Fundargerð 16. maí 2019

Síðasti fundur vetrarins á starfsárinu 2018 -19 var vorferð deildarinnar og í umsjón stjórnar. Lagt var af stað á Akranes um kl. 16 og voru fimmtán konur mættar í rútuna.

Á Akranesi tóku Guðlaug Sverrisdóttir og Ásta Egilsdóttir úr Delta deild á móti Kappasystrum við Akranesvitann. Hilmar Sigvaldason „vitavörður“ sem á hugmyndina að því að opna vitann fyrir gestum sagði frá ævintýrinu sem leitt hefur til þess að nú er staðurinn menningarmiðstöð og aðdráttarafl fyrir þá sem vilja njóta myndlistar, tónlistar og útsýnis. Soffía Vagnsdóttir kappakona prófaði að tóna inn í vitanum með Hilmari og síðan tóku fleiri konur til við að þenja raddböndin á leið sinni upp þrönga stigana og út á útsýnispallinn. Í blíðviðrinu þennan dag mátti sjá stórfenglegt útsýni allt frá Reykjanesskaga, yfir höfuðborgina, Faxaflóann og Snæfellsjökul. Ekki var laust við svima á toppnum. Að heimsókn lokinni var haldið í Studio Jóka þar sem fimm handverks- og myndlistarkonur eru með vinnustofur og sinna þar hönnun og list sinni. Þá var haldið af stað niður á Langasand þar sem gengið var meðfram ströndinni og staldrað við til að skoða Guðlaugu, heita laug í grjótgarðinum.

Áður en haldið var um borð í rútuna þakkaði Ingibjörg formaður þeim Ástu og Guðlaugu og færði þeim rósir.

Næsta stopp var Hótel Glymur í Hvalfirði þar sem settur var fundur með því að kveikja á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Lesin var fundargerð síðasta fundar og hún samþykkt. Áslaug Ármannsdóttir fór því næst yfir reikninga Kappadeildar og tillögu að óbreyttu árgjaldi kr. 15.000.- sem nú er innheimt í júní í gegnum heimabanka. Engar athugasemdir komu fram varðandi reikninga eða árgjaldið og hvoru tveggja samþykkt með lófataki.
Ingibjörg formaður sagði fundarkonum frá Landsambandsþinginu 4. maí sl. en Guðrún Edda Bentsdóttir úr Kappa var þar kosin í nýja stjórn DKG og Ingibjörg E. Guðmundsdóttir úr Alfa er nýr forseti. Ingibjörg rakti einnig lagabreytingar sem gerðar voru á þinginu og eru hugsaðar fyrst og fremst til að skýra verksvið og færa orðalag til dagsins í dag.

Þessu næst var komið að Orðum til umhugsunar. Ingibjörg formaður okkar lagði þar út frá því hversu frábært það væri að vera amma og hversu lærdómsríkt það væri að umgangast barnabörnin. Hún tók skemmtileg dæmi meðal annars um aðstæður sínar 13 ára að skrifa enskan stíl, flettandi upp í orðabók og síðan barnabarnanna sem tengjast snjalltækjum og eru komin mun lengra í enskri tungu. Kynslóðirnar geti kennt hvor annarri margt nytsamlegt. Amma geti hjálpað til við lærdóminn, lagt áherslu á gildi lesturs og börnin kennt ömmu að nýta snjallsímann sinn betur og að leigja mynd í sjónvarpinu. Þannig geti reynsluheimur beggja mæst á miðri leið; mótandi sveitin og snjallheimur nútímans.

Önnur mál. Ingibjörg minnti því næst á Alþjóðaráðstefnuna í sumar og Sigríður Johnsen hvatti konur til að skrá þátttöku í einstaklega glæsilegri dagskrá. Stefnt er að því að tvö hundruð konur taki þátt, skráning hefur verið góð erlendis frá en dræmari hjá íslensku konunum.

Kappakonur nutu síðan veitinga og að lokum tók Soffía Vagnsdóttir upp gítarinn og sungið var við raust.
Í lok fundar voru þakkir og rósir færðar Soffíu fyrir að leiða söng og Gunnhildi Óskarsdóttur fyrir Orð til umhugsunar á fundi í febrúar.

Ingibjörg sleit því næst fundi með því að slökkva á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu.

Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir

 

 


Síðast uppfært 02. okt 2019