27. september 2010
Fyrsti fundur vetrarins 2010 til 2011 í Kappadeild var haldinn í veitingahúsinu Nauthól mánudaginn 27. september 2010
Við mættum við Nauthól klukkan 19:30 til að hreyfa okkur hressilega undir stjórn Erlu Gunnarsdóttur. Gengið var sem leið lá um krákustíga Öskjuhlíðar þar til við komum upp að Perlu og síðan aftur til baka. Þetta var hressandi ganga bæði fyrir líkama og sál enda vorum við óspart minntar á að muna eftir að horfa í kringum okkur og njóta umhverfisins á göngunni.
Þegar í veitingahúsið var komið, setti Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður deildarinnar fund klukkan 20:15.
Þema vetrarins er: Styrkjum sjálfið, styrkjum vináttuna.
Marsibil Ólafsdóttur, sem var formaður okkar fyrstu þrjú ár deildarinnar, var færður blómvöndur í þakklætisskyni formannsstörf hennar. Sigríður Johnsen, varaformaður viðhafði nafnakall og voru 16 konur mættar. Tillaga um 10 þúsund króna árgjald var borin upp og samþykkt. Sólborg Alda Pétursdóttir las fundargerð síðasta fundar sem var samþykkt. Að því loknu var borið fram kjúklingasalat sem smakkaðist afar vel og góður tími gafst til að rabba saman meðan á borðhaldi stóð.
Sigríður Hulda færði okkur orð til umhugsunar.
Í orðum sínum til umhugsunar fyrir okkur, lagði hún áherslu á hversu mikilvægt það væri að hafa faðminn opinn með sól og birtu í sinni. Við þurfum að finna eldinn sem við göngum með í hjartanu. Hlúum að eldinum og gætum þess að hann kulni ekki. Gerum okkur grein fyrir því í hvað við viljum nota tímann okkar, hvað er að styrkja okkur og hvað ekki. Við fengum að sjá táknmynd sem var skúta á siglingu undir fullum seglum og samlíkingin er, að skútan færir okkur á milli hafna eins og við förum á milli verkefna, seglin eru styrkur okkar og vindurinn byrinn sem við fáum á leið okkar. Stækkum seglin, fjölgum þeim og breiðum úr þeim, dveljum við styrkleikana og lifum því lífi sem við viljum lifa. Munum eftir því að vera okkar eigin vinkona, eigin ferðafélagi og eigi leggja það í vana að skamma vinkonuna eða ferðafélagann, það er niðurbrot.
Sigríður Johnsen færði nöfnu sinni rós fyrir öll góðu heilræðin sem hún færði hópnum og tók fram að rauða rósin væri tákn um sköpun og andríki.
Þegar hér var komið kvölds stóðum við upp og teygðum okkur undir stjórn Erlu Gunnarsdóttur.
Síðasti hluti dagskrárinnar var fólgin í því að Kappasystur sögðu frá sjálfum sér, styrkleikum sínum og því sem þær væru að fást við og hefðu fengist við um ævina. Í þeim frásögnum komu eiginleikar eins og hjálpsemi,æðruleysi, tilfinningalegt jafnvægi, skopskyn, áreiðanleiki, kunna að gleðjast með öðrum, lausnamiðuð, mikilvægi þess að sortera frá það sem angrar og reyna að leggja það til hliðar. Ábyrgð og samviskusemi voru atriði sem einnig komu fram og að við yrðum að huga að því að allir góðir styrkleikar geta snúist upp í andhverfu sína.
Nokkrar áttu eftir að segja frá þegar kvöldstundin var liðin og verður haldið áfram á næstu fundum.
Fundi var slitið klukkan 10:05
Erla Guðjónsdóttir, ritari.
Síðast uppfært 14. maí 2017