28. september 2017
Fundargerð Kappadeildar 28. september 2017
Fyrsti fundur vetrarins hófst kl. 17.30 á kynningu í húsnæði Kara connect í Aðalstræti 12, annari hæð, en hefðbundnum fundarstörfum var síðan framhaldið í Geysi Bistro í gamla Geysishúsinu við sömu götu.
Fjórir starfsmenn Köru tóku einstaklega vel á móti Kappa konum og kynntu þeir upphaf þeirrar starfsemi sem í dag hefur þróast í hugbúnaðarfyrirtækið Köru. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnaði upphaflega fyrirtækið Töppu en hugmyndin var að þjónusta börn með talgalla eða frávik í málþroska í gegnum vefinn. Markmiðið var að nýta tæknina og þróa tækniframfarir til kennslu og þálfunnar þar sem aðgengi að sérfræðingum var erfitt. Við tók ævintýri sem ekki sér fyrir endann á og eru fyrirtækin tvö í dag systurfyrirtæki.
Hilmar Freyr Emilsson teymisstjóri leiddi fundarkonur í gegnum veflægt markaðstorg Köru þar sem skjólstæðingar hafa aðgengi að þjónustu sérfræðinga í mennta-, velferðar- og heilbrigðisgeiranum og sérfræðingar veita meðferð og þjálfun í gegnum einfaldan fjarfundarbúnað, hafa aðgang að vinnusvæði með bókunum, dagatali, vefmyndabúnaði og fjármálaumsýslu. Um hundrað einkafyrirtæki sérfræðinga nýta sér Köru í dag. Netumhverfið sem unnið er í fór í loftið í janúar á þessu ári og er því enn í þróun. Viðmót bæði sérfræðings og skjólstæðings er á Köru vefsvæðinu og því þarf ekki að hlaða niður neinum forritum á tölvu viðkomandi, einungis að hafa gott netsamband og vefmyndavél. Töluverðar umræður spunnustu um þjónustuna. Meðal þess sem fram kom er að öll gögn á vefnum eru dulkóðuð og sérfræðingar borga mánaðargjald fyrir aðganginn. Skjólstæðingar greiða sjálfir fyrir tíma sérfræðinganna en einnig Sjúkratryggingar og sveitafélög í gegnum samninga. Teymisstjóri Köru tekur viðtöl við sérfræðinga sem vilja bjóða þjónustu sína og tryggir þannig sérfræði viðkomandi, en ekki hefur verið farið út í að krefjst skila á prófgráðum. Þá kom fram að mörgum skjólstæðingum þykir þessi háttur á þjónustu henta sér vel þar sem aðgengi sé auðvelt, ekki þurfi að mæta á ákveðinn stað á ákveðnum degi.
Að lokinni þessari fróðlegu kynningu var Köru starfsfólki afhent rós og haldið upp á næstu hæð þar sem Trappa er til húsa og tók Tinna Sigurðardóttir talmeinafræðingur á móti fundarkonum. Tinna kynnti starfsemi Tröppu sem hófst með fjórum börnum á Vestfjörðum árið 2014. Í dag starfa fimm talmeinafræðingar, einn náms- og starfsráðgjafi og einn atferlisfræðingur hjá Tröppu. Trappa er í dag alhliða ráðgjafa og þjónustuaðili fyrir nemendur á öllum skólastigum. Starfsemin er fjórskipt; talþjálfun,ráðgjöf við skóla, tækni og vísindi, starfsþjálfun og menntun.
Tinna rakti að aðstæður foreldra eru misjafnar og víða um land er þjónusta sem þessi í gegnum netið eina leiðin því aðgengi að sérfræðingum er stopult og jafnvel ekki í boði. Tinna var spurð hvort sambandið sem kemst á milli barns og kennara / þjálfunaraðila tapist í gegnum netið? Tinna sagði að sá þáttur væri tvímælalaust áskorun en sitt mat væri að traust og nánd skapaðist eigi að síður. Þá kom Tinna inn á að börn og ungmenni í dag eru mjög tæknivædd og tæknin hluti af þeirra daglega lífi og samskiptum. Eitthvað er þó um að farnar séu ferðir út á land til að leggja fyrir próf og hitta börnin. Yfirleitt fer kennsla/þjálfun barna fram innan leik- eða grunnskóla þar sem starfsmaður er alltaf með barninu í stundinni. Í einhverjum tilfellum er foreldri með annan hvorn tíma og hefur það gefið góða raun. Talmeinafræðingar Tröppu þjónusta núna um hundrað börn í viku hverri.
Á þessum tímapunkti var komið að því að þakka fyrir gestrisni, afhenda Tinnu rós og halda í norðurátt eftir Aðalstræti og inn á Geysi Bistro þar sem beið okkar ljúfengur matur. Guðrún Edda Bentsdóttir formaður setti þar fundinn og kveikti á kertum trúmennsku, hjálpsemi og vináttu. Ingibjörg S. Guðmundsdóttir tók nafnakall og voru ellefu konur mættar. Ingibjörg sagði 25 konur í Kappahópnum samkvæmt skráningu; tvær þeirra verða í leyfi í vetur.
Sigríður Hulda flutti orð til umhugsunar og lagði þar út frá orðinu hugrekki og hvort það skipti máli? Hún benti á að hægt væri að sýna hugrekki á margvíslega vegu í daglegu lífi eins og að sýna seigu, með því að hlúa að öðrum eða sjálfum sér, með því að sleppa og setja mörk og með því að ákveða að lifa skemmtilegu lífi. Allt snérist þetta um að taka ákvörðun og stundum að upplifa vonbrigði, verða fyrir missi, finna pressu og velta fyrir sér hvenær nóg er nóg? Sigríður Hulda beindi spurningum um hugrekki til fundarkvenna og bað þær að velta fyrir sér hvernær þær hefðu síðast sýnt hugrekki í sínu lífi og verið stoltar af því, hvenær þær vildu sýna hugrekki í framtíðinni og hvenær þær völdu hugrekki síðast? Þá bað hún fundarkonur að snúa sér að næsta sessunaut og ræða saman stutta stund um hugrekki. Í lokin hvatti Sigríður Hulda fundarkonur að taka hugrekki með í líf sitt og afhenti Guðrún Edda henni rós.
Því næst tók Ingibjörg S. Guðmundsdóttir til máls og sagði frá fundi framkvæmdaráðs sem hún sótti fyrir hönd Kappadeildar. Áhersla var lögð á að deildir efldu starf sitt út frá markmiðum samtakanna. Þá voru deildir einnig hvattar til að bjóða nýjum félögum aðild og huga þar að breiðum bakgrunni félaga. Einnig var minnt á að alltaf skuli bera upp tillögu um nýja konu á fundi áður en henni er boðin aðild og er það liður í að huga vel að fundarsköpum. Þá var minnt á Evrópu ráðstefnu samtakanna sem haldin verður á Íslandi 24. - 27. júlí 2019 en undirbúningur er þegar hafinn.
Guðrún Edda sagði frá því að Gunnhildur Óskarsdóttir sótti um að verða alþjóðlegur fyrirlesari á vegum Delta Kappa Gamma og segja þar frá verkefninu „Göngum saman“. Guðrún Edda hvatti fundarkonur til frekari þátttöku í því sem boðið er upp á á vegum samtakanna. Áslaug Ármannsdóttir gjaldkeri minni á árgjaldið sem verður innheimt í gegnum heimabanka 1. nóvember.
Guðrún Edda formaður sleit fundi kl. 20.00 með því að slökkva á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Fundarritari Ragnheiður Axelsdóttir
Síðast uppfært 08. nóv 2017