumkvöðlar, stjórnendur og leiðtogar og óragar við að taka kúrsinn, ákveða stefnu og standa vaktina í brúnni.
Nafnakall annaðist Gunnlaug Hartmannsdóttir og voru 20 konur mættar. Auk þess var Minnie Eggertsdóttir mætt en hún var meðal stofnfélaga Kappadeildar, en er nú flutt til Akureyrar.
Ritari las fundargerð 6. fundar sl. starfsárs sem var haldinn í Listaseli Erlu Axels þann 23. maí 2013.
Erla Gunnarsdóttir gjaldkeri tók til máls og ræddi árgjaldið og leggur til að það verði áfram 10 þúsund krónur og sendur yrði tölvupóstur til að minna á greiðslu.
Formaður lét félagatalið ganga og bað konur að merkja leiðréttingar inn á það og einnig gera athugasemdir ef þær vildu skipta út myndum.
Matur var borinn fram sem var í umsjá stjórnar. Á matseðli var súpa, salat og heimabakað
brauð. Eftirrétturinn var súkkulaðikaka, konfekt og kaffi.
Sigríður Hulda Jónsdóttir fyrrverandi formaður Kappadeildar sagði okkur frá ráðgjafafyrirtæki sínu sem hún hefur stofnað, en skammstafað heiti þess er SHJ sem eru upphafsstafir hennar og standa einnig fyrir orðunum Seigla, hugrekki og jafnvægi. Hún tekur að sér námskeið, erindi, ráðgjöf, stefnumótun og sérsniðnar lausnir fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki hvers konar. Sigríði var klappað lof lófa og óskað til hamingju með frumkvöðlastarf sitt.
Forseti DKG á íslandi Guðbjörg Sveinsdóttir ávarpaði fundinn og sagði frá starfi deildarinnar og þingum sem haldin hafa verið á árinu. Hvatti hún konur til að fjölmenna á ársþingið sem verður haldið á Ísafirði í maí 2014. Vorið 2015 verður síðan landssambandsfundur á höfuðborgarsvæðinu. Einnig sagði hún frá því hvaða konur sitja í stjórn landssambandsins en það eru: Sigríður Ragnarsdóttir úr Iotadeild sem er 1. varaforseti, Kristrún Ísaksdóttir Gammadeild 2. varaforseti, Þorgerður Sigurðardóttir ritari og Marsibil Ólafsdóttir úr Kappadeild meðstjórnandi. Forseti velur sér lögsögumann og verður Auður Torfadóttir Etadeild í því embætti næstu tvö árin. Guðbjörg sagði frá Evrópuráðstefnunni í Amsterdam sl. sumar þar sem Sigrún Klara Hannesdóttir fékk æðstu verðlaun DKG sem heita Achievement Award. Þetta er í fyrsta sinn sem kona frá Evrópu fær þessa viðurkenningu.
Framkvæmdaráðsfundur var haldinn 14. september þar sem formenn allra deilda sitja ásamt stjórn og fyrrvarandi landssambandsforseta. Stjórnin er að ljúka við starfsáætlun og er eitt af helstu markmiðum hennar að standa vel við bakið á formönnum og stjórnum deildanna og aðstoða eins og mögulegt er við eflingu deildastarfsins. Hugmyndin er að fara í heimsóknir og ræða reglulega við formenn efla rafræna upplýsingamiðlun og samskipti milli deilda. Í lokin óskaði hún Kappakonum farsældar í starfi sínu.
Annar fyrirlesari kvöldsins var Svana Helen Björsdóttir sem er formaður Samtaka iðnaðarins á Íslandi.
Svana byrjaði á því að segja frá ferli sínum, en hún er menntaður rafmagnsverkfræðingur. Hún ólst upp við hvatningu foreldra sinna til verfræðinámsnáms og nefnir hún föður sinn sérstaklega í því efni. Hún segir frá því að hún hafi fengið ótal spurningar um það hvað hún hygðist gera með menntun sína, þetta væri karlastarf. Hún stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og kemur svo heim og stofnar fyrirtæki sitt Stiku árið 1992 og árið 1996 stofnaði hún dótturfyrirtækið Stiki Ltd. í Bretlandi. Hún segir okkur frá því þegar þýski prófessorinn hennar spurði um það hvort hún ætlaði að stofna heimili og eignast börn og buru eða stefna á frama í starfi. Hún hafi svarað því til að hún hygðist gera hvort tveggja sem vakti undrun hans. Hún hafi staðið við það, eigi þrjú uppkomin börn og hún hafi ávallt notið stuðnings fjölskyldunnar í störfum sínum. Á námstímanum í Þýskalandi starfaði hún hjá Siemens í München og AEG í Seligenstadt. Svana hefur einnig stundað nám í rekstrarverkfræði við Háskóla Íslands og hlotið alþjóðleg starfsréttindi sem vottaður úttektarmaður stjórnkerfa fyrirtækja sem byggja á alþjóðlegum stöðlum.
Svana ræddi nauðsyn þess að fólk skynjaði hversu miklvægar framleiðslugreinar væru fyrir þjóðarhag og þörfina á að styðja við fyrirtæki sem væru í þeim geira. Þannig efldum við lífskjör fólksins í landinu. Áhugi á að efla iðngreinar í skólakerfinu væri því miður ekki nægilegur. Hún ræddi um stöðu stúlkna í skólakerfinu og rakti áhyggjur sínar af því hversu lítinn áhuga þær sýndu raungreinum og áhuga hennar á að bæta úr því. Sem formaður samtaka iðnaðarins á Íslandi beiti hún sér fyrir vakningu á því sviði og er verkefni í gangi sem nefnt er ,,Gert“ og er aðgerðaáætlun starfshóps á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka iðnaðarins til að auka áhuga 10-15 ára nemenda á raunvísindum og tækni.
Samtök iðnaðarins eru 20 ára í ár og verður sett upp sýning af því tilefni og er sýningin tileinkuð iðnnámi og kynningu á íslenskum iðngreinum. Svana svaraði síðan fyrirspurnum og hlustaði á sjónarmið fundarkvenna.
Eftir þessa umfagsmiklu dagskrá og frásagnir Kvenna í Brúnni, þakkaði formaður okkar Sigríður Johnsen fyrirlesurunum hjartanlega fyrir þeirra framlag og Kappasystrum fyrir komuna. Önnu Kristínu gestgjafa kvöldsins var þakkað sérstaklega fyrir að opna heimili sitt fyrir okkur. Allar fengu þær rauða rós í þakklætisskyni fyrir framlög sín á þessum fundi.
Fundi var síðan slitið klukkan 21:30 og slökkt á ljósum okkar sem eru tákn um trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.
Erla Guðjónsdóttir, ritari
Síðast uppfært 22. apr 2014