Fundargerð 24. október 2018.
Annar fundur starfsársins hófst að Gljúfrasteini þar sem Kappakonur fengu leiðsögn Guðnýjar Dóru Gestsdóttur um sýninguna „Frjáls í mínu lífi“. Sýningin er tileinkuð Auði Laxness, handverki hennar og hönnun en í ár eru 100 ár frá fæðingu hennar.
Guðný Dóra leiddi okkur um húsið og sagði okkur sögur af lífi og starfi Auðar sem einkenndist af miklum önnum í kringum Nóbelskáldið og heimilishaldið á Gljúfrasteini. Auður var ritari og nánasti samverkamaður Halldórs, rak heimilið og stundaði vinnu utan heimilis sem handavinnukennari. Þá var hún á meðal stofnenda kvennablaðisns Melkorku og var í ritnefnd Hugar og handar, blaði Heimilisiðnararfélags Íslands. Auður skrifaði greinar um vefnað, prjón og fornar íslenskar listir í þessi rit, auk þess að vinna að hannyrðum og hönnun.
Á sýningunni mátti sjá einstakt handverk Auðar s.s. Maríuteppið sem hún saumaði handa Halldóri í tilefni Nóbelsverðlaunanna, prjónastykki, útsaumsverk innblásinn af Picasso, milliverk í sængurfötum og margt fleira. Árið 2002 fékk Auður stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar menningar.
Að lokinni leiðsögn var haldið í Mosfellsbæ á veitingastaðinn Blik þar sem fundur var settur af Ingibjörgu formanni með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Ingibjörg tók nafnakall og voru tuttugu og ein kona mættar. Lesin var fundargerð fyrsta fundar vetrarins og var hún samþykkt að teknu tilliti til tveggja leiðréttinga.
Gunnlaug flutti kappakonum orð til umhugsunar þar sem útgangspunktur hennar var: Hvert leiðir lífið okkur? Tökum við meðvitaðar ákvarðanir út frá kostum og göllum eða leiðir margt að því að við opnum fyrir ákvarðanir sem áður hafa verið okkur fjarri? Gunnlaug er alin upp í Skagafirði, vígi íslenska hestsins en drógst ekki að hestamennsku fyrr en fyrir 12-15 árum í gegnum eiginmann sinn og dætur. Hestamennska er ekki bara huggulegir útreiðartúrar því að mörgu er að hyggja; koma þarf hestunum í haga og lengi vel voru hestar fjölskyldunnar norður í Skagafirði en síðustu ár nær borginni í Flóanum. Eiginmaður Gunnlaugar hafði þá nokkrum sinnum velt upp þeirri hugmynd að flytjast í sveitina en hún ekki hleypt þeirri hugsun að. Eftir umhleypingarsaman vetur og ýmsar vangaveltur var ákvörðun tekin í apríl, jörð keypt í Flóanum og þau flutt í lok júní sama ár. Gunnlaug keyrði síðan í vinnu einn vetur á milli Flóans og borgarinnar en ákvað svo að opna fyrir möguleikann; sækja um starf sem skólastjóri. Nýjar áskoranir tóku við þar sem skólastjóri leiðir hóp fólks og þarf að huga að líðan allra og farsæld í starfi, að auki hafa orðið gríðarlegar breytinar á skólaumhverfinu frá því hún var þar síðast árið 2002. Gunnlaug skildi okkur því eftir með spurninguna: Hvaða leið förum við að ákvörðunum okkar?
Ingibjörg færði Gunnlaugu rós og þakkir. Að því loknu var fundi slitið kl. 20.10 með því að slökkva á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Ingibjörg þakkaði skipuleggjendum fundarins.
Fundarkonur áttu síðan góða stund yfir mat, spjalli og hugmyndum.
Anna Kristín Sigurðardóttir bauð kappakonum að koma á viðburð á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þann 22. nóvember kl. 15 en þá verður haldið upp á framgang og ráðningu hennar í prófessorsstöðu.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 20. des 2018