Fundur 11. febrúar 2010
Fundargerð 17. fundar Kappadeildar, 11. febrúar 2010
Haldinn í boði Erlu Guðjónsdóttur í Öldutúnsskóla
Fundarstjóri: Marsíbil Ólafsdóttir
Ritari: Sólborg Alda Pétursdóttir
1. Fundur settur, nafnakall viðhaft og uppstillingarnefnd kynnt.
Marsibil kveikti á kertunum og viðhafði nafnakall. 15 félagar mættir
Listi var látinn ganga um að konur gæfu leyfi fyrir því að myndir af þeim birtust á vef samtakanna. Tillaga að uppstillingarnefnd vegna stjórnarkjörs á aðalfundi í vor var kynnt. Lagt til að uppstillingarnefnd skipi; Guðný Gerður, Anna Sigríður og Áslaug. Tillagan var samþykkt með lófataki. Marsibil sagði frá dagsetningu næsta fundar en hann verður í boði Þeta deildar á Reykjanesinu þann 10. mars. Stefnt er að því að sameina í bíla. Vorþingið verður þann 17. apríl. Yfirskrift þingsins er „Góðir hlutir gerast“. Sigríður Johnsen er okkar fulltrúi í undirbúningsnefnd. Ekki er ólíklegt að ein okkar verði með erindi þar. Aðalfundur verður 20. maí í sumarbústað Önnu Kristínar á Mýrunum. Stefnt er að því að fara saman í rútu kl. 14:00 úr bænum.
2. Fundargerð síðasta fundar lögð fyrir fundinn
Fundargerðin borin upp til samþykktar. Fundargerð samþykkt einróma.
3. Orð til umhugsunar: Anna Sigríður Einarsdóttir
Þemað okkar í vetur er mannúð og menning og var hún með það í huga er hún samdi þetta erindi. Anna Sigríður hóf mál sitt með því að segja okkur að hún hefði lesið það að skáldsögur geri mennina greindari og fólk næði betri félagslegri færni með lestri bókmennta.
Hún er í bókaklúbbi og þar er verið að lesa Ódysseifskviðu eftir Hómer og Enesarkviðu eftir Virgil. Anna Sigríður fjallaði um mannúð og menningu í þessum tveimur bókum frá margvíslegum sjónarhornum. Hún las þessar bækur fyrir 40 árum en les þær með öðru hugarfari nú. Þetta eru margslungnar hetjusögur sem alltaf er verið að vitnað í. Áhersla er á hið mannlega og tilfinningum lýst af djúpum skilningi. Dauði, trygglyndi og vinátta er mjög sterk í þessum kviðum og einnig viðkvæmni og samúð. Í báðum kviðum kemur einnig fram að það átti að taka vel á móti þeim sem minna mega sín. Draumfarir og guðstrú er ríkur þáttur í þessum bókmenntum.
4. Bókakonur segja frá
Þrjár konur höfðu samþykkt að segja okkur frá bók/bókum sem þær hefðu lesið um ævina og breytt lífi þeirra á einhvern hátt.
Valgerður Magnúsdóttir byrjaði. Hún sagðist vera mikill bókaormur og fór vítt og breytt yfir sviðið í sínum pistli. Hún rifjaði upp helstu bækurnar sem hún hefur lesið á mismunandi tímabilum í lífi sínu; krakkabækurnar, fullorðinsbækurnar, Íslendingasögurnar, bækurnar sem hún las á Noregsárunum, í öldungadeildinni, útvarpssögurnar (Á Hljóðbergi), kvennabókmenntir og femínískar skáldsögur. Eftir nokkur ár sem liðu án lesturs tóku við krimmabókmenntir, bókmenntir frá ýmsum heimshlutum s.s.bækur Isabel Alliande, Flugdrekahlauparinn og Þúsund bjartar sólir. Hún les um þessar mundir bækur sem fjalla um siðferðileg málefni eins og „Á ég að gæta systur minnar“ og háskabækur. Eftir íslenska höfunda fílaði hún bækur Vigdísar Grímsdóttur til að byrja með. Karítasarbækur Kristínar Marju sem innihalda íslenska kvennasögu í 100 ár eru í uppáhaldi hjá Valgerði.
Þegar Valgerður hafði lokið sínum pistli fengum við okkur dýrindis kræsingar í boði Sigríðar Huldu, Sigríðar Johnsen og Marsíbilar.
Erla Gunnarsdóttir
Erla segist ekki vera mikill bókaormur og lesi aðallega hlaupabækur og lífeðlisfræði. Hún var hugsi yfir því hvernig hún átti að fjalla um efnið og bar það upp við dóttur sína hvort að bækur gætu breytt lífi manns á einhvern hátt. Dóttir hennar svaraði því til að bækur gætu breytt hugsunum manns og þar af leiðandi breytt lífinu á einhvern hátt.
Erla sagðist lesa mest bækur sem hún hefur heyrt um og reynir að nálgast þess vegna. En þessi bók sem hún ætlar að fjalla um nálgaðist hana. Hún sá þessa bók í Kaupfélaginu á Selfossi þegar hún var í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Bókin heitir „Af hverju afi?“ eftir Sigurbjörn Einarsson biskup. Hún hafði alist upp við sjónvarpsmessurnar með honum á jólunum og í minningunni var þetta vitur og virtur maður. Þessi bók er flokkuð sem barnabók en á erindi til allra. Biskupinn er afinn í þessari bók. Afinn svarar spurningum barna í einlægni með kímni og visku. Litli vinurinn spyr og afi svarar. Gullkornin eru mörg í bókinni og Erla sagðist sakna þess að ekki skuli vera komið fram við börn og talað við þau eins og gert er í bókinni.
Anna Kristín Sigurðardóttir
Anna Kristín ætlaði að fjalla um „Þrúgur reiðinna“ en þegar til átti að taka fann hún hana ekki í bókahillunni þannig að hún ákvað þess í stað að fjalla um bók Vigdísar Grímsdóttur Z en Vigdís er hennar uppáhalds höfundur. Bókin Z snart hana mjög. Vigdís skrifar um konur sem eru á jaðri samfélagsins. Vigdís afhjúpar breyskleika og veikleika í bókum sínum. Þessi bók fjallar um tvær systur og ástarmál þeirra. Anna er gift Hrafni en á ástkonuna Z. Arnþrúður er í ástarsambandi við Valgeir en karlar eru aldrei aðalpersónur bóka Vigdísar. Það er mikið af ljóðum í bókinni og Anna Kristín las fyrir okkur ljóð og kafla úr bókinni, kafla sem fjallaði um kvöld í lífi Arnþrúðar og Valgeirs þar sem allt fer úr böndunum vegna afbrýðissemi hennar.
Fundi lauk kl. 22:00
Síðast uppfært 14. maí 2017